05.12.1983
Neðri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég hélt ekki að það þyrfti að svara þm. þeirri spurningu, hvort þingið hefði heimild til að segja álit sitt. Það liggur í augum uppi að Alþingi getur sagt álit sitt og tekið mál til meðferðar ef það telur ástæðu til. Það fer eftir meirihlutavilja á Alþingi hvort svo verður eða með hvaða hætti í hverju einstöku tilviki og samkvæmt stjórnarskipunarlögum fer það og að hve miklu leyti tekið verður tillit til slíkrar viljayfirlýsingar sem Alþingi kann að samþykkja og ráðh. er skylt að fylgja ef svo skipaðist veður í lofti. (ÓRG: Spurning mín var vegna þess að ráðh. veit að það þarf samvinnu forseta og ríkisstj. til að till. komi til Alþingis í tæka tíð áður en atkvgr. fer fram.)

Þetta svar mitt var bundið við almenn viðhorf. Varðandi það viðhorf sem skapast í tengslum við þessa atkvgr. gat ég um að ég hefði borið ábyrgð á því að Ísland hefði í afgreiðslu nefndar setið hjá. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að breyta þeirri atkvgr. við afgreiðslu málsins á allsherjarþinginu sjálfu. Og ég tek það líka fram að gefnu tilefni að Alþingi ætti mjög óhægt með að fjalla um atkvgr., þó ekki væri nema í mikilvægustu málum, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vegna þess að þá gerði Alþingi jafnvel ekki mikið annað. Hér hefur forseti nefnt að miklar annir væru fyrir hendi og afgreiðsla mála gengi of seint að hans eigin mati.

Ég rifja það upp, einnig að gefnu tilefni, að sá háttur hefur athugasemdalaust verið á hafður að utanrrh. beri ábyrgð á því hvernig atkvæði Íslands fellur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur þar sér til ráðuneytis þátttakendur í þingstörfum á vettvangi sameinuðu þjóðanna, þar á meðal fulltrúa frá þingflokkunum, sem þar geta komið fram sjónarmiðum sínum, og ef vafi leikur á hvernig atkvæði Íslands skuli falla eru þessi sjónarmið vegin og metin og ákvörðun tekin. Í fyrra tók forveri minn þá ákvörðun að sitja hjá við atkvgr. um þessa tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þeir sem óska eftir fyllri rökum en ég flutti varðandi mína ákvörðun geta flett upp í skýrslu forvera míns um utanríkismál á síðasta þingi og kynnt sér hans rök fyrir þeirri afstöðu sem þá var tekin og ég var sammála og er sammála og er þáttur í því að ég tók þá afstöðu sem hefur verið greint frá.

Ég hlýt að vekja athygli á því að hv. 3. þm. Reykv. var í ríkisstj. fyrir ári, þegar með atkvæði Íslands var farið á þann veg sem ég hyggst gera að þessu sinni aftur, og bar þess vegna fulla ábyrgð á því. (Forseti: Á hæstv. ráðh. mikið eftir?) Nei.

Ég ætla svo að svara annarri spurningu, sem hv. þm. (Forseti: Það styttist mjög sá tími sem við höfum til ráðstöfunar.) Ólafur Ragnar Grímsson kom með, hvort greinargerð mín væri á ábyrgð ríkisstj. eða á mína ábyrgð. Ég tala hér sem utanrrh. og flyt mínar eigin skoðanir. Það er ekkert tækifæri að bera sig saman í einstaka atriðum við samstarfsmenn í ríkisstj. þegar umr. eru utan dagskrár.

Í þriðja lagi vildi ég svo svara þriðju spurningu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, hvort ég féllist á afgreiðslu danska þingsins. Mér finnst nú, með allri virðingu fyrir Dönum, Íslendingum brugðið ef þeir ætla að draga dám af dönskum í þessu falli.