06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

420. mál, efling kalrannsókna

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þeim umr. sem hér hafa orðið um kalrannsóknir og tek undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess að efla þær, enda þótt verulega hafi verið unnið að þeim málum á undanförnum árum. Ég mun ekki ræða það mál frekar í þessum stutta fyrirspurnatíma.

Ég vil hins vegar láta í ljós að ég hef undrast ómerkilegar slettur frá hv. þm. Stefáni Benediktssyni í garð landbúnaðarins. Hann lét sér t.d. um munn fara áðan að það væri erfðasjúkdómur hjá tilteknum hópi framsóknarmanna að hafa sérfræðiþekkingu á landbúnaðarmálum. Vilji og hugur þessa hv. þm. hefur komið fram áður hér úr ræðustól á Alþingi í garð landbúnaðarins, sem hefur verið af lítilli þekkingu og helst til litlum góðvilja. Ég vil hins vegar aðeins segja það hér, að ég get fullyrt að í öllum stjórnmálaflokkum eru til menn sem hafa sérfræðiþekkingu á landbúnaðarmálum. Ísland á marga sérfræðinga sem eru mjög færir á þessu sviði og þeir eru ábyggilega úr öllum stjórnmálaflokkum. Og það er enginn erfðasjúkdómur í einhverjum tilteknum flokki að hafa þekkingu á þessum málum eða áhuga.