06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

112. mál, nýting ríkisjarða í þágu aldraðra

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins um þessa till. Hún hefur verið flutt hér á allmörgum þingum og aldrei orðið útrædd. Hér er mál sem eru þess virði og vel það að það sé kannað nánar. Þó einhverjum finnist kannske einhver draumablær á till. þá er ég ekki þeirrar skoðunar að svo þurfi að vera heldur sé þetta mál sem veruleg ástæða sé til að skoða. En ég sé það, herra forseti, að enginn hæstv. ráðh. er staddur hér í salnum um þessar mundir og ég vildi aðeins í framhaldi af þessari till. minna á þáttill. sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi 27. apríl 1982 sem hnígur að sumu leyti í sömu átt og þessi. 1. flm. þeirrar till. var á sínum tíma sighvatur Björgvinsson en þessi þáltill. sem Alþingi samþykkti hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa sjö manna n. til þess að kanna og gera till. um hvaða jarðeignir í þágu ríkisins megi nýta undir orlofsbúðir félagasamtaka og sumarhúsabyggingar einstaklinga. N. skal skila skýrslu um niðurstöður til Alþingis.“

Hér er sem sagt einnig um að ræða að kanna möguleika á nýtingu bújarða í eigu ríkisins, ekki sérstaklega í þágu aldraðra heldur fyrir orlofsbúðir á vegum félagasamtaka eða sumarhús einstaklinga. Nú er mér ekki kunnugt um að skýrsla um þessi mál hafi verið lögð fyrir Alþingi og því hefði ég viljað beina þeirri fsp. til félmrh. — mér er nú ekki alveg ljóst undir hvorn ráðh., félmrh. eða landbrh., þetta heyrir þar sem jarðeignir ríkisins heyra undir landbrh., en starfsemi sem varðar orlofsbúðir félagasamtaka heyrir væntanlega undir félmrh. Nú hefði ég viljað mælast til þess við hæstv. forseta að hann léti kanna hvort hæstv. félmrh. eða hæstv. landbrh. eru hér í húsinu þannig að þeir gætu svarað þessari fsp. (Forseti: Þetta verður kannað til fullnustu, en ég hygg að hvorugur sé í húsinu. Þeir munu ekki vera í húsinu, fjmrh. er sá eini í húsinu.) Þeir eru ekki í húsinu. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. getur svarað þessum spurningum mínum, raunar get ég ekki ætlast til þess með neinni sanngirni, en ég mun þá ítreka þessar spurningar við hentugleika og mælist þá til að þessari umr. verði ekki lokið núna þannig að tækifæri gefist til að bera þessar spurningar upp við þá ráðh. sem hér eiga hlut að máli.