07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir við þetta frv. Ég skil mjög vel það sem fram kom í ræðu hv. 5. landsk. þm. þar sem hann talar um miðstýringu í þessum efnum og fór hann þar með rétt mál. Það eru lögin um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála sem gera ráð fyrir þessu. Þessi löggjöf er í endurskoðun og ég hafði hugsað mér að það yrði allt, ekki aðeins það sem nú er að gerast heldur löggjöfin öll og þau vinnubrögð sem við eru höfð, endurskoðað eftir því sem að sjálfsögðu tími vinnst til en því, sem hægt er að breyta með ákvörðunum ráðh. með breyttum reglugerðum, verði breytt. Þegar svo þessu væri öllu saman lokið yrði, ef ástæða þætti til sem mér finnst mjög líklegt, lagt fram frv. um endurskoðaða löggjöf og þá yrði að sjálfsögðu framkvæmdaatriði tekin þar til meðferðar.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Austurl. kom hér inn á, er því ekki að neita að með því, að bankar taki upp alhliða gjaldeyrisviðskipti, hlýtur það að auka á kostnað þeirra. Þegar Búnaðarbankinn fékk sína heimild var lögð á það áhersla að það yrði gert með sem allra minnstum tilkostnaði. Búnaðarbankinn hins vegar tók upp alhliða gjaldeyrisviðskipti en þeir bankar sem í dag hefja gjaldeyrisviðskipti, þ.e. Verslunarbankinn, Iðnaðarbankinn og Samvinnubankinn, hefja aðeins takmörkuð gjaldeyrisviðskipti og hugsun mín sem viðskrh. var að slíkt gerðist. Hér er um að ræða gjaldeyrisreikninga sem hægt yrði að leggja inn á og þjónustu við ferðamenn. Þetta yrði það sem gert yrði fyrst og ég hef lagt á það áherslu að reynt yrði að hafa sem mest samstarf. Þessir þrír bankar hafa samstarf við Útvegsbankann um þessi mál, sérstaklega í sambandi við gjaldeyrisverslun varðandi ferðamenn og svo líka með hvaða hætti ávaxta skuli af þeirra hálfu það fjármagn sem inn kemur á gjaldeyrisreikninga. Hér held ég ekki að sé um verulegan tilkostnað hjá þessum stofnunum að ræða og ég hygg að hjá þeim sparisjóðum, sem tækju upp gjaldeyrisviðskipti, yrði nákvæmlega það sama fyrirkomulag.

Ég á von á því að stærstu sparisjóðirnir komi til með að hafa sams konar gjaldeyrisviðskipti og þessir bankar, sem hefja þau í dag, og það verði gert í samkomulagi við gjaldeyrisbankana, sem eru með alhliða gjaldeyrisviðskipti. Af því að hv. 2. þm. Austurl. vék að þeirri stofnun, sem ég veitti forstöðu um 10 ára skeið og síðan formennsku, en er ekki lengur þar í starfi því að það þótti að sjálfsögðu ekki hlýða að viðskrh. gerði slíkt, svo að ég sagði því af mér, á ég von á því að sú stofnun taki upp gjaldeyrisviðskipti einmitt með þessum hætti en að samtök sparisjóða nái einhvers konar samkomulagi við gjaldeyrisbankana um meðferð þessa máls þannig að allur tilkostnaður í sambandi við þetta sé í lágmarki.

Ég vonast til að þessar upplýsingar mínar sýni hv. þm. fram á það að það, sem hér er verið að gera. er, held ég, rétt. Það er verið að veita borgurunum í landinu þjónustu með því að tilkostnaður sé í lágmarki.