08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefði gjarnan kosið að umr. þessari hefði lokið á síðasta fundi. Það skil ég vei. Hann harmar einstakar ræður sem fluttar hafa verið á þessum fundi og það skil ég enn betur. Mér finnst það bara fullklúrt í garð hv. varamanns, Ólafs Ragnars Grímssonar, að tala sisona.

Ég mæli hins vegar eindregið með því að við höldum þessari umr. áfram, en þó með þeim hætti að hv. 5. þm. Austurl., aðalmálsvara Alþb. í þessu máli, gefist fullur kostur á að ræða málin, en hann hefur nú, eins og hann sagði sjálfur, talað sig dauðan. Ég mun, herra forseti, eindregið fara þess á leit að það verði gert meðan t.a.m. hv. varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson situr hér því að málflutningur hans er alltaf málstað manns til styrktar. Ég mundi kannske reyna til við að flytja þetta boðaða frv. og þá getum við tekið það til umr., að vísu í deild, en báðir þessir hv. þm. eiga sæti í Nd. og mundi ég þá flytja það þar. Þá gætum við fengið tækifæri til að taka enn eina snerru í þessu máli.

En aðeins til leiðréttingar — og ég verð að koma að því síðar, herra forseti, miklu gleggra — þessari endileysu sem kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Það er aðeins þessi leiðrétting — og þykir mér nú stungin tólg ef hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ætlar að byggja aðalflutning sinn á mismæli eins og mér varð á í upphafi ræðu minnar þegar ég vitnaði til dagsetninga. Hér er ég með í höndum skjal undirritað af Halldóri V. Sigurðssyni ríkisendurskoðanda, Júlíusi Sólnes prófessor, Halldóri J. Kristjánssyni lögfræðingi iðnrn., Stefáni Svavarssyni lögg. endurskoðanda, þar sem segir svo orðrétt, herra forseti:

„Heildarskýrsla um endurskoðunina barst iðnrn. 14. sept. 1983.“

Ég kem kannske síðar að frekari útlistun á þessu, en skýrslan var ekkert leyndarmál. Henni var ekki skotið undir stól af mér. Hún mátti vera öllum vitanleg. Menn gátu, allir sem þekktu málið, sagt sér fyrir fram hvert innihald hennar mundi verða og viðbrögð Alusuisse í því sambandi. Ekkert efni er í þessari skýrslu sem þarf að skjóta undir stól, það kom enda aldrei til greina af minni hálfu. Þetta vil ég að skýrt komi fram og vona ég nú að menn finni einhver haldbetri rök en mismæli til þess að byggja málflutning sinn á, eins og t.a.m. sú dæmalausa uppáfinning hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að þegar ég hef að orðtaki að Alusuisse hafi fengið skýrsluna til umsagnar eins og lög gera ráð fyrir, þá spyr hann: „Hvar er lagagreinin?“ — þegar við tölum um sjálfsagða hluti og segjum sem svo að eitthvað fari fram eins og lög gera ráð fyrir, eins og sjálfsagður hlutur, en ekki af því að það gildi sérstök lagasetning um málið. (HG: Hvað gerir það sjálfsagt í augum ráðh.?) Hvað gerir það sjálfsagt að gefa gagnaðila að máli tækifæri til þess að svara fyrir sig í gagnrýninni skýrslu sem að honum er beint? Það eru venjulegir mannasiðir sem gera það, en hv. þm. kunni þá aldrei í þessum viðskiptum á sínum tíma.