08.12.1983
Neðri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem er nú á dagskrá kemur hér inn vonum seinna miðað við þær yfirlýsingar sem hæstv. núv. félmrh. hefur gefið á undanförnum mánuðum um að hann væri að leysa vanda húsbyggjenda í þessu landi og hann ætlaði nú aldeilis að standa þannig að málum að sá vandi yrði leystur, helst í eitt skipti fyrir öll, fyrir n.k. áramót. Hæstv. félmrh. hóf feril sinn á því að lýsa því yfir að nauðsynlegt væri að stórhækka húsnæðislán. Og í kosningabaráttunni í vor settu þeir það fram, hv. þm. Gunnar G. Schram og hæstv. utanrrh. fyrir hönd Sjálfstfl., að lánin ættu að hækka í 80% og það strax, ef þessir menn fengju einhverju ráðið. Hæstv. núv. félmrh. söng þar eins konar millirödd, tók undir og ýtti undir að í rauninni væru hin lágu lánshlutföll í húsnæðismálum mest ræfildómi Alþb. að kenna og aðallega fyrrv. félmrh. og það mundi nú kveða við annan róm í páfadóm þegar þeir settust þar við völd, Alexander og Albert og þeir fleiri félagar úr Samvinnuskólanum sem núna stýra málum í ríkisstjórn Íslands.

Þegar hæstv. félmrh. var sestur í stólinn, en það var áður en hann fékk aðstoðarmanninn, lýsti hann því yfir að hann ætlaði að hækka lánin í 50% af kostnaðarverði staðalibúðar, þ.e. í rúmlega 1 millj. kr. Það var í þá daga sem fólk hringdi í Húsnæðisstofnun ríkisins í stórum stíl og spurði: Hvenær fæ ég milljónina mína? Það var nefnilega milljón sem þetta loforð þýddi fyrir húsbyggjendur, sem núv. hæstv. félmrh. hafði gefið þegar hann hafði setið um hríð í skotinu þarna uppi í Arnarhvoli. Leið nú og beið og hæstv. félmrh. hélt áfram að lofa 50% af kostnaðarverði staðalíbúðar og starfsmenn húsnæðismálastjórnar höfðu ekki við að segja við þá sem hringdu í Húsnæðisstofnunina: Þetta er því miður ekki ljóst enn þá vegna þess að ríkisstj. er ekki búin að útvega fjármuni í þessu skyni.

Og svo gerðist það, að á haustdögum var loks gerð samþykkt í ríkisstj., ekki um 50% af kostnaðarverði staðalibúðar, ekki um 80% af kostnaðarverði staðalíbúðar, heldur um 30%, þar var nú lendingin. Hef ég grun um að ekki sé hægt að finna dæmi um aðra eins magalendingu í gervallri sögu íslenskra kosningaloforða, og er þá langt til jafnað, og hjá hæstv. núv. félmrh. 80% urðu 50 og 50 urðu 30 og þeir sem hringdu og báðu um milljónina sína hafa ekki fengið nein svör enn. Það er enn á tali í Húsnæðisstofnuninni. Þaðan er engar upplýsingar að hafa um þessa hluti.

Svo kemur frv., þegar skammt lifir til jóla og fáir dagar eftir af starfi Alþingis núna fyrir áramót, og hvað er í því frv.? Er það einhver lausn á þeim vanda sem lofað hefur verið að leysa? Nei. Frv. er skýjaborgir, loftkastalar. Hæstv. félmrh. og samstarfsmenn hans í þessu efni reynast ekki vera húsasmiðir og íbúðasmiðir, heldur loforðasmiðir, loforðaglamrarar, sem hafa haft neyð hins almenna húsbyggjanda að leiksoppi í pólitísku áróðursskyni um margra mánaða skeið. Og þegar þetta sama fólk núna gengur fyrir hæstv. félmrh. og segir: Hvað eigum við að gera? Við viljum stofna húsnæðissamvinnufélög, þá fá menn undirtektir eins og þær sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rakti hér áðan. Þetta fólk býst við lausn, því er lofað lausn og þegar talað er um að það þurfi að breyta lánakjörum og bæta þau er sagt: Við skulum lengja lán, við skulum hækka lán o.s.frv., en það eru engir peningar til að standa við eitt eða neitt. Það er satt að segja ömurlegt að hugsa til þess hvernig húsnæðisumr. hefur verið leikin af þessum loforðaglömrurum ríkisstj. á síðustu mánuðum, vegna þess að hér er auðvitað um að ræða mál sem er svo stórt og alvarlegt og snertir með svo ríkum hætti lífsafkomu launamanna í þessu landi að það er siðlaust að leika sér að neyð þessa fólks með þeim loddaraskap sem hefur verið gert á þessu ári.

Í þessu frv., sem hæstv. félmrh. hefur nú mælt fyrir, eru mörg nýmæli góð og þörf, tæknilegar lagfæringar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, en í því frv. felast einnig árásir og aðför að verkamannabústaðakerfinu, aðför að hinum félagslegu íbúðabyggingum í landinu, þannig að ég sé ekki betur en ríkisstj. sé í raun að svíkja loforðin um félagslegar íbúðabyggingar, sem gefin voru í samningum við verkalýðshreyfinguna í febr. 1974.

Þessi loforð gengu út á að þriðjungur íbúðabygginga í landinu ætti að vera á félagslegum grundvelli. Í því skyni samþykkti verkalýðshreyfingin að láta sína félagsmenn bera 1% launaskatt og jafnframt féllst verkalýðshreyfingin á að stuðla að því fyrir sitt leyti að lífeyrissjóðirnir innan Alþýðusambandsins greiddu ákveðinn hluta af sínu ráðstöfunarfé sem lánsfé til byggingarsjóðanna í landinu. Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar efndi þetta loforð aldrei. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens gerði hins vegar það í húsnæðismálum að hún stóð við þetta fyrirheit. Hún efldi stórkostlega félagslega íbúðabyggingakerfið í landinu, þannig að það margfaldaðist að umfangi og raunstærðum frá því sem áður var. Rökin voru, að það er auðvitað skylt að koma fyrst af öllu til móts við það fólk sem við mesta erfiðleika býr í þessu efni og af þeim ástæðum var það sem þáv. ríkisstj. lagði mikla áherslu á félagslega íbúðabyggingakerfið og stóð við þau fyrirheit sem gefin voru 1974.

Nú sé ég ekki betur en þannig standi á tæplega 10 ára afmæli þessara fyrirheita, að hér sé borið fram frv. til l. um að rjúfa þau heit sem þarna voru gefin. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur þegar rakið ítarlega með hvaða hætti það gerist. Ég ætla að benda þar á í fyrsta lagi að Byggingarsjóði verkamanna eru ætluð fleiri verkefni samkv. þessu frv. en hann hefur áður haft. Honum eru ekki einasta ætluð þau verkefni að koma til móts við þá sem reisa eins konar kaupleiguíbúðir samkv. c-lið 33. gr., heldur er þeim sjóði einnig ætlað, ef ég skil frv. rétt, að taka á sig mikinn fjölda viðbótaríbúða í endursölu, og þá á ég við ákvæði í 62. gr. V. kafla frv., en þar er gert ráð fyrir að undir þetta kerfi falli ekki aðeins þær íbúðir sem byggðar voru af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar samkv. lögum nr. 97/1965, heldur líka þær íbúðir sem byggðar voru samkv. lögum um leigu- og söluíbúðir sveitarfélaga nr. 58/1973 og nr. 38/1976, og þó einkum hin síðarnefndu lög. Ég sé ekki betur en með þessum ákvæðum og þessum orðum, sem ég tók ekki eftir að hæstv. félmrh. nefndi í sinni ræðu áðan, sé verið að taka fleiri hundruð leiguíbúðir inn í verkamannabústaðakerfið sem ekki hafa verið þar til þessa og að Byggingarsjóði verka• manna sé ætlað að fjármagna endursölu á þessum íbúðum líka eins og íbúðunum sem Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar reisti á sínum tíma og byggingarfélög alþýðu reistu fyrr á öldinni. Þannig er með tveimur ákvörðunum verið að stórauka verkefni Byggingarsjóðs verkamanna frá því sem verið hefur.

Í þriðja lagi er það að mínu mati aðför að verkamannabústaðakerfinu að hækka framlög eigenda úr 10% í 20%. Hér er um að ræða það lágtekjufólk sem lægstar hefur tekjur í okkar þjóðfélagi og því er nú ætlað samkv. þessu frv. að greiða af miðlungsíbúð í verkamannabústöðum eins og þeir eru úti á Eiðisgranda 400 þús. kr. út í staðinn fyrir 200 þús. kr. Það kann að vera að okkur í þessum sal, sem erum með háar tekjur eftir því sem sem gerist í þessu þjóðfélagi, vaxi ekki í augum þessar tölur. En ég fullyrði að það fólk sem hér um ræðir munar um minna en þetta. Ég spyr hæstv. félmrh.: Ætlast hann virkilega til þess að það fólk sem nú er undir tekjumörkum í verkamannabústöðunum, þeim tekjumörkum sem ákveðin eru í þessum lögum, ráði við að borga 400 þús. kr., 200 þús. kr. hækkun, þegar staðan er þannig að árslaun þessa fólks eru kannske í kringum 180 þús. kr.? Hvernig í ósköpunum má það vera að einmitt þetta fólk, sem hefur eingöngu átt skjól í þessu húsnæði og von í þessu húsnæði, á að fara að borga þessa upphæð? Það er útilokað mái. Og það væri fróðlegt ef hæstv. félmrh. gerði ítarlegri grein fyrir því í umr. á eftir eða á morgun eða síðar hvernig hann ætlar sér að sjá fram úr þessu, ef hann gæfi þessu láglaunafólki uppskrift af því hvernig það á að brúa þetta bil.

Í fjórða lagi er bersýnilegt af áætlunum, sem nú liggja fyrir um Byggingarsjóð verkamanna fyrir árið 1984, að auk þess að sjóðurinn taki við fleiri verkefnum og auk þess sem eigendaframlagið er tvöfaldað er gert ráð fyrir að búa þannig um sjóðinn á næsta ári að hann sé allslaus, hann geti ekkert gert. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rakti þetta mjög ítarlega áðan. Í því sambandi vil ég benda á að það er mat húsnæðismálastjórnar að til þess að standa við þá samninga sem Byggingarsjóður verkamanna hefur þegar gert þurfi 404 millj. kr. samkv. áætlun Húsnæðisstofnunar dags. 7. nóv. 1983 — bara til að standa við þá samninga á árinu 1984 sem þá höfðu verið gerðir. Þar fyrir utan er svo gert ráð fyrir því í þessu frv. að þessi sjóður taki á sig húsnæðissamvinnufélög og það er líka gert ráð fyrir því að hann stórauki þátttöku í endursölu íbúða á næsta ári með leigu og sölu á íbúðum sveitarfélaga. Hvað ætlar hæstv. félmrh. að gera þegar farið verður fram á það af stjórnum verkamannabústaða á næsta ári að fjármagna sölu og kaup á verkamannabústöðum sem kunna að losna t.d. hér í Reykjavík hjá byggingarfélögum alþýðu á næsta ári? Eiga þessi hús að standa auð og tóm. Ég spyr vegna þess að það er ekki fimmkall í áætlunum ríkisstj. til þess að verja í þessi verkefni!

Í þessu frv. ríkisstj. og áætlunum um Byggingarsjóð verkamanna á árinu 1984 er ekki heldur gert ráð fyrir neinum nýjum byggingarsamningum af neinum toga. Ég spyr því: Er ætlunin að allir þeir, sem koma inn með hugmyndir um verkefni á næsta ári, komi að lokuðum dyrum; þeir fái engan stuðning og enga fyrirgreiðslu hjá Byggingarsjóði verkamanna?

Í þessum áætlunum er það einnig svo, að ekki er gert ráð fyrir neinu fé í leiguíbúðir eins og þessar áætlanir líta út núna, þannig að ný verkefni, leiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög, endursala á gömlum íbúðum, það er allt utan við þessar áætlanir. Húsnæðismálastjórn hefur nú fyrir framan sig áætlun um Byggingarsjóð verkamanna á árinu 1984 upp á 707 millj. kr. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. hljóðar upp á allt aðra tölu eða 442 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því í báðum áætlununum að ríkissjóður greiði 200 millj. Í áætlun sem hefur verið lögð fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að sveitarfélögin greiði 38.3 millj. Í hugmyndum Húsnæðisstofnunar ríkisins eru það 68 millj. Í áætlunum ríkisstj. er gert ráð fyrir að lánsfjáráætlun skili í Byggingarsjóð verkamanna 164.6 millj. kr., en í áætlunum Húsnæðisstofnunar er hér um að ræða 200 millj. kr. Ég óska eftir svörum við því frá hæstv. félmrh. þegar undir þessari umr.: Hvernig ætlar hann að skera niður áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins? Hvernig ætlar hann að gera það? Ætlar hann að skera niður þegar gerða samninga? Ætlar hann að loka á það að gerðir verði nýir samningar? Ætlar hann að banna endursölu íbúða? Ætlar hann að stöðva byggingu leiguíbúða? Ég spyr og ég óska eftir svörum, því að ef framkvæmd laganna á að vera eins og hann gerir hér ráð fyrir er auðvitað ekkert annað að gera en að loka þeirri deild sem með þessi mál fer á næsta ári því að hún hefur ekkert að gera.

Auk þess hefur hæstv. félmrh. bersýnilega tekið um það ákvörðun að skella hurðum á það fólk sem hundruðum saman hefur verið að skrá sig í byggingarsamvinnufélög að undanförnu, húsnæðissamvinnufélögin. Þetta fólk á ekkert fé að fá, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er að vísu sagt: Þið fáið 80% lán, þið fáið þessi lán til þessa tíma o.s.frv., en þegar pappírar eru skoðaðir er ekki nokkur hlutur inni fyrir þetta fólk. Hvernig stendur á því að hinn yfirlýsingaglaði félmrh. segir ekki við þetta fólk eins og er? Af hverju er hann að láta þetta fólk raða sér upp á biðlista vonleysisins þessa dagana? Af hverju segir hann ekki eins og er: Það eru engir peningar til í þetta. Hann hefur verið útbær á yfirlýsingar umfram það sem efni hafa staðið til á undanförnum mánuðum aftur og aftur. Hann væri maður að meiri ef hann segði við þetta fólk eins og er, hvernig staðan er í þessu efni, að það er ekkert til af peningum til þess að koma til móts við það fólk sem hundruðum saman er núna að stofna félög um allt land, á Akureyri, í Reykjavík og víðar og víðar.

Nei, virðulegi forseti. Það er megineinkennið á þessum málflutningi öllum að það er hrönglað upp skýjaborgum og loftköstulum af þeim loforðasmiðum sem nú eru þar í forustu. Aðför þeirra að verkamannabústaðakerfinu er augljós og áform um svik á samkomulaginu frá 1974, sem gert var við verkalýðshreyfinguna, eru hér með í þessum pappírum.

Varðandi það frv. sem hér liggur fyrir má margt segja. Fyrst vil ég þakka hæstv. félmrh. fyrir það, hvað hann hefur tekið mikið í það frv. af þeim ágætu ábendingum sem urðu til í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj. Það er skynsamlegt af hæstv. ráðh. Það eru alveg sæmilegir og brúklegir kaflar um tæknilegar lagfæringar á húsnæðislögunum sem í þessu fetast og koma frá fyrrv. hæstv. ríkisstj. Breytingarnar sem gerðar eru tæknilega á þessu frv. eru margar til bóta. Sumar eru þannig, að það er mjög erfitt fyrir óinnvígðan mann að átta sig á þeim öðruvísi en að fá sérfræðivinnu unna. Sumt er það flókið að það er mjög erfitt að átta sig á því:

Ég ætla ekki í einstökum atriðum að fara yfir þau efnisatriði frv., en þó vil ég drepa á þau helstu í næsta kafla ræðu minnar.

Það er þá fyrst varðandi 4. gr: frv. um að kjósa tvo endurskoðendur fyrir sjóðina. Það finnst mér í rauninni sjálfsagt mál. Og það er nýtt ákvæði. Það er sem sagt frumsmíð núv. hæstv. ríkisstj. Það er rétt áð geta þess sem vel er gert og þess sem hún hefur lagt til af frumlegheitum í þessu efni. Hún á höfundarrétt að því, og ber að þakka henni fyrir það að tveir skulu vera endurskoðendur. Því er komið til skila á 1. síðu frv. Annað er gamalt eða komið frá fyrrv. ríkisstj.

Í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir því nýmæli að Byggingarsjóður ríkisins fái fé með árlegu framlagi úr ríkissjóði samkv. fjárlögum sem nemur eigi lægri fjárhæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár. Í sambandi við þetta atriði tek ég undir spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er það svo, ef þetta frv. verður samþykkt núna fyrir jólin, að þá verði talan í fjárlögum hækkuð sem þessu nemur, þ.e. úr 200 millj. í 460, sem mér sýnist að hún ætti að vera? Verður hún hækkuð í fjárlögunum sem nú er verið að afgreiða? Nauðsynlegt er að fá það upp vegna þess að ef svo færi breytti þetta verulegu fyrir sjóðinn strax. Við skulum fá á hreint áður en þessari umr. lýkur hvort það er ætlun hæstv. ráðh. að framkvæma þetta ákvæði strax eða ekki. Að öðru leyti er 9. gr. þessa frv. í raun og veru óbreytt frá lögunum og því frv. sem var lagt fram á síðasta þingi.

11. gr. frv. er að mestu óbreytt frá því frv. sem lagt var fram hér í fyrra að öðru leyti en því, að þar var gert ráð fyrir að í 9. tölul. væri talað um lán til byggingarsamvinnufélaga og viðurkenndra framkvæmdaaðila í byggingariðnaði. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort einhver rök eru á bak við að fella byggingarsamvinnufélög þarna út.

Í 13. gr. eru litlar breytingar frá því sem var í því frv. sem lagt var fram hér í fyrra. Ég tel að það sé af hinu góða að halda inni þessu ákvæði um það, að standi lántakandi ekki við skuldbindingu sína, sameinar íbúðina annarri íbúð o.s.frv., þá falli lánið allt í gjalddaga án fyrirvara. Ég tel þetta ákvæði mjög til bóta og ég tel að sú orðalagslagfæring sem er í 1. mgr. 13. gr. sé einnig til bóta, svo og að sjálfsögðu sú lenging á láninu í 31 ár sem hér er gert ráð fyrir í 13. gr., ef sjóðurinn hefur möguleika á að standa undir því.

Ég vil einnig taka undir það með hæstv. ráðh. að mér finnst það góð hugmynd sem komin er frá hans starfsnefnd í þessu efni varðandi 14. gr. frv. um að setja þak á G-lán. Mér finnst það nokkuð skynsamleg regla sem þarna er sett á blað í frv. Ég held að hún sé til bóta Mér sýnist einnig að lagfæringarnar sem gerðar eru á 15. gr. séu út af fyrir sig af hinu góða, en ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvernig á því stendur að það er fellt út úr frv. frá í fyrra ákvæði um að heimilt sé áð setja það skilyrði um íbúðir fyrir aldraða að þær verði reistar í nágrenni við heilsugæslustöð. Ég taldi og er reyndar þeirrar skoðunar, að íbúðir fyrir aldraða þyrftu að vera í sem bestum tengslum við heilsugæslustöðvar og heilbrigðiskerfið ef hægt er að koma því við með góðu móti, og ég þykist vita að á sumum stöðum út um landsbyggðina hefði verið hægt að koma þessum hlutum betur fyrir en gert hefur verið. Mér þætti ekki óeðlilegt að félmrh. eða Húsnæðisstofnun gæti skilyrðisbundið þetta með þeim hætti sem var gerð till. um í fyrra. Ég tel t.d. að lausn á þessu máli með svipuðum hætti og sú sem er á Húsavík, svo að ég nefni dæmi, sé mjög af hinu góða, og mig minnir einnig að það fyrirkomulag sem áætlað er í þessu efni í Ólafsvík sé í rétta átt, en ég held að það væri skynsamlegt að hafa stefnumótandi ákvæði um þetta í húsnæðislögunum sjálfum.

Ég vil fagna því að ríkisstj. heldur inni ákvæðinu um hlutdeildaríbúðir í 15. gr. og um skuldabréfin í 4. mgr. 15. gr. Hér er brotið upp á nýmæli í fjármögnun húsnæðismála og ég tel að það sé mjög af hinu góða. En ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hefur hann velt því fyrir sér að setja á laggirnar nefnd eða hóp sérfræðinga til þess að gera tillögur um nánari útfærslu á þessum hlutdeildaríbúðum? Ég held að nauðsynlegt sé fyrir félmrn. að gera það svo að þetta nýja eignarform verði skýrt betur með reglugerð eða einhverjum öðrum hætti. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því.

Næstu greinar frv. eru þannig að það er ekki ástæða til að fara um þær mörgum orðum af minni hálfu að sinni. Yfirleitt er hér um að ræða lengingu á lánum frá því sem er í gildandi lögum úr 11 árum í 16, úr 25 árum í 31 o.s.frv. Ég vil fagna því ákvæði sem kemur fram í síðustu mgr. 24. gr. varðandi aldraða sem njóta lána samkv. 6. tölul. 11. gr.

Ég tel einnig að það sé út af fyrir sig ekki við öðru að búast en því að ríkisstj. leggi til að vextir verði ákveðnir af ríkisstj. á hverjum tíma. Það er ákvæði sem var í frv. síðustu ríkisstj. og ég átti ekki von á að núv. ríkisstj. hefði neinn annan hátt á í þeim efnum úr því að fyrrv. ríkisstj. gerði sér lítið fyrir og flutti frv. um þetta.

Hins vegar er þetta vaxtaákvæði mun opnara. Það er mun opnara í þessu frv. en var í því frv. sem var lagt fyrir hér í fyrra. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig stendur á því að þessar takmarkanir eru að öllu leyti felldar niður? Við gerðum ráð fyrir því að það mætti ekki hækka lán eða vexti af lánum til einstaklinga með sérþarfir umfram ákveðið mark og við vildum einnig hafa lögbundið þak á vöxtum af lánum til takmörkunar á heilsuspillandi húsnæði. Mér þætti vænt um ef hæstv. félmrh. flytti rök sín fyrir því að þessi takmörkun er nú felld út. Ég vil í tilefni af þessu ákvæði spyrja hæstv. ráðh. í fyrsta lagi: Hvaða hugmyndir hefur hann um vexti hjá Byggingarsjóði ríkisins 1984? Og í öðru lagi: Hvaða hugmyndir hefur hann um vexti hjá Byggingarsjóði verkamanna á sama ári? Það er óhjákvæmilegt, ef Alþingi á að afgreiða þetta mál, annað en upplýsingar um vextina liggi fyrir.

Hins vegar minni ég á það, að þegar þetta mál var til meðferðar í fyrra, á síðasta þingi, fluttu þm. Sjálfstfl. till. um að vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna mættu aldrei vera hærri en 0.5% og að þeir yrðu bundnir í lögum eins og vextir Byggingarsjóðs ríkisins verði bundnir í lögum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., sem er hér einn þm. Sjálfstfl., hvort Sjálfstfl. hafi fallið frá því stefnumáli sínu að vextir Byggingarsjóðs verkamanna verði lögbundnir eins og gert var ráð fyrir í fyrra, því að ég mundi vilja kanna hvort unnt væri að ná samkomulagi á Alþingi um lögbindingu þessara vaxta, þannig að þeir verði ekki háðir ákvörðunum ríkisstjórna á hverjum tíma eins og vextir Byggingarsjóðs ríkisins. Ég teldi að ef hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. treystu sér til þess að lögbinda hámark vaxta Byggingarsjóðs verkamanna hlyti það að greiða mjög fyrir því að þetta mál fengi betri móttökur en ella er um að ræða.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um næstu greinar frv. Í 33. gr. er bætt við nýjum lið, staflið c, sem er tekinn inn frá fyrrv. hæstv. ríkisstj. og ég hef þegar farið um hér nokkrum orðum og ætla engu við það að bæta á þessu stigi, en minni á að í 34. gr. er auðvitað eitt aðalágreiningsmál þessa frv., þ.e. hversu hátt á eigendaframlagið í Byggingarsjóð verkamanna að vera. Reyndar er hugsanlegt að setja þetta inn í 49. gr. frv., sem væri kannske eðlilegra að athuguðu máli, en ég býst við því að þetta sé aðaldeilumálið, þ.e. eiga verkamenn og þeir sem fá inni í þessum íbúðum að borga 20% af kostnaðarverði íbúðanna, sem þeir geta nú alls ekki af sínu kaupi, eða eiga þeir að borga 10%?

Ég vil í þessu sambandi varðandi 80% lánin sem hæstv. félmrh. ræddi um hér áðan vísa því á bug þegar hann var að líkja þessu við 18. gr. frv. ríkisstj. á síðasta þingi, en þar var gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir gætu komið inn í myndina við fjármögnun verkamannabústaða og þar á móti mætti hugsanlega lækka lánshlutfall Byggingarsjóðs verkamanna. Það er mín skoðun, og ég vil taka það fram hér út af orðum hæstv. félmrh., að það sé ekki óeðlilegt, nema síður sé, að taka tillit til réttinda manna í lífeyrissjóðakerfinu. Ég held að vandinn sé þarna fyrst og fremst sá, að menn yrðu þá með mismunandi fjármagnsbyrðar í verkamannabústaðakerfinu eftir því hvaðan þeir hefðu tekið lán og það sé kannske fyrst og fremst sá vandi sem við þyrftum að reyna að finna lausn á, en ég vil líka í þessum töluðum orðum segja að ég tel að við þá uppsetningu sem hæstv. félmrh. var með í sambandi við fjármögnun húsnæðislánakerfisins almennt þurfi allir að leggja sitt saman. Ég tel að hún sé út af fyrir sig rétt.

Ég hef oft haft þau orð að húsnæðisvandinn í þessu landi og fjármögnun húsnæðislánakerfisins yrði aldrei leyst nema allir þessir þættir, sem þarna er um að ræða, leggist saman, þ.e. bankarnir, Húsnæðisstofnun ríkisins og lífeyrissjóðirnir. Og ég teldi heppilegast að þetta yrði gert í einu allsherjar húsnæðislánakerfi, þar sem þessir hlutir yrðu allir teknir með inn í myndina í einu og að bankarnir væru lögskyldaðir til þess að annast afgreiðslu á þessari þjónustu. Ég er alveg sannfærður um að núv. félmrh. hefur fundið það eins og ég, að ef menn eru bara að berjast um með þetta opinbera húsnæðislánakerfi er það svo lítið sem hægt er að gera. Það er þá fyrst þegar það næðist allsherjartenging og samkomulag við lífeyrissjóðakerfið og við bankakerfið að við getum gert okkur vonir um að vera hér komin með húsnæðislánakerfi sem í rauninni felur í sér einhverja lausn á þeim vanda sem hér er um að ræða. Og ég vil segja það fyrir mitt leyti og láta það koma fram af okkar hálfu í Alþb., að þrátt fyrir að við erum aðilar að stjórnarandstöðunni um þessar mundir erum við meira en reiðubúnir til þess að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að reyna að finna ásamt stjórnvöldum leið til að skapa sem víðtækasta samstöðu verkalýðshreyfingar, opinberra aðila og banka um heildarhúsnæðislánakerfi. Ég endurtek það, að ég er alveg sannfærður um að við náum ekki því sem kalla má lausn á þessu öðruvísi en að við reynum að laða þessa aðila alla til samstarfs. Hins vegar hefur það verið svo á liðnum árum, því miður, að það hefur hver viljað halda um sitt. Lífeyrissjóðirnir segja: Ekki ég, Bankarnir segja: Ekki ég. Skattgreiðendur segja: Ekki ég. Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki verið tilbúnir að afla aukins fjár í þessu skyni og þar af leiðandi hefur það verið þannig, að menn hafa verið að hræra í þessu opinbera lánakerfi án þess að ná neinum verulegum tökum á lagfæringum eins og vera þyrfti.

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af þessu varðandi yfirferð á frv. spyrja hæstv. félmrh. sérstaklega um 3. mgr. 62. gr. hvort það er rétt skilið hjá mér að hann ætlist til þess að leigu- og söluíbúðir sveitarfélaganna komi inn í endursölukerfið. Ég vil varðandi 63. gr. játa hreinskilnislega að mér hefur ekki tekist að átta mig nákvæmlega á reglunni sem þar er gerð till. um í 1., 2. og 3. mgr. Ég var að reyna að setja þetta niður fyrir mér núna áðan. Mér sýndist reglan vera nokkuð flókin eins og hún er hér. Kannske er hún skárri en þær reglur sem til eru, ég skal ekki um það dæma. En það væri gott ef hæstv. ráðh. gæti tryggt að félmn. og kannske aðrir þm., sem áhuga kunna að hafa, ég tek fram að ég á ekki sæti í félmn., gætu fengið aðgang að þeim útreikningum sem hér er um að ræða. En mér sýnist, og þá tek ég fram að ég hef nánast reiknað þetta út í höndunum, að þetta feli iðulega í sér nokkra lækkun á greiðslum til þeirra sem eiga íbúðir í kerfinu. Það kann að vera að menn hafi verið komnir nokkuð langt upp með verðlagningu á þessum íbúðum, en mér sýnist að hér sé um að ræða nokkra lækkun frá því sem verið hefur, og vænt þætti mér um ef ég fengi í hendur, og vonandi þá aðrir þm. líka, bæði útreikninga á þessum reglum hér og samanburð við núverandi reglur.

Í 66. gr. er gert ráð fyrir að lögfesta ákvæðin um matsnefnd félagslegra íbúða. Ég tel til bóta að þau verði lögfest. Ég vil hins vegar taka fram að ég er ekki alveg viss um að það kerfi á mati félagslegra íbúða sem hér er lagt til sé til mikilla bóta. Ég óttast að það sé of losaralegt eins og hér er gert ráð fyrir að það verði, og ég óttast að verkamannabústaðastjórnirnar hafi of mikið vald gagnvart eigendum íbúða. Ég held þess vegna að hérna þyrfti að kveða nokkuð öðruvísi að orði, því að ég skil 66. gr. þannig, að hún geri aðeins ráð fyrir að matsnefnd félagslegra íbúða verði eins konar áfrýjunarnefnd, en verði ekki útreikningsnefnd á öllum stigum málsins.

VI. kafli þessara laga fjallar um gamalkunnugt atriði sem er tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem oft hefur verið deilt um. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Kom honum það aldrei í hug við meðferð þessa máls að fella þessa deild niður, þannig, að Húsnæðisstofnunin hætti að starfrækja jafnviðamikla tæknideild og hún hefur gert á undanförnum árum? Ég held að þarna þyrfti að skoða hlutina betur. Og ég fyrir mitt leyti væri tilbúinn að taka þátt í slíkri athugun, sem gerði ráð fyrir að umsvif þessarar deildar stofnunarinnar verði nokkuð minnkuð frá því sem verið hefur.

Ég vil taka það fram, af því að ég sé að forseti er mjög óþolinmóður, að ég á eftir svona fimm mínútur og þá hef ég lokið máli mínu.

Ég sé í VII. kafla frv., sem fjallar um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga, að þar hafa verið felldar út hugmyndir um strangara aðhald að skyldusparnaðinum, eins og voru hugmyndir uppi um í fyrra. Þar var gert ráð fyrir að ekki verði heimilt að endurgreiða skyldusparnað á sama ári og hann er dreginn af launum skyldusparenda. Ég sé ekki að í þessum tillögum, eins og þær eru nú, séu í raun og veru neinar lagfæringar á skyldusparnaðarkerfinu. Ég sé ekki a.m.k. að þær breyti miklu. Og hugmyndir sem við vorum með um að láta póstgíróið innheimta skyldusparnaðinn eins og orlofið virðast vera dottnar atveg upp fyrir. Það sýnist mér vera mjög miður því að ég held að póstgíróið hefði getað innheimt skyldusparnaðinn betur en nú er gert. Af þessu tilefni hvarflar að manni hvort ekki væri hugsanlegt að gera grundvallarkerfisbreytingu á skyldusparnaðinum í þá veru að hann verði lækkaður, en undanþágum stórkostlega fækkað. Ég er ekki hér að flytja tillögu Alþb., ég tek það fram. Í mínum flokki hefur verið rætt talsvert um þessi mál, en hér er ekki um neina formlega hugmynd að ræða. En ég vil biðja hæstv. ráðh. og aðra þm. að velta því fyrir sér hvort það gæti ekki þjónað okkar sameiginlegu markmiðum í þessu efni að lækka eitthvað skyldusparnaðarprósentuna, en loka þeim mun fleiri gáttum fyrir undanþágur í þessu efni. Það er eðlilegt að fólk sækist eftir að fá þetta borgað út eins og er, þetta er það hátt hlutfall af kaupi, og það er erfitt fyrir stjórnvöld að standa á móti slíku. Ég held að það væri þess vegna ástæða til að skoða þessa hluti heldur betur. Ég sem sagt held að það verði að reyna að hugsa þennan skyldusparnaðarkafla upp á nýtt, því að eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á áðan er þessi tekjustofn eiginlega að verða ónýtur. Hann skilar svo litlu fyrir húsnæðislánakerfið, miðað við þá miklu fyrirhöfn sem húsnæðislánakerfið hefur af þessum skyldusparnaði.

Ég sé ekki betur en að kaflinn um byggingarsamvinnufélög sé óbreyttur frá því sem var í frv. á síðasta þingi að öðru leyti en því að í 77. gr., c-lið, er gert ráð fyrir því núna, að varasjóðstillag nemi allt að 1% af byggingarkostnaði hverrar íbúðar, en mig minnir að í frv. sem ég mætti fyrir í fyrra hafi verið gert ráð fyrir 2% — já, 2% voru það sem áttu að fara í varasjóð byggingarsamvinnufélaganna. Það kann að vera að það sé of langt gengið að láta félögin hafa 2% í þetta, en það er þá spurning hvort ekki væri hugsanlegt að finna einhverja millileið því að ég veit að fyrir sum byggingarsamvinnufélög mundi þetta skipta mjög miklu máli og vera mjög til bóta.

Herra forseti. Ég lýk þá máli mínu með því að endurtaka fáeinar spurningar úr þeim texta sem ég hef hér flutt:

1. Hverjir verða vextirnir hjá Byggingarsjóði ríkisins?

2. Hverjir verða vextirnir hjá Byggingarsjóði verkamanna?

3. Mun félmrh. beita sér fyrir breytingum á fjárlögum í samræmi við ákvæði 9. gr. frv. þessa, ef það verður að lögum, um að hækka framlag úr ríkissjóði úr 200 millj. í 460 millj. kr.?

Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, af hverju sérstök heimild til hækkunar lána handa ungu fólki og þeim sem byggja og kaupa í fyrsta sinn er felld út úr frv. fyrrv. ríkisstj. Hvernig stendur á því að það ákvæði, sem þar var um að sérstaklega mætti lána hærra handa þeim sem byggja og kaupa í fyrsta sinn, er fellt út? Felst í því einhver stefnumörkun af hálfu hæstv. ríkisstj.? Telur hún ekki þörf á því að hafa heimild til að mismuna með þessum jákvæða hætti hinum yngri kynslóðum, sem eru að byggja og kaupa í fyrsta sinn húsnæði?

Þá vil ég einnig, í tilefni af því að hæstv. ráðh. mun leggja áherslu á að málið verði afgreitt fyrir jól, spyrja að því, hvaða greinar það eru í frv. sem hann telur að öllu skipti fyrir húsbyggjendur og íbúðarkaupendur að verði afgreiddar fyrir áramót. Ég geri ekki ráð fyrir því að það sé frv. allt, vegna þess að það er ekki svo. Margt í frv. er þannig almenns eðlis að það skiptir ekki miklu þó að það yrði afgreitt eftir áramót. En hvað er það sem hæstv. ráðh. telur að skipti alveg sérstöku máli núna fyrir áramót, t.d. varðandi fjármögnun og þess háttar? Ég geri ráð fyrir að það geti átt við stjórnarandstöðuna yfirleitt og þm. yfirleitt, að ef ráðh. vill leggja áherslu á einhverjar sérstakar greinar sem geti skipt sköpum fyrir fjárhag húsbyggjenda á næsta ári, þá væri auðvitað hugsanlegt að taka þær út úr frv. og afgreiða þær þó að frv. í heild yrði ekki afgreitt fyrir jól á þeim stutta tíma sem eftir er af þinghaldinu.

Ég tek undir spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um húsnæðissamvinnufélög. Hvar á það fólk að fá peninga sem hefur verið að stofna þau að undanförnu? Og mér þætti vænt um ef hæstv. ráðh. gæti látið útbúa lista yfir þær breytingar á húsnæðislögunum sem hafa orðið til eingöngu nú á undanförnum mánuðum til þess að hægt sé að átta sig á því að hve miklu leyti er hér um að ræða pólitískar áherslur núv. ríkisstj. og að hve miklu leyti er hér um að ræða arf frá liðinni tíð.

Ég vil loks biðja hæstv. félmrh. að upplýsa: Hver er staða Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna gagnvart Seðlabankanum og ríkissjóði n.k. áramót? Það hlýtur að liggja þegar fyrir í einstökum atriðum.