12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Iðnn. hefur tekið til meðferðar frv. það sem hér er á dagskrá og mælir með að það verði samþykkt. Fundinn sátu allir nm. nema Davíð Aðalsteinsson sem var fjarverandi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Það er gamall kunningi. Sams konar frv. hefur verið lagt fram árlega í mörg ár, kannske svo lengi sem ég man eftir. Með frv. þessu er lagt til að innheimta verðjöfnunargjald af raforku og að heimild til þess verði framlengd til ársloka 1984.

Gert er ráð fyrir að upphæð gjaldsins verði áfram 19% og því verði skipt svo sem áður hefur verið, þannig að Rafmagnsveitur ríkisins fái 80% og Orkubú Vestfjarða 20%. Þetta er meginefni þessa frv. Ég ítreka að iðnn. hefur samhljóða og einróma samþykkt að mæla með því.