12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt.

Ég er, að ég held, sömu skoðunar og flestallir sem hér tala, sammála um nauðsyn þess að skilja einkaflugreksturinn á Keflavíkurflugvelli frá annarri starfsemi sem þar fer fram á vegum Atlantshafsbandalagsins, og hefði kosið að sá aðskilnaður yrði meiri en að er stefnt með þessari byggingu. Nú er hún reyndar orðin að ákveðinni staðreynd, en ég hef samt sem áður nokkrar efasemdir um þá lántöku sem hér er fyrirhuguð og vildi beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hér sé hugsanlega verið að taka lán fyrir vasafé handa ríkisstj. því að samkvæmt öllum þeim upplýsingum sem ég hef fengið, og hef gengið þó nokkuð mikið eftir þeim, get ég ekki séð annað en að þessi bygging sé samkv. íslenskum útreikningi, miðað við einingaverð á byggingum hérlendis, allt að því 100% of hátt áætluð. Þegar við svo horfum fram á að Íslendingar og Bandaríkjamenn ætla að skipta þessum kostnaði á milli sín til helminga er greinilegt hvor aðilinn ætlar að taka að sér að borga bygginguna. Þar sem þetta hefur þegar komið í ljós í fyrstu verklegu framkvæmdunum sem þarna fóru fram, sem voru helmingi undir reiknuðu kostnaðarverði við útboð, þykir eðlilegt að áætla að framhaldið verði með svipuðum hætti. Ef við eigum að viðurkenna þá staðreynd sem þessi bygging er og framhald hennar vil ég leggja til að frestað verði að taka lán þangað til byggingunni er lokið. Það fé sem Bandaríkjamenn leggja fram borgar þessa byggingu fyllilega. Við getum þá byrjað að taka lán þegar rekstur hennar er hafinn og við erum farin að hafa tekjur af henni, því lán verður að borga, segir einhver.

Ég felli mig ekki heldur við þann framgangsmáta, sem er hér mjög atgengur þegar um framkvæmdir á vegum ríkisins er að ræða, jafnvel þótt þær séu boðnar út, að verið sé að fetla niður eða endurgreiða gjöld af vinnuvélum, sem notaðar verða við byggingarframkvæmdir eins og skv. þessum lögum. Mér finnst að verktakar hér í landi ættu allir að sitja við eitt og sama borð og að það sé ekki hlutverk ríkisins að vera að mismuna mönnum með þeim hætti sem hér er gert.

Í þriðja lagi ætlaði ég líka að spyrjast fyrir um orðalagið í athugasemdinni við 2. gr., „þykir best henta“. Hvaða ástæða þykir til að færa þessa byggingaframkvæmd alfarið til utanrrn.? Ef það er skoðun hæstv. fjmrh. að Innkaupastofnun þvælist fyrir flestum verkum sem framkvæmd eru á vegum ríkisins er ég honum hjartanlega sammála og væri til í það með honum að leggja þá stofnun alfarið niður, tel hana með óþarfari fyrirtækjum sem eru rekin á vegum ríkisins. En ef hér er um það að ræða að þetta sé nauðsynlegt vegna einhverra þátta í þessu verki sem mönnum finnst nauðsyn að dylja er ég alfarið ósammála því.