12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Um þetta mál hófust umr. hér á fimmtudaginn og þá komust að fulltrúar þriggja flokka. Síðan hefur hæstv. félmrh. stigið í ræðustólinn aftur og gert ýmsar aths. Vakið hefur nokkra athygli að talsmenn þess flokks sem lofaði 80% lánunum í vor hafa ekki oft talað í þessari umr. Hv. 2. þm. Reykn., sem var nú kannske kosinn út á það að hann ætlaði að hækka lánin í 80%, hefur ekki látið svo lítið að yrða á þingheim í tilefni af þessu máli. Hv. formaður félmn., sem á nú fyrir höndum það mikla verkefni að ljúka því að koma þessu frv. í gegn fyrir hátíðarnar, hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., hefur ekkert haft um húsnæðismál að segja. samt var forveri hans einn aðaláhugamaður um það að hækka húsnæðislánin í 80% fyrir kosningar og skrifaði um það mjög ítarlegar greinar í Morgunblaðið að það væri algert höfuðatriði, og það yrði gert strax og ríkisstj. með sjálfstfl. heitan innanborðs tæki við. Núv. formaður sjálfstfl. ætlar ekki að feta í fótspor fyrirrennara síns að þessu leyti. Hann ætlar ekki einu sinni að tala um húsnæðismál, og á hann þó að fjalla um þetta mikla frv. sem hér er á dagskrá. Er það satt að segja nokkuð athyglisvert að Sjálfstfl., stærsti flokkur landsins enn þá, skuli ætla hæstv. félmrh. Alexander Stefánssyni forræði sitt í húsnæðismálum. Það má vera nokkuð fróðlegt fyrir Reykvíkinga t.d. og þá sem búa hér á suðvesturhorninu að þannig skuli vera komið fyrir Sjálfstfl., sem forðum lagði mikla áherslu á þennan málaflokk, og hæstv. forseti Sþ. Þorvaldur Garðar Kristjánsson hefur sett á lengri og ítarlegri ræður um þetta mál en nokkur annar maður í samanlagðri þingsögunni trúi ég, og blöskrar honum þá væntanlega ekki þó að ég þurfi að hreyfa hérna fáeinum aths. eftir það sem varpað hefur verið í orði á mig í sambandi við húsnæðismál í seinni tíð.

En það er fróðlegt að þm. Sjálfstfl. skuli ekki hafa nema skoðun lengur á húsnæðismálum, þeir skuli fela sig undir faldi Alexanders Stefánssonar hæstv. ráðh. Það er nokkuð fróðlegt mál, þætti nokkuð athyglisvert á Snæfellsnesi a.m.k. og sjálfsagt þótt víðar væri leitað.

Hv. 5. þm. Reykv. heldur hér enn þá sömu ræðuna og hann hélt um ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Hann er enn þá að skamma mig fyrir að hafa rústað húsnæðislánakerfið og þá ríkisstj. yfirleitt fyrir það að hún hafi verið hin versta stjórn á öllum sviðum, magnað verðbólguna og valdið hér gífurlegum vandræðum í þjóðfélaginu á öllum sviðum. Ég held að að öllu samanlögðu þá sé varla nokkur maður í þessum sal sem er eins upptekinn enn í dag af þeirri ágætu ríkisstjórn og hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson. Honum er auðvitað vorkunn. Honum gengur illa að átta sig á því að hann á að vera í andstöðu við núv. ríkisstj. Út á það ganga flokkssamþykktirnar hjá honum núna, þó að þeim gengi illa krötunum að átta sig á þeim hlutum fyrst eftir að stjórnin var mynduð. Þess vegna reynir hann að finna sér sína stjórnarandstöðu og hún er enn þá við þá ríkisstjórn sem kvaddi hér í vor, 26. maí s.l. þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson fer yfirleitt með nokkuð sérkennilega hluti hér í þessum ræðustól og ég hef haft þann sið á þessum vetri að svara þeim ekki. Ég hef ekki talið ástæðu til þess. En ég ætla að gera tilraun til að leiðrétta nokkrar missagnir hér í þessari ræðu minni.

Það er í fyrsta lagi það sem hann heldur fram að meginástæða neyðarástandsins í húsnæðismálum sé sú að fráfarandi ríkisstj. flutti tekjustofna úr Byggingarsjóði ríkisins yfir til Byggingarsjóðs verkamanna. Ég skil það út af fyrir sig vel að menn skuli hafa verið hikandi við það á sínum tíma að flytja tekjustofna úr Byggingarsjóði ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna. En staðreyndin var sú að þarna átti enginn maður sem vildi standa sómasamlega að hlutunum í rauninni nokkurt val. Það hafði verið gefið fyrirheit um það árið 1974 í kjarasamningum verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisstj. að þriðjungur íbúðabygginga í landinu skyldi vera á félagslegum grundvelli. Og verkalýðshreyfingin samþykkti að taka í því skyni 1% launaskatt. Þessi skattur var strax lagður á og það var einnig samþykkt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar á þessum tíma að verja 20% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða á samningssviði ASÍ, eins og það var orðað, til kaupa á skuldabréfum húsnæðislánakerfisins. Þetta var gert. Hins vegar stóð á því að ríkisstj. sinnti þessu loforði sem gefið hafði verið ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Hún sveik það í fjögur ár. Hún kom ekki nálægt þessu atriði og svelti verkamannabústaðakerfið og sinnti aldrei skyldum sínum í því efni.

Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, sem tók við 1980, átti í raun og veru engan annan kost en þann að leggja áherslu á að standa við þetta loforð og stórfellda eflingu verkamannabústaðakerfisins. Og með því var hún líka að raða verkefnunum í forgangsröð. Hún taldi að það fólk sem þyrfti á íbúðum að halda í félagslega íbúðabyggingakerfinu þyrfti að fá alveg sérstaka þjónustu, eða mér liggur við að segja vernd gagnvart þeirri raunvaxtastefnu og verðtryggingarlínu sem þá hafði tekið völdin svo að segja í þjóðfélaginu.

Þetta var meginástæðan til þess að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens kaus að standa við fyrirheitið við verkalýðshreyfinguna. Og ég tel að það hafi verið skynsamlegt af ríkisstj. að gera svo. Þá er það spurningin: Var það þessi áhersla á verkamannabústaðakerfið sem gerði út af við hag hins almenna húsbyggjanda, lagði hag hans í rúst, eyðilagði hið almenna húsnæðislánakerfisins og hefur verið fullyrt aftur og aftur og aftur af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, örugglega vegna þess að hann veit ekki betur?

Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir það að 1% launaskattur hafi verið fluttur yfir til verkamannabústaðakerfisins var um það að ræða að Byggingarsjóður ríkisins fékk framlög úr ríkissjóði sem voru margfölduð að raungildi, tvöfölduð að raungildi á árinu 1982, ef ég man rétt. Þetta hafði áhrif á stöðu þess sjóðs. En við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson segi ég í fullri vinsemd áður en hann endurtekur það að lánshlutfall hafi farið lækkandi: Lestu töflur um lánshlutfall húsnæðismálastjórnar á liðnum árum og þá muntu komast að því að lánshlutföll í almenna húsnæðislánakerfinu héldust óbreytt á liðnum árum þrátt fyrir meira en sexföldun að raungildi í verkamannabústaðakerfinu.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og fleiri Alþfl.menn mikla sig gjarnan af frv. Magnúsar H. Magnússonar sem þeir kalla svo. staðreyndin var sú að verkamannabústaðakerfið hafði ekki í því frv. þá tekjustofna sem það hafði í lögunum eins og þau urðu að lokum. Og þegar menn eru að tala um að það hefði átt að leggja meira fé í almenna kerfið þá verða þeir að segja hvaðan átti að taka það fé. Vildu menn taka það úr verkamannabústaðakerfinu eða vildu menn taka skatta með öðrum hætti í þetta kerfi? Það er auðvitað útilokað fyrir stjórnmálamenn að haga sér þannig að þeir geti leyst allra manna vanda án þess að það kosti nokkurn skapaðan hlut, eins og hendir hæstv. núv. félmrh. yfirleitt alltaf þegar hann tekur til máls um húsnæðismál. Það er útilokað að setja hlutina þannig upp. Vandi húsbyggjenda eða annarra verður ekki leystur nema með því að menn þori að afla til þess tekna. Og til þess eru stjórnmálamenn að hafa kjark til að ná í þessa fjármuni sem þarf þegar mikið liggur við.

Nei, spurningin er ekki um það, hvort menn vildu auka tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins, heldur er spurningin um það hvaðan vildu menn taka þá tekjustofna. Vildu menn skerða verkamannabústaðakerfið? Sá sem segist vilja efla almenna húsnæðislánakerfið hann er í rauninni að heimta það að 1% launaskatturinn sé fluttur aftur úr verkamannabústaðakerfinu yfir í atmenna kerfið. Því það var sú stefnubreyting, það var sú áhersla sem fráfarandi ríkisstj. hafði í húsnæðismálum.

Mín skoðun varðandi húsnæðismálin var fyrst og fremst sú að það væri höfuðáhersluatriði að hækka húsnæðislánin. Það hversu langur lánstíminn væri, væri minna atriði en lánshlutfallið sjálft. Ég tel að lánshlutfallið sé þarna alveg afgerandi höfuðatriði. Mér finnst hins vegar að núv. hæstv. félmrh. lofi mönnum gjarnan lengdum lánum, nefni lengri lán og jafnvel líka hærra lánshlutfall eins og í húsnæðissamvinnufélögin, án þess að það sé í raun og veru nokkur króna til til að efna þessi fyrirheit.

Í ræðu minni hér s.l. fimmtudag fór ég nokkuð yfir þessi mál. Ég gerði það í frekar stuttri ræðu, miðað við þau tilefni sem liggja fyrir mér í þessu efni. Í ræðu hæstv. félmrh. hér áðan kom það hins vegar fram að hann kaus að svara ekki fjölmörgum þeirra spurninga sem ég bar fyrir hann. Hann kaus að svara þeim ekki, láta þær eiga sig, sem vind um eyru þjóta. Ég kann því illa þegar þm. bera fram spurningar af heiðarleika með málefnalegum hætti, að ráðh. skuli þá ekki einu sinni bera sig til við að svara þeim eins og hæstv. félmrh. hér áðan. Grundvallargagnrýni mín á frv. eins og það liggur hér fyrir er auðvitað aðförin að verkamannabústaðakerfinu. 400 millj. kr. á það að hafa á næsta ári. 700 millj. þyrfti það að óbreyttu til að standa við þær skuldbindingar sem húsnæðismálastjórn núna gerir ráð fyrir. Það vantar 300 millj. kr. Ég spurði hæstv. félmrh. og ég spyr hann enn: Hvar á að taka þessa peninga? Hvar á að skera niður? Ég óska eftir skýrum svörum við því hvar félmrh. hæstv. ætlar að skera niður áætlun Byggingarsjóðs verkamanna á árinu 1984.

Samkvæmt áætlun húsnæðismálastjórnar þarf 400 millj. kr. til að standa við þá samninga eina sem gerðir hafa verið til þessa um nýbyggingar. Þá er ekki eftir ein einasta króna í endursöluíbúðir. Það er ekki eftir ein einasta króna í nýbyggingar verkamannabústaða. Og samt ætlar ráðh. að láta sjóðinn taka á sig stóraukin verkefni með húsnæðissamvinnufélögum og með fjármögnun á endursölu leiguíbúðanna eins og ég gat um í ræðu minni hér á dögunum. Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir því að skera sjóðinn niður um 300 millj. Hér er gert ráð fyrir því að tvöfalda framlög eigendanna. En hér er líka gert ráð fyrir því að stórauka verkefni sjóðsins: Þetta gengur ekki upp. Hæstv. ráðh. kemst auðvitað ekki hjá því að svara efnislegum spurningum af þessum toga. Ég legg á það áherslu og minn flokkur að þetta mál fái hér afgreiðslu og þau atriði í þessu máli sem mestu skipta verði afgreidd núna fyrir jól. En ég bendi á að það að neita að svara efnislegum spurningum, eins og hæstv. félmrh. virðist ætla að gera, það greiðir ekki götu málsins. Og þó hér sé um að ræða svör sem fyrir hann kunna að vera óþægileg á þessari stundu þá er honum skylt að gefa þau upp. Og það verður gengið eftir því að hann gefi þessi svör þangað til þau liggja fyrir.

Hæstv. félmrh. flutti hér nokkuð sérkennilegt erindi um staðalóúðir sem væru í raun og veru upphaf og endir alls hins illa í þessum húsnæðismálum. Þessar staðalibúðir eru ekkert annað en reikningsleg viðmiðun sem fengin er með ákveðnum hætti sem hæstv. ráðh. þekkir mjög vel. Og það er auðvitað ekkert einfaldara fyrir félmrh. en að ákveða það að viðmiðunin verði einhver önnur en þarna er um að ræða t.d. vísitöluíbúð. Fyrir mitt leyti skiptir það í raun og veru engu máli. Aðalatriðið er að um sé að ræða viðurkenndan kvarða í þessu efni, viðurkenndan kvarða sem menn sætta sig við að nota þegar þeir eru að ræða um húsnæðiskostnað og þegar verið er að áætla húsnæðiskostnað m.a. í verkamannabústaðakerfinu. Það er auðvitað út í hött að ætla sér að kenna reglugerðinni um staðalíbúð um einhver vandamál í þessu efni, eins og mér fannst hæstv. félmrh. reyna að gera hér áðan.

Ég vil ítreka við hæstv. ráðh.: Er það ekki rétt skilið hjá mér að leiguíbúðirnar samkvæmt lögunum um leigu- og söluíbúðir sveitarfélaga eigi að fara undir hin nýju húsnæðislög og félagslega íbúðarbyggingarkerfið? Er það ekki rétt skilið hjá mér? Það eru nokkur hundruð íbúðir sem félmrh. er þá að bæta inn í félagslega húsnæðislánakerfið, sennilega einar 6–800 íbúðir. Hefur ríkisstj. samþykkt það að þessar íbúðir séu teknar þarna inn? Hafa þingflokkar stjórnarliðsins tekið eftir því að þessar íbúðir eru teknar inn, leigusöluíbúðir sveitarfélaganna samkv. lögum nr. 38/1976? Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. svari þessari spurningu áður en þessari umr. lýkur.

Ég vil óska eftir því í öðru lagi að hann svari því hvað það er sem hann ætlar að skera niður af verkamannabústöðunum á næsta ári. Og ég vil bæta því við: Er það rétt skilið hjá mér að í þessari áætlun sem hann er með í höndunum fyrir verkamannabústaðina 1984 sé ekki ein einasta íbúð í Reykjavík, eins og hv. 2. landsk. þm. spurði hann að hér áðan? Er það tilfellið að það sé ekki gert ráð fyrir neinum nýjum verkamannabústöðum í Reykjavík á árinu 1984? Verkamannabústaðirnir í Reykjavík hafa fengið úthlutað lóðum á tveimur stöðum hér í borginni fyrir tugi íbúða. Þar er um að ræða lóðir á Ártúnsholti og lóðir í Selási. Mér er kunnugt um að forsvarsmenn verkamannabústaðanna í Reykjavík hafa gert ráð fyrir því að geta haldið framkvæmdum áfram á næsta ári. Ég vil spyrja að því alveg skýrt og hiklaust: Er ætlunin að stöðva lánveitingar til verkamannabústaðanna í Reykjavík sérstaklega?

Hafa þeir sem tengst hafa borgarstjórn Reykjavíkur, eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, áttað sig á því að menn eru hér með blöð að kvotlast á milli handanna þar sem gert er ráð fyrir að ekkert verði veitt til verkamannabústaða í Reykjavík á árinu 1984? Ég bið hv. þm. Reykjavíkur um að kanna þetta mál. Það er nú kannske tími til kominn að hv. þm. Reykjavíkur fái að hittast eins og einu sinni, þó ekki væri nema í tengslum við fjárlögin. Núv. hv. 1. þm. Reykv. hefur ekki látið svo lítið að kalla þm. Reykjavíkurkjördæmis saman í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Verður minnst á það við betra tækifæri hér síðar. En það er í fyrsta sinn í sögunni að þm. Reykjavíkur hafa ekki verið kallaðir saman í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna. Það gerist núna haustið 1983 þegar Albert Guðmundsson fyrrv. borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar er fjmrh. í þessu landi.

Ég held að þetta mál þurfi að athuga mjög vandlega, hvort hér er beinlínis verið að rústa verkamannabústaðina í Reykjavík alveg sérstaklega. Það verður gengið eftir því hér í umr. næstu daga. Og ég vil fá upplýsingar um það núna strax í 1. umr. hvort gert er ráð fyrir því að verkamannabústaðirnir í Reykjavík séu með í þessu 1984 og hversu miklu er gert ráð fyrir, ef það er á annað borð eitthvað, í þessum töflum ráðh., sem ég held að sé ekki.

Ég vil enn fremur endurtaka þá spurningu sem ég bar fram hér á dögunum: Hvar á að taka 260 millj. kr. hækkunina á framlagi til húsnæðislánakerfisins 1984 samkv. 9. gr. frv.? Í frv. stendur skýrum stöfum að þetta eigi að vera framlag. Svo þegar hæstv, ráðh. er að tala hér, þá er hann að tala um einhver ný lánsform. Er það þá þannig að ríkissjóður eigi að taka þessi lán og síðan muni hann greiða Byggingarsjóði ríkisins þetta fé sem framlag? Ef það er svo á það auðvitað að standa í fjárlagafrv.: Byggingarsjóður ríkisins 460 millj. kr. Og þessar 200 millj., sem á að taka inn í sérstökum sparnaði, eiga að koma annars staðar inn í fjárlagafrv. og koma Byggingarsjóði ríkisins í rauninni ekkert við sem bókhaldsatriði. Eða er hæstv. félmrh. að blekkja Alþingi? Ætlar hann ekkert að ná í þessar 260 millj.? Eða ætlar hann að bíða eftir því fram í nóvember 1984 að hæstv. fjmrh. veiti aukafjárveitingu til að bjarga í horn þeim mönnum sem hafa flutt hér háværust loforð til húsbyggjenda og lántakenda í landinu? Hvar eru þessir peningar? Hv. Alþingi hlýtur að gera kröfu til þess að hæstv. félmrh. upplýsi nákvæmlega hvar þeir eru. Hér liggja nú fyrir till. frá meiri hl. fjvn. um breytingar á fjárlögunum fyrir árið 1984. Það er hvergi minnst á Byggingarsjóð ríkisins að best verður séð þar. Er ekki meiningin að standa við þetta? Ef þetta frv. verður að lögum núna fyrir hátíðar, er það þá markleysa? Ef það er ekki markleysa þá á að hækka töluna í fjárlögunum. Ég skora á hæstv. félmrh. að gera grein fyrir því hvernig hann ætlar sér að standa við það sem hér er skráð á blað í þessu frv.

Fyrir utan þær spurningar sem ég hef hér nefnt og varða fjármögnun þessa frv. þá lagði ég fram margar tæknilegar spurningar til hæstv. félmrh. Ég tel að margt í þessu frv. sé mjög til bóta, það séu margar lagfæringar í því sem eigi rétt á sér, og ríflega það. Og ég tel að það eigi að vera auðvelt fyrir þingið að afgreiða ýmsar þær lagfæringar á skömmum tíma, vegna þess að þingið hefur áður haft þetta mál til meðferðar. Ég skal ekki draga neitt af mér í þeim efnum. En ég vil endurtaka nokkrar spurningar varðandi hin tæknilegu atriði frá þeirri umr. sem fór fram hér á dögunum vegna þess að ég vil fá að vita, áður en málið fer í nefnd, vegna hvers hlutirnir eru með þeim hætti sem í frv. eru.

Ég spurði t.d. hæstv. félmrh. hvaða rök væru fyrir því að fella út úr 11. gr. áherstuna sem var þar í frv. í fyrra á byggingarsamvinnufélögin. Ég vil einnig ítreka þá spurningu, sem ég lagði fyrir hann hér á dögunum, hvort honum hefði ekki komið til hugar að setja niður hóp manna eða fá til þess sérfræðinga að semja till. að reglugerð eða reglum um hlutdeildaríbúðir skv. 15. gr. frv. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að 15. gr., um hlutdeildaríbúðir og möguleika fólks á sölu skuldabréfa til að fjármagna íbúðir, sé eitt merkasta ákvæði þessa frv. Og ég held að það væri mjög nauðsynlegt, það er ekki sagt af neinni áreitni, ég held að það væri mjög nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. reyndi að skýra þessa mynd aðeins betur, vegna þess að þarna er farið inn á nýtt svið varðandi eignarhald á íbúðum, svið sem aldrei hefur verið farið inn á hér á landi áður.

Þá spurði ég hæstv. félmrh. nokkurra spurninga í sambandi við vextina, og ég tek undir þær spurningar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti í þeim efnum: Hvað eiga vextir Byggingarsjóðs ríkisins að vera háir skv. hugmyndum ríkisstj.? Það hlýtur að liggja fyrir. Ég spurði: Hvernig stendur á því að felldar eru niður takmarkanir á vöxtum til einstaklinga með sérþarfir og af lánum til takmörkunar á heilsuspillandi húsnæði? Hvernig stendur á því að takmarkanir á vöxtum á þessa tvo lánaflokka eru felldar niður, en þær voru inni í frv. síðustu ríkisstj.?

Ég sagði það hér á síðasta fundi, herra forseti, að mér þætti það ekki undarlegt þó núv. ríkisstj. hafi flutt hér frv. um að fella niður úr lögum vaxtaprósentu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna úr því að fyrrv. ríkisstj. skildi eftir sig í raun og veru slíkt frv. Mér þótti það ekki undarlegt og kom það ekki á óvart. En ég minnti á það í umr. hér á dögunum að þm. Sjálfstfl. fluttu við meðferð húsnæðisfrv. á síðasta þingi till. um að setja vaxtahámark hjá Byggingarsjóði verkamanna. Og ég spurði hæstv. félmrh. að því hvort hann væri tilbúinn til þess að greiða fyrir því að ná samkomulagi um slíkt vaxtahámark hjá Byggingarsjóði verkamanna, þó svo að það yrði á valdi ríkisstj. hvaða vextir verða á lánum Byggingarsjóðs ríkisins á hverjum tíma.

Ég get auðvitað sem stjórnarandstæðingur ekki gert neina kröfu um þetta mál, dettur það ekki í hug. Og hæstv. félmrh. getur auðveldlega bent á það að fyrrv. ríkisstj. hafi lagt til að þessar takmarkanir væru allar felldar niður. Það er einfalt mál. En ég spurði: Er hann tilbúinn til að greiða fyrir því að samkomulag náist um þessa takmörkun, því ég teldi að hún væri að mörgu leyti heppileg. Mér sýnist að raunvextir eða vextir ofan á verðtryggingu ofan á lánskjaravísitölu vaði núna upp úr öllu valdi, satt að segja, hér í okkar þjóðfélagi og mér þætti það betra ef við gætum gengið frá frv. af þessu tagi þannig að við settum þarna einhverja takmörkun á lánin úr Byggingarsjóði verkamanna.

Ég spurði hæstv. félmrh. einnig nokkuð út í skyldusparnaðarkerfið. Hvernig á því stæði að það hefðu verið felldar út hugmyndir um nokkru strangara aðhald að skyldusparnaðinum en verið hefur. Ég spurði líka hvernig á því stæði að horfið hefði verið frá því að póstgíróið innheimti skyldusparnaðinn. Ég held að það væri skárra fyrirkomulag að hafa það svo að póstgíróið innheimti skyldusparnaðinn. Póstgíróið mun hins vegar hafa verið tregt til samninga um þetta og það þekki ég reyndar. En ég held að við séum komin í ógöngur með skyldusparnaðinn og þess vegna hreyfði ég þeirri hugmynd, persónulegri hugmynd minni, hér á síðasta fundi að skyldusparnaðarprósentan verði lækkuð en undanþágunum um leið fækkað eða skyldusparnaðarprósentan verði óbreytt frá því sem nú er og undanþágurnar nái aðeins til u.þ.b. helmings skyldusparnaðarins.

Ég held að skyldusparnaðarkerfið, eins og það er núna, dugi ekki Húsnæðisstofnuninni eða Byggingarsjóði ríkisins sem skyldi. Það er dýrt í framkvæmd og ég held að við verðum að reyna að láta okkur detta eitthvað nýtt í hug til að laga þetta kerfi. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort eitthvað slíkt kæmi ekki til álita. Ég held að þetta kerfi hafi gert mikið gagn og það eigi ekki að fella það niður, heldur eigi að reyna að viðhalda því í bættu formi. Núv. form skyldusparnaðarkerfisins er hins vegar þannig, að það er álitamál hvort það er lengur eftirsóknarvert fyrir Byggingarsjóðinn að hafa það á sínum vegum. Það fylgir því mikið nauð og kröfur um stöðugar undanþágur svo að ég held að við þurfum að reyna að sameinast um að finna þarna einhverja nýja leið.

Í lok ræðu minnar hér á dögunum spurði ég hæstv. félmrh. að því, ef það mætti verða til að greiða fyrir framgangi málsins, hvaða greinar það væru í frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hæstv. félmrh. legði mesta áherslu á að fá afgreiddar núna fyrir jólin, þannig að við gætum þá hjálpast að við að taka þær greinar út úr, svo að menn beri ekki upp á sker með þau atriði sem mikilvægust eru fyrir húsbyggjendur og lántakendur í frv. þessu. Ég vil endurtaka þá spurningu til hæstv. félmrh. um leið og ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, að Alþb. er fyrir sitt leyti reiðubúið til þess að kosta kapps um að þetta mál verði að lögum fyrir áramót. Við þyrftum að fá upplýsingar um það engu að síður frá hæstv. ráðh. hvað það er sem hann leggur mesta áherslu á að fá afgreitt í þessu frv., hvaða atriði það eru sem hann teldi kleift að taka út úr þessu frv. Frv. er að sönnu langt, ég held einar 80 greinar, en það eru sennilega ekki nema svona 30 greinar af þessum 80 sem eru breyttar. Verulegur hluti greinanna er óbreyttur frá gildandi lögum, þannig að hér er kannske ekki um eins mikið og óyfirstíganlegt verkefni að ræða og ætla mætti við fyrstu sýn þegar menn sjá fyrir sér þennan stóra lagabálk. Þó er það auðvitað grundvallaratriði í þessu efni — og ræður alveg úrslitum — hver verður lendingin í sambandi við félagslega íbúðarbyggingarkerfið, því ég sé ekki betur en að það sé hér í stórfelldri hættu eins og ég hef rakið hér í máli mínu.

Á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands, sem haldin var núna um helgina, var fjallað um kjaramál. Þar var líka fjallað um húsnæðismál og það frv. sem hér liggur fyrir. Aðförin að félagslega íbúðabyggingakerfinu, sem þetta frv. felur í sér, var gagnrýnd mjög harðlega. Í þeim efnum var minnt á að félagslega íbúðabyggingakerfið hefði verið eflt eftir samninga við verkalýðshreyfinguna 1974. Ég endurtek það sem hér var áður sagt um það mál, að mér sýnist einsýnt að aðförin að félagslega íbúðabyggingarkerfinu og verkamannabústöðunum feli í sér svik við loforðin frá 1974, núna þegar 10 ár eru liðin frá því að þau loforð voru gefin. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv félmrh. svari því þess vegna hvernig hann ætlar að standa að framkvæmd félagslega íbúðabyggingarkerfisins á næsta ári og hvað það er sem hann leggur til að verði skorið niður úr 700 millj. kr. áætlun verkamannabústaðanna á næsta ári, þannig að talan verði 400 millj. Ég geri kröfu til þess að hæstv. félmrh. svari þessu ítarlega og lið fyrir lið og jafnframt geri hann grein fyrir því hvort það er rétt, sem hér hafa komið fram hugmyndir um, að það eigi að skella hurðum á allar óskir verkamannabústaðanna í Reykjavík á næsta ári.