12.12.1983
Neðri deild: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það var ætlun forseta að þessari umr. gæti lokið í kvöld, og forseti hafði ástæðu til að ætla að svo gæti sannarlega orðið. Ég hafði ástæðu til að ætla fyrir ekki ýkja löngu að þessum fundi gæti lokið, við skulum segja nokkru upp úr miðnætti. En nú hafa mjög margir kvatt sér hljóðs, og ég lái mönnum ekki þó að þeir hafi áhuga á að ræða svo mikilvægt mál. En ég vil samt benda á að það er ákaflega brýnt að þetta mál komist til nefndar. Ég vil leyfa mér að fara fram á það við þá hv. þdm. sem eiga eftir að tala að þeir hagi svo máli sínu, og komi þó miklu efni að í ræðum sínum, að möguleiki verði á að ljúka þessari umr. í kvöld. Það líður mjög á þingtímann og satt að segja orðið nokkuð erfitt að koma málum fram, en eigi að síður er sjálfsagt að ræða þetta frekar.