13.12.1983
Sameinað þing: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

1. mál, fjárlög 1984

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Ég vil til að byrja með þakka samstarfsfólki mínu í fjvn. svo og ritara og öðru starfsfólki kærlega fyrir mjög gott samstarf og vonast eftir því að að það samstarf fái að þróast áfram á þeirri braut sem hingað til.

Eins og fram hefur komið flytur fjvn. sameiginlegar brtt. en hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Brtt. eru fluttar með fyrirvara af hálfu minni hl. sem áskilur sér rétt til þess að flytja eða fylgja þeim brtt. sem fram kunna að koma. Minni hl. skilar sérstöku nái. þar sem gerð hefur verið grein fyrir þeirri einu brtt. sem minni hl. flytur sameiginlega, sem er hækkun stofnkostnaðar dagvistarheimila.

Nú dettur engum í hug að halda því fram að ekki sé við mikla erfiðleika að etja í efnahagslífi Íslendinga. Skilyrði til þess að rétta megi af þjóðartekjur og þar með þjóðarhag og freista þess þar með að byggja upp efnahagslíf okkar er að rofi til fyrir atvinnuvegum þjóðarinnar. Það er að styrkja nýjar atvinnugreinar, svo sem iðnað, þannig að innan ekki svo langs tíma náist það markmið að byggja afkomu okkar á mun sterkari og minna sveiflukenndum grundvelli en verið hefur hingað til. Þegar þar að kemur þurfum við ekki að byggja alla okkar afkomu á fiskveiðum eins og hingað til.

Ég hef heyrt því fleygt að fjárlög ársins í ár hafi verið kölluð kreppufjárlög. Hvað má þá segja um það frv. til fjárlaga sem hér er til 2. umr.? Það gæti hugsanlega kallast aðhalds-, sparnaðar- og niðurskurðarfrv., a.m.k. þegar litið er til þeirra liða er varða fétagslega þjónustu, heilbrigðis- og tryggingamál. Þó má til sanns vegar færa að hlutur framlaga til menningarmála, lista, æskulýðsmála o.fl. hafi réttst til muna í meðförum fjvn. og er það vel. Því sama er hins vegar ekki að heilsa þegar litið er á liði eins og yfirstjórn rn. og fleira í þeim stíl.

Fjárlagafrv. endurspeglar alltaf stefnu þeirrar ríkisstj. sem leggur það fram á hverjum tíma. Það fjallar um það hvernig skuli útdeila því fjármagni sem til skiptanna er og því sem í handraðanum kann að leynast. Öll umræða um peninga og skiptingu þeirra til hinna ýmsu málaflokka hlýtur alltaf að vera afstæð, og þar að auki spurning um gildismat. Það sem einum finnst vera það mikilvægasta og merkilegasta af öllu og þurfi ríflegan skammt finnst öðrum að koma hefði mátt neðar á forgangslistanum og öfugt.

Í athugasemdum við fjárlagafrv. fyrir 1984 stendur að í því felist breytt stefna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum frá því sem áður hefur verið. Ef hins vegar eru skoðuð fjárlagafrv. síðustu ára er ekki að sjá að svo sé, því miður. Þvert á móti virðist ríkja mikil sjálfvirkni við gerð slíkra frv. og þeir liðir sem einu sinni eru þangað komnir virðast lifa þar góðu lífi um ómunatíð. Það er sem sagt mun erfiðara að koma liðum inn í fjárlög en að koma þeim þaðan út aftur, enda eins gott fyrst þessu er svo farið sem raun ber vitni.

BJ leggst eindregið gegn þeirri sjálfvirkni sem ræður gerð fjárlaga frá ári til árs og telur að leita verði færra leiða til að koma í veg fyrir að stórir og smáir útgjaldaliðir og tekjustofnar gangi aftur í hverju fjárlagafrv. á fætur öðru. Þess vegna telur BJ mjög athugandi að sett sé „sólarlag“ á sem flesta liði fjárlaga, þannig að sett sé sérstök endurskoðunarkrafa á þá liði, enda vel tímabært að kveða niður þá fásinnu að eitt sinn inni, alltaf inni, sé raunveruleiki sem það vissulega virðist vera í dag. Það er álit BJ að þær vinnuaðferðir sem viðhafðar eru við framkvæmd þess hluta fjárlagagerðar sem á fjvn. hvílir hafi gengið sér til húðar. Og ég tek undir ummæli hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar er hann mælti eitthvað þar að lútandi áðan.

BJ vill að sjálfsögðu engan veginn skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem vinnan í fjvn. er, en leggur áherslu á að einstaklingum og samtökum þeirra, hvort sem er á sviði sveitarstjórna, viðskipta- eða áhugafélaga, verði með breytingum á stjórnarháttum gert mögulegt að sinna áhugaefnum sínum og skyldum án þess að þurfa að sækja allt sitt undir pólitískt duttlungavald.

BJ hefur þegar kynnt hugmyndir sínar í þessu efni, en þær stefna allar í þessa átt. Í athugasemdum frv. segir að viðleitni sé sýnd til að draga úr ríkisumsvifum án þess þó að skera niður mikilvæga þjónustu. Þessi atriði hvor tveggja eru fallin um sjálf sig, því miður. Það er vegna þess að enginn liður í frv. heldur sínu striki jafnvel og einmitt ríkisumsvifin. Nægir í því sambandi að nefna, eins og ég gat um áðan, yfirstjórnir ráðuneyta. Samtímis er áætlað að stíga risaskref aftur til grárrar fortíðar og fara að láta sjúklinga taka á sig eiginhlutdeild í sjúkrakostnaði, sem svarar um 355 millj. kr. Það á sem sagt ekki að draga úr kostnaði eða spara, svo sem forsendur gera ráð fyrir, það á einungis að skipta því út hvaða aðili það er sem borgar brúsann. Til þess eru valdir þeir sem eru sjúkir og illa í stakk búnir til þeirra hluta.

Í athugasemdum segir að gert sé ráð fyrir því að ýmsar ríkisstofnanir selji þjónustu sína á eðlilegu verði og að sértekjur þeirra hækki í samræmi við það. Enn fremur segir að strangs aðhalds sé gætt við áætlun útgjalda í öllu frv.og að meginstefnu til sé ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til að ráða í nýjar stöður. Í takt við þessar forsendur er haft eftir hæstv. fjmrh. í Tímanum 3. sept. að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir miklum samdrætti í fjárframlögum til þeirra ríkisfyrirtækja sem eru á sölulista með það fyrir augum að þau verði seld á næsta ári.

Við í BJ teljum að mikið skorti á að framangreindar forsendur og fullyrðingar fái staðist og að mikið vanti á að þessu sé framfylgt í frv. Höfum við þess vegna lagt fram brtt. við frv. þar sem við leggjum m.a. til að laun og annar rekstrarkostnaður ýmissa fyrirtækja í eigu eða á framfæri ríkisins verði skorin niður um 35% en að þau auki að sama skapi sértekjur sínar um sömu krónutölu, þannig að þeim sé í auknum mæli gert skylt að standa undir eigin rekstri. Það sér hver maður að það hlýtur að vera raunhæf ráðstöfum ef um er að ræða ákvörðun um að selja viðkomandi fyrirtæki. Það hlýtur að verða að gera ráð fyrir því að hinir nýju eigendur þurfi og eigi að sjá til þess að reksturinn standi undir sér.

BJ harmar einnig mjög þá atvinnustefnu sem birtist í fjárlagafrv. og kemur fram í fjárveitingum til þeirra stofnana sem ætlað er að styðja og efla helstu atvinnuvegi þjóðarinnar. Af fjárlagafrv. er ljóst að ríkisstj. stefnir ekki að neinni nýsköpun atvinnuveganna. Iðnaðinum er t.d. ætlað að standa að verulegu leyti undir þeirri ráðgjafar- og sérfræðiþjónustu sem honum stendur til boða. Ekki verður heldur séð að nein umtalsverð aukning skuli eiga sér þar stað. BJ er þeirrar skoðunar að skyldur stjórnvalda eigi fyrst og fremst að miða að nýsköpun í atvinnugreinum. Markmið opinbers stuðnings við atvinnuvegina hlýtur annars vegar að vera að koma þeim til einhvers þroska og sjálfsbjargar og hins vegar að fleyta þeim yfir tímabundna erfiðleika. Við erum ekki að fara fram á það að iðnaðurinn fái ellefu hundruð ára aðlögunartímabil eins og landbúnaðurinn. Iðnaðurinn þarf bara að njóta jafnréttis á við aðrar atvinnugreinar, m.a. að því er varðar aðgang að fjármagni.

Þegar til þess er litið að iðnaður er sá vaxtarbroddur sem framtíðaratvinnumarkaðurinn hlýtur að byggjast á verður sinnuleysi stjórnvalda öllum góðum mönnum harmsefni. Framangreint eru m.a. forsendur brtt. BJ, sem lagðar hafa verið fram og ætla ég að greina frá helstu liðum þeirra en 2. flm. till. mun á eftir skýra þær lið fyrir lið.

Í samræmi við þær forsendur sem greinir í fjárlagafrv. en þó er ekki farið eftir að okkar mati, leggjum við til í fyrsta lagi að skera niður rekstrarkostnað í yfirstjórn allra rn. um 10%. Í öðru lagi að nokkrar stofnanir verði lagðar niður og/eða að starfsemi þeirra verði flutt annað. Dæmi um það eru Fasteignamat ríkisins og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar.

Í þriðja lagi í samræmi við stefnu BJ um að í áföngum verði horfið frá útflutningskvótum og niðurgreiðslu landbúnaðarafurða, drögum við 25% frá þeirri upphæð sem til þess liðar er ætluð í frv. Þeir fjármunir sem þannig fást eða liðlega 400 millj. kr. leggjum við til að verði m.a. veitt til sérstaks átaks við uppbyggingu og þjónustu við iðnað.

Dagvistarheimilin fái þá upphæð sem minni hl. fjvn. lagði til að þau fengju, enda nauðsynlegt að stefna markvisst að því að þeim þörfum fyrir dagvistun barna sé fullnægt. Auknum fjárveitingum verði varið til Framkvæmdasjóðs fattaðra og þannig stefnt að því að koma til móts við þann stóra hóp sem á við andlega eða líkamlega fötlun að stríða og allt of lítið tillit virðist eiga að taka til í fjárlagafrv. Skv. till. BJ, ef samþykktar verða, er séð til þess að bygging K-deildar fái það framkvæmdafé sem til þarf á næsta ári sem stuðlar að því að byggingartími verði styttri en ella. Að auki höfum við lagt til að ýmsir smáskattar sem litlu skila í ríkissjóð, en geta munað launafólk miklu verði lagðir niður.

Að lokum, herra forseti, vonast ég svo sannarlega til þess að brtt. BJ fái góðan hljómgrunn og verði skoðaðar og teknar til athugunar fyrir afgreiðslu frv. af raunsæi og velvilja. Þetta segi ég vegna þess að með þeim geri ég ráð fyrir að til verði fjármagn fyrir þeim till. til hækkunar við hina ýmsu bráðnauðsynlegu liði sem vanáætlaðir hafa verið að okkar mati í fjárlagafrv.