14.12.1983
Efri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég átti nú ekki von á því að þetta frv. vekti umr. af því tagi sem hér hafa nú orðið. Ég verð að segja að mér finnst það gersamlega út í hött að vera að bera saman það sem við erum hér að afgreiða og það sem verið er að ræða í hv. Nd. og á eftir að koma hingað. Auðvitað vega mál misþungt í hugum okkar allra og auðvitað eru sum mál mikilvæg og önnur lítilvæg. Sum eru einum lítilvæg og öðrum mikilvæg. Ég lít svo á að hér sé verið að jafna aðstöðu þegnanna í landinu og það finnst mér vera meginatriði.

Þau vandamál sem verið er að ræða í hv. Nd. núna eiga eftir að koma hingað til okkar til umr. Kannske á sinn þátt í því vandamáli ógætileg meðferð þess gjaldeyris sem aflað hefur verið — ógætileg meðferð í þá veru að það hefur verið keypt allt of mikið af fiskiskipum erlendis frá og það er hluti vandamálsins. En ég ætla ekki að fara að hefja neinar umr. um það hér og nú. Mér finnst meginatriði þessa máls vera það, og ég ítreka það, að hér sé verið að jafna aðstöðu fólks á landinu til þeirrar þjónustu sem bankarnir hafa einir veitt til þessa. Það er meginatriðið og þess vegna er ég hlynntur málinu.