15.12.1983
Neðri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er margt rétt í því sem síðasti ræðumaður sagði, hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Þetta hafa stjórnarandstöðuþm. upplifað ærið lengi. Þetta er því miður ekkert nýtt. Það gerðist á þeim tíma sem þessi hv. þm. var í stjórnaraðstöðu að við hinir upplifðum þetta, því miður.

Það er rétt sem forseti segir, að auðvitað ber þm. hér að vera, en þá verður að ætlast til þess af þeim sem hér stýra vinnubrögðum að nefndarfundir séu ekki boðaðir á sama tíma og þingdeildarfundir eða fundir í Sþ. ef ætlunin er að skylda menn til að vera hér á þessum stað.

Ekki geta hv. þm. verið á tveim stöðum í einu. Það verður að ætlast til þess af forsetum þingsins og nefndaformönnum þeim sem ráða hér ríkjum að ekki séu þá boðaðir fundir á fleiri en einum stað í einu. Annað fer ekki saman.