15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur heyrst ærið oft að offjárfesting sé í grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar. Í framhaldi af þeirri fullyrðingu hljótum við þá einnig að beina augum að ýmsum þjónustustofnunum í þessu þjóðfélagi og spyrja: Hvaða mannaflaþörf er æskilegt að hafa þar til þess að þær geti sinnt sínum verkefnum?

Ég minnist þess að ég horfði á teiknimynd í dönsku blaði í fyrra þar sem þeir brutu um það heilann hvað væri að í þeirra efnahagslífi. Þeir höfðu í öðru tilfellinu níu menn undir árum og einn sem stýrði — og sögðu: Þannig var það. Svo voru þeir með aðra teiknimynd þar sem þeir höfðu einn undir árum en níu við að stýra — og sögðu: Þannig er það. Og þeir töldu að það væri e.t.v. eitthvert af þeirra vandamálum sem af þessu stafaði.

Nú þykir mér sanngjarnt að fá við því svör frá ráðh. hvað hann geri ráð fyrir að þetta muni auka mikið mannaflann í bönkunum og sparisjóðunum. Og jafnframt hvort sameining ríkisbanka hafi verið rædd í þessu sambandi, þar sem e.t.v. hefði mátt draga úr mannaflaþörf með slíkri aðgerð.