15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég byrjaði á að lesa upp bréf frá landbrn. til rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, þar sem er beinlínis óskað eftir að þessi mál séu rannsökuð. Ég sagði síðan að ítrekað hefði verið þetta mál, en út úr því hefur enn þá ekkert komið frá rannsóknarlögreglunni. Ég vænti þess að það sé vegna þess að hún hafi ekki fundið neitt enn þá í því sambandi. Það hefur komið fram að lögfræðingur bændasamtakanna hefur síðan skrifað rannsóknarlögreglunni bréf sama efnis, þar sem það er ítrekað að biðja um þetta. Ég sé ekki annað en að málið sé í höndum þeirra aðila sem er falið samkvæmt okkar stjórnskipun að rannsaka slík mál.

Eins og ég sagði líka áðan hef ég ítrekað rætt þetta m.a. við tollgæslustjóra og lagt áherslu á að bæði þessi rn. vildu gera það sem þeir teldu að gæti stuðlað að því

að hið sanna kæmi fram í þessum málum. Mér finnst nokkuð hart ef síðan er sagt að þetta sýni að það sé enginn áhugi fyrir neinu.

Það er rétt að í skýrslunni sem ég las upp áðan er ekki nafn Hótel Sögu. Mér er ekki kunnugt hvernig á því stendur að þeir hafa valið aðra staði, en vitanlega er þarna ekki um að ræða nema fáa af þeim stöðum þar sem kjöt er til sölu, þannig að þetta er vitanlega enginn tæmandi listi. Ég hygg að teknar séu stikkprufur öðru hvoru, en sjálfsagt eru takmörk fyrir því hvað á einum og sama degi er hægt að komast yfir marga staði.

Ég hef síður en svo löngun til þess að það sé hylmað yfir neitt. Mér finnst allt að því koma fram í orðum hv. ræðumanna að ég hafi ekki vilja til þess að það sanna komi í ljós í þessu sambandi. Mig satt að segja furðar á þeim orðum. Ég mun halda áfram að leggja áherslu á að þessi mál verði rannsökuð, eins og ég sýndi fram á að hefur verið gert. Ég tel að það sé nauðsynlegt allra aðila vegna, bæði vegna þess að það er vitanlega algjörlega ótækt að kjöt sé flutt inn í landið, það er brot á mörgum lögum, eins og hér hefur verið rakið, það veldur mikilli hættu vegna sýkingarmöguleika, og svo er það vitanlega líka nauðsynlegt fyrir þá aðila sem hafa verið ásakaðir um lögbrot í þessu sambandi. Sumt hefur ekki sannast, en í öðrum tilfellum hafa komið upp dæmi. En þar sem er um ásakanir um stórfellt smygl að ræða er vitanlega nauðsynlegt allra aðila vegna að hið sanna komi í ljós. Ég mun vitanlega halda áfram að leggja áherslu á að þeir aðilar sem þessi mál eiga að rannsaka, geri sitt ýtrasta til að hið sanna komi í ljós. Ég sé ekki hvernig hægt er öðruvísi að málum að standa en að leggja að þeim aðilum sem með rannsókn mála eiga að fara samkv. okkar lögum að gera það.