16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Örfá orð um þingsköp. Ég get að vísu ekki leyft mér að tala fyrir hönd allra alþm. eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson virðist gera. Ég veit satt að segja ekki í hvers umboði hann talar svona. Hann veit það heldur ekki sjálfur, fremur en nokkurn skapaðan hlut um þetta mál. Það er auðheyrt á máli þessa hv. þm. að hann veit ekki einu sinni hvaða spurningum hefur verið svarað. Fjölmörgum spurningum hefur verið svarað. M.a. hef ég svarað sumum þeirra, en greinilega hefur hv. þm. ekki gert sér grein fyrir því. Ef hann veit og ef hann tetur að einhverjum spurningum sé enn ósvarað, þá tel ég nauðsynlegt að hann láti það koma fram.

Herra forseti. Ég tel það fáránlegt að fresta umr. um þetta mikilvæga mál. Það er skammur tími til stefnu. Sjútvn. Alþingis hafa lagt mikið á sig til að koma þessu mikilvæga máli áfram og þess vegna ber hæstv. forseta ekki að taka tillit til hótana hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um málþóf. Hér er um eitt mikilvægasta mál að tefla fyrir þjóðarbúið og fólkið í landinu. Það skiptir þennan hv. þm. auðvitað engu máli. En ég neita því að slíkur málflutningur sé hafður uppi á vegum Alþb.