16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé að hv. þm. Svavar Gestsson er ekki hér í deild en ég vildi biðja þá sem standa honum hér næst að koma þeim skilaboðum til hans — (Forseti: Það eru vafalaust möguleikar á að ná í hv. þm.) — sem ég ætlaði að hafa hér frammi. Ég ætlaði aðeins að svara því sem hann fór um nokkrum orðum áðan. Hann sagði að ég hefði stungið undir stól plaggi frá ASÍ. Ég verð nú að segja, hv. þm. Svavar Gestsson, að mér finnst alveg dæmalaust að slá svona löguðu fram úr þessum ágæta ræðustól. Staðreynd málsins er að ég boðaði á fund sjútvn. beggja deilda fulltrúa frá ASÍ og frá Verkamannasambandi Íslands. Þeir sem mættu á þennan fund okkar voru Sigfinnur Karlsson frá Neskaupstað, Pétur Sigurðsson frá Ísafirði og Jón Kjartansson frá Vestmannaeyjum. Bréf ASÍ ljósritaði ég strax og mér hafði borist það í hendur og fengu allir nm. eitt eintak af þessu bréfi.

En ég held að rétt sé vegna þessa að ég lesi það bréf. Ég held líka að rétt sé að ég lesi bréfið allt en ekki aðeins hluta úr því eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði. Í bréfi ASÍ segir:

„Í frv. til l. um breytingu á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er ráðh. gefið einræðisvald til að ákveða fiskveiðistefnu og stjórn veiða á ákveðnu tímabili. Sambandsstjórn ASI er ljóst að nauðsynlegt er að einhver hafi úrskurðarvald um þessi mál svo fært sé að skipuleggja veiðar og vinnslu með þeim hætti sem aðstæður krefjast hverju sinni. Hins vegar bendir sambandsstjórn ASÍ á að raunhæf fiskveiðistefna verður ekki mótuð nema í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Því beinir sambandsstjórn ASÍ því til hv. Alþingis að það beiti sér fyrir því að skýrt komi fram í lögunum að ráðh. sé skylt að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um framkvæmd laganna. Hér er átt við samtök sjómanna, útgerðarmanna, verkafólks í fiskvinnslu og eigendur fiskvinnslufyrirtækja. Sambandsstjórn ASÍ telur að víðtækt samráð og samstaða allra hlutaðeigandi aðila sé forsenda raunhæfs skipulags veiða og vinnslu og að slíkt samstarf geti, ef vel til tekst, dregið úr hættu á atvinnuleysi.“

Undir þetta ritar Ásmundur Stefánsson.

Aðspurðir töldu þessir aðilar, sem ég taldi hér upp áðan, alls ekki óeðlilegt að ráðh. hefði þessi völd með tilliti til þeirra aðstæðna sem nú ríkja. Hins vegar lögðu þeir áherslu á að fulltrúar fiskvinnslufólks kæmu inn í þetta dæmi. Sjútvrh. hefur marglýst því hvað það er sem hann er að meina þegar hann talar um samráð. Sjútvn. tók því till. þessa að ósk nefndarinnar upp. Hún er einmitt í nál. og ég leyfi mér að lesa þann kafla:

„Nefndin leggur þunga áherslu á að náið samráð verði haft við hagsmunaaðila um framkvæmd laganna, svo sem tekið er fram í grg., og vill í því sambandi árétta sérstaklega að fulltrúar fiskverkunarfólks verði hafðir með í ráðum.“

Ég vil einnig að gefnu tilefni segja hv. þm. Svavari Gestssyni að ég hef orðið við óskum allra nm. í báðum deildum um að fá til viðræðna við sjútvn. alla þá aðila sem nm. hafa óskað eftir.

Það hefur einnig komið hér fram í umr., ég held að það hafi verið hjá hv. ræðumanni Svavari Gestssyni, að hér væri ekkert rætt um rekstrarvanda útgerðarinnar. Sá þátturinn lægi eftir óleystur enda þótt þetta frv. næði fram að ganga. Það fer náttúrlega ekki fram hjá neinum að rekstrarvandi útgerðarinnar eykst með minnkandi afla. Og það er öruggt að það mun hrikta víðar í en aðeins í sjávarútveginum þegar svo fer. M.a. af því er nauðsynlegt að skipuleggja betur en áður hefur verið veiðar og vinnslu og tryggja að sem mest verðmæti fáist fyrir það sem úr hafinu er dregið. Menn verða bara að átta sig á því að skrapdagakerfið er gengið sér til húðar. Nú er ekki lengur fyrir hendi að sækja í aðra stofna en þorskinn, svo sem gert hefur verið á undanförnum árum og skrapdagakerfið hefur byggst á. Allir þeir hagsmunaaðilar sem komu til fundar við sjútvn. utan fulltrúi frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda töldu að miðað við ríkjandi aðstæður væri eina leiðin til varnar að það frv. sem hér er til umr. næði fram að ganga. Ég tel rétt, vegna þeirra umr. sem hér hafa orðið, að þetta komi hér skýrt fram.