24.10.1983
Neðri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

11. mál, launamál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson óskaði eftir því að ég svaraði nú spurningum þeim sem hann hafði lagt fyrir. Skal ég gera það þótt ég hefði annars ætlað mér að bíða þar til aðrir hefðu talað. Mun ég þá jafnframt koma að ýmsum öðrum atriðum, sem hér hafa komið fram, þó ég skeyti ekki um að svara ýmsum persónulegum árásum á mig. Af þeim átta spurningum sem hv. þm. lagði fram hygg ég að einar fimm muni vera til mín.

Ég vil segja það í upphafi að ég geri ekki mun á því hvort ákveðið er með brbl. eða hér inni á hinu háa Alþingi þar sem brbl. fá að sjálfsögðu staðfestingu eins og vera ber. Meðan brbl. eru leyfð í okkar stjórnkerfi eru þau, eins og hv. þm. vel veit, oft notuð og ekki talið óeðlilegt út af fyrir sig þó að það hafi stundum verið gagnrýnt.

Hv. þm. spyr í fyrsta lagi hvort hægt sé að nefna eitt einasta dæmi um að launamenn hafi verið sviptir samningsrétti á sama hátt og hér hefur verið gert. Vitanlega má lengi um það ræða hvort það er á sama hátt. Í Noregi frá sept. 1978 til ársloka 1979 var mjög svipað að staðið, þ.e. allar launahækkanir voru bannaðar og einungis leyfðar óhjákvæmilegar kostnaðarhækkanir. Í Hollandi hefur þetta hvað eftir annað verið gert, a.m.k. þrisvar sinnum nýlega, m.a. sex mánuði síðari hluta ársins 1976 og vísitölubinding þá afnumin. Í Danmörku var launa- og verðstöðvun frá okt. 1982 til febr. 1983 og þannig mætti raunar lengur telja, m.a. í Frakklandi. Ég hygg því að það sé út af fyrir sig ekkert einsdæmi að gripið hafi verið til slíkra ráðstafana og þá að sjálfsögðu til þess að sporna gegn vaxandi verðbólgu. En ég leyfi mér þó að fullyrða að hvergi hafi verið eins rík ástæða til róttækra ráðstafana og hér á landi var um mitt sumar.

Hv. þm. spyr jafnframt hvort hægt sé að nefna eitt dæmi úr Íslandssögunni um að bannað hafi verið með brbl. að greiða vísitölubætur á laun í heil tvö ár. Ég skal ekki segja hvort það var gert með brbl., því ég geri ekki mikinn greinarmun á því, en vísitölubætur á laun voru bannaðar 1960–1964.

Þá segir í þriðju spurningu að í brbl. sé hvergi minnst á rétt verkafólks til vinnustöðvana. Er því ekki ljóst að verkalýðsfélögin hafi fullan rétt til vinnustöðvana ef þeim býður svo við að horfa?

Í brbl. er hvergi sett bann við vinnustöðvunum, eingöngu sett bann við hækkun á grunnkaupi og vísitölubindingu hvers konar á launum, þannig að ef vinnustöðvanir eru notaðar til þess að knýja slíkt fram þá er það ekki í anda laganna. Hins vegar geta að sjálfsögðu orðið vinnustöðvanir út af öðrum deilumálum vinnuveitenda og vinnuþega.

Í fjórða lagi: Hvað gerir ríkisstj. ef launamaður og atvinnurekandi ná samkomulagi um einhverja launahækkun? Mig minnir að í ræðu hv. þm. hafi verið sagt „fyrir 1. nóv.“, sem skiptir út af fyrir sig ekki máli, en hér mun vera átt við „á tímabilinu“. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég geri því alls ekki skóna að vinnuveitendur og launþegar semji um launahækkun sem gengur gegn þessum lögum. Slíkt væri að sjálfsögðu lagabrot og yrði farið með það sem önnur lagabrot.

Þá segir í fimmta lagi: Hvað er átt við með ákvæðum laganna um framlengingu síðastgildandi kjarasamninga? Hér er að sjálfsögðu átt við að þeir samningar sem voru í gildi 26. maí eru framlengdir, eða, ef ekki eru samningar í gildi, þá eru þeir samningar framlengdir sem síðast voru í gildi. Og af því að samningar sjómanna voru sérstaklega nefndir, sem ekki voru í gildi en höfðu að vísu verið framlengdir eða eftir þeim var unnið, þá eru þeir samningar með lögunum að sjálfsögðu einnig framlengdir og vísar það sem þar segir um síðasttalda samninga t.d. til þess.

Hv. þm. kom að ýmsum öðrum atriðum í athyglisverðri ræðu sinni. Hann minntist m.a. á það að í tillögu þeirra Alþb.- manna hefði verið gert ráð fyrir 23–24% hækkun lægstu launa og síðan, að því er mér skildist, sömu krónutölu upp úr. Hv. þm. gat þess hins vegar ekki að slík hækkun t.d. hjá frystiiðnaðinum hefði þýtt u.þ.b. 6–7% gengisfellingu. Ég hygg að hv. þm. geti verið sammála því að frystiiðnaðurinn, í þeirri stöðu sem hann var í maí, hefði ekki getað tekið á sig slíka launahækkun án þess að gengisfelling fylgdi. Þeirri 8% hækkun sem ákveðin var af ríkisstj. fylgdi að sjálfsögðu gengisfelling. 2% af þeirri gengisfellingu sem ákveðin var til að bæta stöðu atvinnuveganna stafaði af þeirri 8% hækkun sem ákveðin var. Hv. þm. taldi að 1981 hefði verið farin „leið hinna sléttu skipta“. Það hljómar eins og „teið hins hellaga sannleika,“ í anda austantjalds- og Kóreu-orðbragðs. Mér þótti satt að segja svolítið undarlegt að heyra þetta og væri kannske fróðlegt að rekja einhvern tíma við betra tækifæri hvernig sú ákvörðun var tekin sem tekin var í lok ársins 1980. Má auðveldlega fletta upp í gögnum ríkisstj. til að fá upplýsingar um það og um margra vikna fundi og viðræður sem fóru fram á milli flokkanna áður en til þeirrar ákvörðunar kom. (KP: Megum við ekki fá að heyra?) Ef hv. þm. Svavar Gestsson vill leyfa að lesið verði upp úr fundargerðum ríkisstj. þá kemur það vel til greina. En þær eru trúnaðarmál og ég brýt það ekki án hans leyfis. (KP: Hann segir já.)

Hv. þm. talaði um viðskiptahallann og taldi að rekja mætti verulegan hluta hans til umframsamþykkta langlánanefndar. Mér hefur því miður ekki tekist að fá upplýsingar um samþykktir langlánanefndar á þessu ári. En þó vil ég geta þess að staða langra erlendra lána 1978–1983, eins og nú er áætlað, liggur fyrir og þar kemur m.a. fram að aukning á löngum erlendum lánum var mest 1982, eða um 21.8%, og næstmest 1981, 18%, en 1983 er talið að löng erlend lán aukist um 11.5%.

Hv. þm. taldi að hagnaður verslunarinnar væri óhóflega mikill. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um stöðu verslunarinnar og leitað til Verðlagsráðs í því sambandi. Verðlagsstjóri fullyrðir að farið hafi verið vandlega eftir ákvæðum brbl. um verðlagningu á vöru og þjónustu og eingöngu óhjákvæmilegar hækkanir leyfðar. Verðlagsstjóri telur einnig að mjög sé orðum aukið um hagnað verslunarinnar. Vafalaust er þetta misjafnt en hann vekur athygli á því að í flestum verslunum hefur velta mjög dregist saman og hagnaður því minnkað þótt ekki væri nema af þeim orsökum. En eins og ég sagði er þetta eflaust mismunandi og einhverjar verslanir hafa vafalaust töluverðan hagnað, einkum þær sem tekist hefur að halda uppi mikilli veltu.

Hv. þm. talaði mikið um kaupmáttarskerðinguna og taldi að kaupmáttur nú væri svipaður og hann var 1953, hvorki meira né minna. Hv. þm. ritaði Þjóðhagsstofnun 11. maí s.l. og óskaði þá eftir ýmsum upplýsingum sem hann fékk. Eru þær margar hverjar mjög athyglisverðar. (SvG: Voru þær sendar forsrn.?) Mér tókst að fá þær, já. Þetta eru vonandi ekki nein leyniplögg, er það? Þessi gögn komu til mín af því að ég óskaði eftir svipuðum upplýsingum. Þá var mér tjáð að hv. þm. hefði óskað eftir þessum upplýsingum. Ég sé ekkert rangt við það og vona að hv. þm. sjái það ekki heldur. En vel kann að vera að hann vilji halda þeim leyndum.

Hérna er um fjölmargar mjög athyglisverðar upplýsingar að ræða og er auðvitað of langt mál að lesa það allt en velkomið að hv. þm. fái aðgang að þeim. Hér kemur m.a. fram að einkaneyslan, sem að sjálfsögðu er mjög góður mælikvarði á kaupmáttinn, sýnir að kaupmáttur árið 1960 var 100 en 1953 89.2. Hins vegar er hann árið 1982 orðin 223.1 og áætlaður 1983, miðað við þá skerðingu sem verður, 201. Kaupmátturinn 1983, mældur á mælikvarða einkaneyslunnar, er því hvorki meira né minna en töluvert meira en tvöfaldur sá sem var 1953. Einnig má að sjálfsögðu meta þetta eftir kaupmætti ráðstöfunartekna og kemur þar ákaflega svipað fram. Þar kemur fram að miðað við 100 árið 1960 var kaupmáttur ráðstöfunartekna 1953 87.9 en 270 1982, og því spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna falli niður í 233 við þá skerðingu sem verður á þessu ári. Af þessu má sjá að fullyrðing hv. þm. um að kaupmáttur sé nú svipaður og hann var 1953 er úr lausu lofti gripin og vekur satt að segja furðu þar sem hv. þm. á að hafa þessi gögn.

Í þessum upplýsingum kemur líka fram, sem er verðugt að hugleiða, að kaupmáttur hér hefur ætíð skerst þegar aflabrestur hefur orðið, mismunandi mikið en ætíð mjög mikið. Á árunum 1948 til 1950 verður t.d. nálægt 20% skerðing á aflaverðmæti. Á sömu árum og næstu árum á eftir skerðist kaupmáttur ráðstöfunartekna um rúm 35%. Einnig kemur í ljós í þessum töflum að árin 1967 og 1968 verður u.þ.b. 28–29% aflasamdráttur. Og ráðstöfunartekjur skerðast á þessum sömu árum eða árunum strax á eftir um u.þ.b. 16–17%. Það er því svo sannarlega ekkert einsdæmi að ráðstöfunartekjur dragist saman þegar aflabrestur verður í hinu íslenska þjóðfélagi sem svo mjög byggir á afla.

Ég vil einnig vekja athygli á því að Þjóðhagsstofnun hefur gert mjög athyglisverðan samanburð á einkaneyslu og samneyslu áranna allt frá 1950. Kemur þar fram að Þjóðhagsstofnun telur að einkaneysla, sem reyndar kom fram í þeim tölum sem ég las, hafi aukist hátt í þrefalt og vekur athygli á því að að sjálfsögðu hefur þessi einkaneysla haft í för með sér langtum sterkari og öflugri grundvöll sem heimilin standa á nú en þau gerðu 1953. Mikið hefur orðið eftir af varanlegum eignum í betri heimilum, betri búnaði og svo mætti lengi telja. Allur samanburður við 1953 eða fullyrðingar um að kaupmáttarskerðingin sé svo mikil að kaupmátturinn sé svipaður og 1953 fær því alls ekki staðist.

Hv. þm. ræddi mikið um sviptingu samningsréttar og það hafa fleiri gert. M.a. hefur komið fram að Sjálfstfl. taldi ekki rétt að fara þessa leið. Það er alveg rétt, sjálfstæðismenn voru með aðrar hugmyndir að þessu leyti en við framsóknarmenn. Sjálfstæðismenn vildu síður banna samninga um hækkun grunnkaups en þeir vildu þá jafnframt ekki ákveða með lögum neinar áfangahækkanir eins og niðurstaðan varð. Við framsóknarmenn töldum betra að ákveða áfangahækkanir, þ.e. 8% 1. júní og 4% 1. okt., en banna hins vegar með lögum að frekari grunnkaupshækkanir yrðu. Ég fyrir mitt leyti tel að sú leið sem varð fyrir valinu sé töluvert mildari fyrir launafólk. Ég hygg að átök hefðu orðið ákaflega mikil á launamarkaðnum ef þegar í upphafi hefði átt að semja um þær grunnkaupshækkanir sem svigrúm var fyrir á næstu mánuðum.

Út af þessu máli vil ég hins vegar segja það, eins og ég hef reyndar sagt fyrr, að aðaltilgangurinn með þessum lögum er vitanlega það markmið að ná verðbólgunni niður í eða niður fyrir 30%. Sjálfsagt er að nefndir þær hér í hinu háa Alþingi, sem fá málið til meðferðar, hugleiði vandlega hvort ekki kemur til greina að fella niður þetta ákvæði, ef telja má að það markmið í verðbólgumálum sem sett hefur verið náist engu að síður. Ég set mig síður en svo upp á móti því að það verði gert ef — og ég undirstrika það — telja má að verðbólgumarkmiðið náist engu að síður.

Hér hefur einnig verið töluvert rætt um krónutöluhækkun á laun. Það er rétt að í viðræðum um stjórnarmyndun komu þær tillögur fram, m.a. frá Alþb.mönnum og frá fulltrúum Kvennalista. Sömuleiðis var Framsfl. með svipaðar tillögur um 1 200 kr. hækkun á laun og mér er kunnugt um að ýmsir í Sjálfstfl. voru fylgjandi þeirri framkvæmd. Við athugun á því máli komu hins vegar ýmsir annmarkar í ljós. Í fyrsta lagi hefur aldrei tekist, þegar slíkar hækkanir hafa verið ákveðnar, að skerða þannig hlutfallið sem um hefur verið samið á milli hinna ýmsu stétta. Þetta var m.a. reynt 1971 og þegar í næstu samningum var þessu breytt til fyrra horfs. Einnig vöknuðu í því sambandi spurningar um hvort slík krónutöluhækkun ætti að ná inn í ákvæðisvinnutaxta. Ef ég skildi rétt tillögur fulltrúa Kvennalistans þá var það ekki fyllilega ljóst. Kemur það reyndar fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar um þær tillögur að kostnaðurinn fari eftir því hvort slík hækkun nái til allra grunntaxta eða ekki og þar með ákvæðisvinnu. Í umsögn Þjóðhagsstofnunar frá 3. júní 1983 segir svo jafnframt, með leyfi forseta:

„Um áhrif þessara aðgerða á launabil milli flokka er það að segja að krónutölukerfið leiðir óhjákvæmilega til hlutfallslegrar launajöfnunar. Erfitt er að segja nákvæmlega til um það hvenær slíkt kerfi fer úr böndum en þó má fullyrða að þeim mun meiri sem verðbólgan er þeim mun minni líflíkur hefur kerfi af þessu tagi. Þannig er t.d. líklegt að slíkt kerfi leiði mjög fljótlega til árekstra í launastiga ASÍ sem er mjög saman þjappaður. Árekstrahættan verður þeim mun meiri sem krónutöluviðmiðunin er hærri hlutfallslega, miðað við meðallaun í viðkomandi stéttarfélagi.“

Ég vil því láta það koma fram hér að ég hygg að í öllum flokkum hafi verið mjög ríkur stuðningur við krónutöluhækkun. En annmarkar, eins og sá sem ég hef nú getið og kemur fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar, urðu til þess að menn treystu sér ekki inn á þá leið.

Hv. þm. Jóhanna sigurðardóttir kom að vísu ekki með margar spurningar en nokkrar fullyrðingar. M.a. ræddi hún um fjölgun nauðungaruppboða og taldi að aldrei hefði orðið svo mikil fjölgun sem orðið hefur nú. Ég held satt að segja að þetta sé á töluverðum misskilningi byggt hjá hv. þm. og má eflaust rekja til þeirra blaðaskrifa sem um þetta hafa orðið. Það eru ýmsar ástæður sem liggja til þess að nauðungaruppboðum hefur fjölgað, m.a. sú að í hæstaréttardómi, sem kveðinn var upp á fyrri hluta þessa árs, var fundið að ákveðinni framkvæmd sem tíðkast hefur í þessu sambandi. Því var talið nauðsynlegt hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík að afturkalla og auglýsa að nýju mjög mikinn fjölda nauðungaruppboða. Ég hygg að þau nauðungaruppboð, sem þannig voru auglýst að nýju, hafi verið 400–500. Ef til vill kemur þunginn á nauðungaruppboðin einna helst fram í fjölda seldra fasteigna, t.d. á nauðungaruppboðum í Reykjavík. Árið 1963 var fjöldi seldra fasteigna 10, 196418, 1965 8, 1968 21, 1971 var hann 13 og síðan fór hann mjög minnkandi, 1973 3 uppboð, 1974 8 fasteignir seldar, 1975 4, 1976 6. Árið 1977 fjölgaði þeim aftur í 15, árið 1978 í 13, árið 1979 fjölgaði þeim í 19, árið 1980 í 11. En 1981 fækkaði þeim í 9, 1982 fækkaði þeim í 7 og á þessu ári hafa 5 fasteignir verið boðnar upp á nauðungaruppboði og þar af voru 4 íbúðarhúsnæði. Fjöldi nauðungaruppboða er því síður en svo meiri nú í ár og engar líkur til þess að hann nálgist það sem var a.m.k. á árunum 1977–1979. Þetta er því töluvert á misskilningi byggt.

Ekki ætla ég hér að ræða um sjávarútvegsmálin sérstaklega. Þó þykir mér við hæfi að víkja að þeim þar sem mjög hefur verið talað um of stóran flota sem meginorsök þess vanda sem við búum nú við og mér m.a.s. sýndur sá heiður að kenna mér togaraflotann — Steingrímsskipin held ég að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafi nefnt þau. (Gripið fram í: Það eru umframskipin.) Umframskipin já, er það? Ég var að vona að ég ætti þau öll. En þá vil ég vekja athygli á því að í Dagblaðinu 20. sept. 1982 birtist mjög ítarleg samantekt um fjölgun skipa. Og þar kemur fram að ég á satt að segja ekki nálægt því eins mikinn heiður af þessu og hv. þm. og þeir Alþfl.-menn hafa viljað tileinka mér. Þar kemur m.a. fram að togurum er talið fjölga í minni þriggja ára tíð sem sjútvrh. um 14 en í rúmlega árs starfi hv. þm. Kjartans Jóhannssonar er hér sagt að togurum fjölgi um 6. Og er þó tekið fram að þarna sé verið að ætla hverjum þá togara sem samþykktir hafa verið í tíð viðkomandi ráðh. en ekki sem komi í tíð viðkomandi ráðh.

Að sjálfsögðu eru sjútvrh. á undan okkur langtum stórtækari í þessu sambandi. T.d, er Matthías Bjarnason, hv. þm. og hæstv. ráðh., talinn hafa átt 30 og Lúðvík Jósepsson 41. Ég fæ því ekki betur séð en að þessi togaraalda, sem tvímælalaust var nauðsyn þegar hún hófst, hafi smám saman fjarað út. Mér sýnist allt of mikið gert úr þessu af hv. Alþfl.-mönnum.

Ég tel einnig að æðimargt hafi breyst sem ekki varð séð fyrir á þeim árum sem menn voru að kaupa sér skip. M.a. hef ég hér fyrir framan mig bréf frá Hafrannsóknastofnun frá 11. sept. 1980 þar sem stofnunin setur að minni ósk fram spá og tillögur um það hver hámarksveiði skuli vera á þorskafla næstu árin. Hér kemur fram að þótt 450 þús. lestir yrðu veiddar hvert ár telur Hafrannsóknastofnun samt að hrygningarstofninn muni fara vaxandi allt fram til 1984 og sömuleiðis muni heildarstofninn fara vaxandi en segir hins vegar að eftir þann tíma kunni nokkuð að þurfa að draga úr veiðisókn vegna veikra árganga sem þá eru að koma inn í veiðina. Ég veit að hv. fyrrv. sjútvrh., Matthías Bjarnason. getur upplýst hér að þegar hann var sjútvrh. var mjög um það talað að óhætt væri að veiða jafnvel 1–11/2 millj. lesta af loðnu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég get ekki áfellst þá útgerðarmenn sem við slíkar spár bregðast við og fá sér t.d. loðnuskip, sem m.a. munu hafa komið í sjútvrh.-tíð Kjartans Jóhannssonar, ég get hvorki áfellst þá né hann eða aðra sem að sjálfsögðu byggja á því sem við best vitum hverju sinni.

Á þessu hefur því miður orðið gjörbreyting og ekki fengist skýringar á hvað því veldur. ‘76-árgangurinn hefur ekki komið í veiðarnar eins og talið var og hafa fiskifræðingar staðið nokkuð ráðþrota gagnvart því eins og hv. þm. vita. Við þessar aðstæður er flotinn að sjálfsögðu of stór. En ég efast um að hann væri talinn mikið of stór ef aflinn væri 450 þús. lestir af þorski og 700 þús. til 1 millj. lestir af loðnu. Og þó ég gerði þá tillögu að ekki yrði leyfður innflutningur á fiskiskipum í tvö ár miðað við þessar aðstæður, þá vara ég satt að segja við því að það bann verði látið standa til lengdar. Mjög mikið af togurum landsmanna er nú að verða gamall floti og kemur til endurnýjunar á næstu árum. Tólf ára klössun er hjá mjög mörgum skipum á næsta leiti. Það hefur sýnt sig að togararnir endast ekki mikið lengur en 14, 15, 16 ár og ég veit ekki á hverju þessi þjóð ætlar að lifa ef hún ætlar ekki að hafa öflugan og góðan fiskiskipaflota.

Ég lét á s.l. vetri vinna að skýrslu um endurnýjunarþörf skipaflotans. Ég hafði fengið þá skýrslu skömmu áður en sú ríkisstj. sem þá sat fór frá. Sá sérfræðingur sem hana vann taldi að endurnýjunarþörf bátaflotans, sem var það eina sem hafði verið unnið, væri 10 nýir bátar á ári. Ég skal ekki segja hve nákvæmt það er en það var álit þess sérfræðings sem þetta vann.

Ég tel sömuleiðis að þegar því banni sem nú er verður létt af eigi að vera jafnræði með innlendri og erlendri skipasmíði, enda er það staðreynd að mjög er vafasamt að slíkt bann við innflutningi standist til lengdar vegna samninga okkar við Efnahagsbandalagið og Fríverslunarbandalagið. Þessi bandalög bæði mótmæltu því er bannið var sett en voru fullvissuð um að það væri eingöngu tímabundið. Var það þá látið gott heita. Íslenskar skipasmíðastöðvar þurfa að keppa við erlendar. Vonandi tekst þeim það vel svo að skipin verði smíðuð hér heima. En íslenskir útgerðarmenn þurfa einnig að fá skip á því hagstæðasta verði sem til er.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir — og reyndar hv. þm. Karvel Pálmason líka — talaði töluvert um hækkun á opinberri þjónustu. Ég skal taka undir það að hækkun á opinberri þjónustu hefur verið mikil og meiri en maður hefði kosið. En við þá hækkun var höfð nokkuð einföld viðmiðun. Lagt var til grundvallar að ekki yrðu tekin erlend lán til að standa undir rekstri opinberra fyrirtækja. Þess var stranglega gætt og hækkanirnar miðaðar við það. Ég vek einnig athygli á því að hjá hverju fyrirtæki var ákveðin ein hækkun fyrir sex mánaða tímabil en áður hafa slíkar hækkanir komið ársfjórðungslega. Ég vona að þetta takist, að fyrirtækin komist af þennan tíma án þess að safna þurfi erlendum skuldum, því enginn hygg ég vilji auka á þær.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir minntist á 20% hækkun meðallauna og krónutöluhækkun og hef ég þegar fjallað um það. Get ég tekið undir það eins og ég hef sagt. Ég vek hins vegar athygli á því að ríkisstj. varði 450 millj. kr. til ýmiss konar aðgerða til kjarabóta, eða mildandi aðgerða eins og gjarnan hefur verið nefnt. Og það er u.þ.b. tvöföld sú launahækkun sem um var talað. Ekki má gleyma þessari fjárhæð.

Hv. þm. minntist sérstaklega á ellilífeyrisþega og einstæðar mæður. Ég vek athygli á því að greiðslur til ellilífeyrisþega voru hækkaðar sérstaklega um 5% og bætur til einstæðra mæðra með fyrsta barni tvöfaldaðar og 30% hækkun ákveðin með öðru barni og fleirum. Því var út af fyrir sig ekki gleymt þótt ég vilji taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það eru fyrst og fremst þeir sem við lægstu launin búa og lökustu kjörin sem þarf að hafa í huga. Ég hef áður lýst, og geri enn, þeirri skoðun minni að í þeim samningum sem eru fram undan ber að gæta þess sérstaklega að þau laun njóti þess svigrúms sem er til launahækkana almennt.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson taldi að vinna ætti sig út úr þessum vanda með því að lagfæra fjárfestinguna sem hann taldi að hefði verið mjög vanhugsuð. Ég get tekið undir það að ýmislegt af fjárfestingu okkar Íslendinga hefur ekki reynst eins arðbært og ráð var fyrir gert. Ég hygg hins vegar að þeir sem að þessu hafa unnið hafi unnið sitt verk eins og þeir gátu. En það er ætíð mjög erfitt í óðaverðbólgu að áætla svo að standist. Hygg ég að ekki megi síður kenna verðbólgunni þar um en öðru.

Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram að vel hugsuð fjárfesting hefði ekki ein sér fært okkur frá þeim mikla vanda sem við vorum í um mitt árið, þ.e. 130–140% verðbólgu og erlendri skuldasöfnun er nam um 60% þjóðarframleiðslunnar. Á góða fjárfestingu, vandaða fjárfestingu til framleiðsluaukningar og hagvaxtar ber hins vegar að leggja áherslu þegar við fetum okkur upp úr þeim öldudal sem við erum nú í.

Hv. þm. lagði áherslu á samráð og vildi þar ný vinnubrögð. Ég vil gjarnan stuðla að því að samráð geti orðið með sem bestum vinnubrögðum. Ég hef átt nokkra fundi með samráðsaðilum, sem til eru kvaddir samkvæmt efnahagslögum frá 1979, hef bæði átt sameiginlegan fund með þeim og fund með þeim sérstaklega hverjum fyrir sig. Einnig hefur verið bryddað upp á þeim nýmælum að hagfræðingum eða sérfræðingum samtakanna hefur verið boðið til fundar með sérfræðingum ríkisstj. og Þjóðhagsstofnunar á efnahagssviðinu. Á þessum fundum, sem hafa verið haldnir, hefur verið leitast við að ræða á sérfræðilegan máta, skulum við segja, um þær aðstæður sem eru og um þær áætlanir sem ríkisstj. hefur uppi. Ég vona að þessi tilraun hafi orðið til þess að tryggja aðilum vinnumarkaðarins betri aðgang að þeirri vinnu sem fer fram á vegum ríkisstj.

Hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson taldi að skerðingin hefði orðið óeðlilega mikil. Um þetta má að sjálfsögðu lengi deila. Það er rétt að geta þess, fyrst menn eru að tala hér um einstakar tillögur, að við framsóknarmenn vildum ákveða fleiri hækkanir fram í tímann og þannig draga eitthvað úr þessari skerðingu. En ég verð að viðurkenna að miðað við þann ógnvænlega vanda sem við vorum í kann að hafa verið rétt, og ég hygg að það hafi verið rétt, að nauðsynlegt væri að komast úr honum sem allra fyrst.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði hér áðan að ég hefði sagt að atvinnulífinu hefði verið haldið uppi allan tímann með erlendum lánum. Þetta er alrangt. Ríkisstj. gerði það svo sannarlega ekki. Það hef ég hins vegar sagt að í þeirri vaxandi verðbólgu sem var í byrjun þessa árs var gripið til erlendra lána sem runnu til atvinnuveganna til þess að koma í veg fyrir stöðvun. Þeim lánum var að vísu beint til aðgerða sem gætu haft varanleg áhrif, hagræðingar o.þ.h. En þar var um erlend lán að ræða.

Ekki skal ég fara út í það hér að bera saman leiftursóknina og það sem nú er gert. En ég held að hv. þm. hafi ekki skilið leiftursóknina rétt. Ég skildi hana a.m.k. svo að þar væri um það að ræða að draga úr því fjármagni sem er í umferð, gera fjármagnið dýrara og draga þannig úr þeirri þenslu sem fylgir miklu fjármagni í umferð. Það er sú leið sem hefur verið farin víða í löndum í kringum okkur. Hér er það hins vegar ekki gert.

Hv. þm. fullyrti að hundruð heimila kæmust á vonarvöl eða hvernig hann orðaði það, eftir þessar aðgerðir. Mér er fyllilega ljóst að margir munu eiga erfitt við þessar aðstæður og fyrst og fremst þarf til þeirra að líta. Það hefur verið reynt með fjölmörgum aðgerðum, m.a. 450 millj. kr. sem varið var í því skyni. Það hefur verið reynt einnig með þeim lagfæringum sem orðið hafa á húsnæðislánum, sem eru umtalsverðar satt að segja. Engu að síður veit ég að víða eru erfiðleikar. En ég spyr: Hvað ætli þau heimili hefðu lent mörg á vonarvöl ef ekki hefði verið gripið til harðra aðgerða til að færa verðbólguna niður? Ég hygg að þau skiptu ekki hundruðum heldur þúsundum. Og það þótti mér athyglisvert í ræðu hv. þm. að hann gat þess hvergi, þótt hann viðurkenndi þann mikla vanda sem hefði verið, hvaða leiðir hefði átt að fara út úr þeim vanda.