16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið sagt hér alloft í umr. um þetta mál að þær heimildir, sem hér er hugmyndin að veita ráðh., eigi sér ekki hliðstæðu í íslensku stjórnarfari og íslenskum lögum.

Ég vil draga hér upp svolitla mynd af því til að reyna að skerpa skilning manna á því, hvers eðlis það valdaafsal er sem hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvrh. ætlast til að fá fram af þingsins hálfu með samþykkt þessa frv.

Nú eru sagðir erfiðir tímar á Íslandi í efnahagslífi. Því hafa borist spurnir af því, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að setja takmörk á innflutning til landsins og jafnframt hefur ríkisstj. samþykkt að lagt verði fram frv., sem feli viðskrh. heimild til þess að setja hámark á þennan innflutning, til þess að tekið verði tillit til þeirra aðstæðna sem við búum við í efnahagslífi þjóðarinnar.

Jafnframt er gert ráð fyrir því í frv. þessu, að viðskrh. setji um það reglur hvernig skipta skuli þeim innflutningi sem heimilaður verði. Það verði settar reglur í krafti þess frv. sem ríkisstj. ætlar að flytja um þetta efni um einstaka stofna innflutnings, hversu mikið af einstökum þáttum skuli heimilað að flytja inn til landsins. Þá er ráð fyrir því gert, að ráðh. fái vald til þess að ákveða hverjir fái leyfi til að flytja inn innan ákveðins innflutningskvóta eða innflutningsmarks.

Til þess að gætt sé samræmis í dreifingu þessa innflutnings hefur ríkisstj. jafnframt ákveðið að afla lagaheimildar fyrir hæstv. viðskrh. hvernig hinum einstöku stofnum innflutningsins, sem til landsins koma, skuli hlutað niður í smásöluverslun í landinu.

Frv. þetta mun væntanlega koma fram hér, ef ekki fyrir jól þá fljótlega að jólaleyfi þm. loknu, til þess að unnt sé að bregðast við þeim alvarlegu horfum, sem eru í efnahagslífi landsmanna í sambandi við samskipti við útlönd og innflutning og tryggja það, að stjórnvöld landsins hafi nauðsynlegar heimildir í höndum til þess að standa fyrir reglum um hámark svo og dreifingu varnings sem til landsins kemur.

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að draga upp þessa mynd varðandi annan atvinnurekstur í landinu en þann sem það frv. sem hér er til umr. fjallar um. Atvinnugrein, sem miklu varðar hag þjóðarbúsins og kjör landsmanna, en sem er á sinn hátt ekki sérstaklega flókin að gerð, þó að þar vaxi mörg blóm og kannske eitthvert illgresi á akri, eins og gerist hér og hvar. Ég tel að það sé fyllilega réttmætt að draga upp hliðstæðu af þessu tagi varðandi inntak þess lagafrv. sem hér er til umr., það vald sem hér er leitað eftir fyrir ríkisstj. og fyrir sjútvrh. fyrir hennar hönd. Hér er því um stórmál að tefla. En ég tel að verulegur þáttur þessarar umr. hafi verið á röngum brautum, þar sem umr. hefur hjá mörgum, og ekki síst að því er virðist hjá hv. sjútvn. ef marka má álit meiri hl. hennar, fjallað um aðferðir, stjórnunaraðferðir, sem ekkert er að finna um nema grófustu útlínu í þeim frv.-texta sem hér liggur fyrir.

Hér er því um það að ræða, hvort Alþingi vilji feta lengra á þeirri braut með löggjöf heldur en liggur fyrir í gildandi lögum um fiskveiðilandhelgi Íslands frá 1976 að meginstofni. Ég lýsti því yfir hér af minni hálfu fyrr í umr. um þetta mál, að ég teldi að það væri meiri ástæða til þess að víkja af þeirri braut, sem lagt var inn á í þeim lögum, í sambandi við heimildir og vald ráðh. í málum varðandi leyfi og stjórnun fiskstofna, sem þar er kveðið á um og borið hefur verið fram hér í umr. um þetta mál, sem réttlæting fyrir því að ganga lengra á þessari braut.

Það er um þetta sem málið snýst, hvort menn telja að slík stjórnun, slíkt valdaframsal þingsins til framkvæmdavaldsins og ráðh. í þessu samhengi horfi til heilla, sé braut sem menn telji rétt að verði gengin lengra en gert hefur verið í gildandi lögum, og það í stórfelldum mæli, því það er ekkert sambærilegt við þær óskir sem fram eru bornar í þessu frv. um heimildir til ráðh. og þeim heimildum, sem fyrir eru í gildandi lögum, þó að eðli til séu þær hinar sömu.

Ég hef ekki gert úttekt á því, hversu mikill hluti af verðmæti sjávarafla það er sem leyfisbundinn er skv. gildandi löggjöf þar sem leyfisveitingu og hámarki hefur verið beitt, en mér segir hugur um að það sé kannske ekki mikið umfram 10–15% af verðmæti sjávarafla sem hefur fengið þá meðferð.

Hér er hins vegar talað um leyfisbindingu á allar veiðar og að yfirfæra vald ráðh. á allar veiðar innan fiskveiðilögsögunnar, hvorki meira né minna. Hér er því um slíka stökkbreytingu að ræða hvað þetta snertir, að Alþingi hlýtur að staldra við og gera kröfu til þess, að hér fáist með eðlilegum hætti fjallað um þetta stórmál og að þingið taki sér til þess eðlilegan tíma við boðlegar kringumstæður.

Hér hefur þetta mál verið tekið upp og til umr. á næturfundum í upphafi og enn er haldið áfram næturfundum til þess að knýja það áfram. Af hálfu hv. sjútvn. er ekki tekið á þessu máli þannig, að það bjóði upp á það að menn verði viljugir að greiða götu þess, þegar ekki er haft fyrir því að ræða um óskir sem fram hafa komið hér á brtt. um verulega eðlisbreytingu á frv. Ég tek undir það sem hér var sagt af talsmanni minni hl. sjútvn. áðan, að um verulega breytingu er að ræða. Hann flutti það sem mat meiri hl. nefndarinnar. Það er alveg rétt. Þessi brtt. er fram lögð vegna þess að hún skiptir miklu máli, hún er eðlisbreyting og gjörbreytir svip og eðli þessa frv. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þm.? (Gripið fram í: Þetta eru bara dellutillögur og við erum þó læsir þarna í sjútvn.) Það er ágætt að menn telja sig læsa á Suðurlandi, og veitir ekki af að sú kunnátta haldist við sem víðast, en mér er svolítið til efs að menn hafi lesið sín fræði öll sem skyldi. Ég skal þó ekki vera með neinar getgátur um það. Ég held að mönnum væri sæmra að reyna að stilla hér saman strengi í þinginu en að vera að efna til úlfúðar. Það voru mín síðustu orð hér fyrr í umr. um þetta mál, vegna þess að málið er stórt.

Ég vil leyfa mér að víkja hér aðeins að nál. meiri hl. sjútvn. Ég vek athygli á því sem þar segir í upphafi, þar sem hv. meiri hl. nefndarinnar er að fjalla um það sem ég tel að skipti meginmáli hér, en ekki það sem er síðan umræðuefni í síðari hluta nál., þ.e. leiðirnar, stjórnunarleiðirnar, sem ég held að sé ekki neinn ríkur ágreiningur um hér í þinginu, þó að efasemdir ýmsar komi fram sem eðlilegt er.

En varðandi valdaframsalið, hvað segir meiri hl. sjútvn. um það? Hafa menn lagt þar við hlustir, þeir sem læsir eru, hafa þeir farið yfir textann, hv. 4. þm. Suðurl., hann er væntanlega í hópi þeirra læsu. Hann hefur gefið sig fram sem slíkur. (Gripið fram í.) Hér segir, virðulegi forseti:

„Frv. hefur að geyma ákvæði um miklu ótvíræðari og víðtækari heimildir til handa sjútvrh. um stjórn og takmörkun fiskveiða en áður hafa þekkst eða finna má í gildandi lögum. Nefndin telur í sjálfu sér óæskilegt að Alþingi feli ráðh. víðtækt vald til ákvarðanatöku án skýrra lagafyrirmæla um efnisatriði slíkra ákvarðana, en hefur eigi að síður kynnt sér eftir föngum þau rök sem liggja að baki þeirrar till. að auka heimildir ráðh. til þess að setja reglur um stjórn fiskveiða eins og nú háttar málum.“

Og síðan er vikið, þó mjög óverulega, að þeim rökum sem þarna séu fram borin og það er ástæða til þess einmitt að fjalla um það sérstaklega. Hér kemur meiri hl. nefndarinnar með það sjónarmið að óæskilegt sé að veita þetta valdaframsal, að afsala völdum með þeim hætti sem segir í frv. til framkvæmdavald síns, til hæstv. ráðh. En síðan tekur meiri hl. í fyrsta lagi við frumumfjöllun mátsins ekki tillit til þessa. Það er enga brtt. að finna frá hv. meiri hl. sjútvn. og það er ekki tekið undir brtt. sem bornar hafa verið fram af minni hl. og af okkur þremur þm. Alþb. Undir þær er ekki tekið að athuguðu máli hér á fundi áðan. Og meginrökin sem fram eru borin fyrir því að nú verði að gera þetta, nú verði að gera þessa kollsteypu varðandi völd framkvæmdavaldsins í þessum efnum, meginrökin eru þau að ráðh. verði að fá þetta vald og fá úr þessu skorið núna fyrir jólin, annað sé ekki fært, annars sé allt í voða, það sé ekki hægt að taka á málum varðandi fiskveiðistefnu næsta árs nema þetta vald liggi fyrir og lögin afgreidd fyrir jólahlé. Þetta eru einu rökin sem við fáum í reynd fyrir þessum hraða, en það hefur verið bent á það af ýmsum hér í umr. að fyrir þessu eru engar gildar ástæður. Ég hef ekki sannfærst um það, og hef þó reynt að fylgjast með þessari umr., að það skipti neinum sköpum þó að menn gæfu sér tíma til að kanna þessi mál, bera sig saman um þessi mál vandlega, þessi stóru mál, fram yfir þinghlé og taka mátið upp í janúarmánuði. Þingið hefur fulla möguleika á að koma saman upp úr áramótum til að fjalla um stórmál sem þetta.

Það verður áreiðanlega enginn héraðsbrestur þó að það frestaðist um hálfan mánuð að um þetta mál yrði fjallað hér á Alþingi og afstaða tekin til þess á fyrstu vikum janúarmánaðar. Hér skiptir ekki almanakið öllu máli. Vissulega get ég undir það tekið að æskilegt hefði verið að geta gengið frá þessu máli, enda hefði þingið haft það til meðferðar hér með eðlilegum hætti um lengri tíma. Það hefði verið mjög gott, einmitt á þessum tíma, að geta tekið afstöðu til þessa máls og láta áramótin þar ráða, eins og menn gjarnan vilja gera í sambandi við áætlanir og mikilvægar ákvarðanir, en það eru engin sérstök rök fyrir því að þetta þurfi að gerast nákvæmlega á þessum dögum og megi ekki frestast fram yfir áramótin.

Undirbúningi er hægt að halda áfram varðandi þessi mál og einmitt að leggja slíkan undirbúning fyrir þingið þegar hann liggur fyrir, eins og hæstv. sjútvrh. hefur um rætt að gæti orðið nálægt áramótum, ef ég hef skilið hann rétt varðandi þær stjórnunaraðferðir sem hann hyggst beita. En látum það vera að það sé metið svo af fróðlega áliti þessa starfshóps, vegna þess að hluti af knýja þetta mál hér fram, látum vera að það væri metið svo, að menn vildu ná þessu máli fram hér, fá þessar heimildir og fá fyrst og fremst úr því skorið, að þingið fallist í prinsipi á þær stjórnunaraðferðir sem að er stefnt með þessu frv.

Þá hefur það komið fram að minni hl. sjútvn. og aðrir sem tala hér fyrir svipuðum sjónarmiðum eru reiðubúnir til þess að tengja við afgreiðslu þessa máls viðauka, sem birtist í þeim tillögum sem fram hafa verið lagðar um það að fiskveiðistefnan verði mörkuð með sérstökum till., sem lagðar verði fyrir þingið, eins og fram kemur bæði á þskj. 242 og þskj. 235.

Síðan er ítarlegar kveðið á um það hvernig samráði skuli hagað og eftirliti með þeirri stjórnun sem gert er ráð fyrir að heimildar verði aflað hér til. Við erum sem sagt reiðubúnir til þess að koma hér til móts við hæstv. ríkisstj. og hv. meiri hl. sjútvn., ef menn sýna vilja til þess að draga úr því valdi, sem ætlað er að afsala til hæstv. sjútvrh. með þessu frv. Það kemur skýrt fram í þeim till. sem hér liggja fyrir.

Það væri ástæða til þess, virðulegi forseti, að skyggnast aðeins betur inn í þá röksemdafærslu sem hér er borin fram af hæstv. sjútvrh. ríkisstj., Halldóri Ásgrímssyni, 1. þm. Austurl., um nauðsynina á að fá þetta vald í hendur núna og rökin fyrir því að þetta hafi ekki verið hægt að gera fyrr. Það hafi þurft að bíða eftir niðurstöðum og ráðslagi hagsmunaaðila til þess að hægt væri að taka á þessum málum hér í þinginu. Jú, við höfum heyrt þetta fyrr og ekki viljað gera lítið úr þýðingu þess að hægt sé að stilla saman sem flesta hagsmunaaðila um svo stórt og flókið mál sem hér er um að ræða. En það gæti nú verið að stjórnmálamennirnir og framkvæmdavaldið í landinu geti hjálpað til að ná fram stjórnun af þeim toga sem hér er um að ræða, ef vilji er fyrir hendi og ef vilji hefði verið fyrir hendi á árum áður.

Ég er ekki eingöngu að tala hér um þetta þing, ég er ekki eingöngu að tala um þetta ár. Ég bendi á það að fram hafa komið skilmerkilegar tillögur um það fyrir nokkrum árum að skynsamlegt og æskilegt væri að breyta hér til með róttækum hætti um fiskveiðistjórn. Ég held að það sé hollt fyrir menn að hugleiða það hér og nú, þegar menn vilja taka kollsteypu af því tagi sem hér er um að ræða, að það hafa komið fram tillögur, ábendingar og skýr rök fyrir því að hverfa að breyttri tilhögun í stjórnun fiskveiða í landinu fyrir nokkrum árum síðan. En hvaða undirtektir fengu þær og hverjir voru það sem fóru með stjórn þeirra mála á þeim tíma? Á því tímabili sem ég þekki best til varðandi þessi mál, þann tíma sem ég sat í ríkisstj. og þá fyrst og fremst í tíð fráfarandi ríkisstj., var fiskveiðistefna og stjórnunarmál í fiskveiðum til umræðu frá ári til árs. Og þáv. hæstv. sjútvrh., núv. formaður Framsfl., kom með sínar tillögur um þau efni og þær voru auðvitað ræddar í ríkisstj., en hann hafði sinn vilja fram á þeim árum í meginatriðum. Hann fékk um það ábendingar frá aðilum, sem fyllilega mega teljast marktækir, kannske engar samræmdar eða heitsteyptar tillögur samþykktar af öllum hagsmunaaðilum eða meiri hluta slíkra, en þó mjög skilmerkilegar ábendingar og tillögur frá aðilum á Fiskiþingi og af vettvangi þar sem hæstv. ráðh. var kunnugur á árum áður, þ.e. frá Rannsóknaráði ríkisins, þar sem hann var framkvæmdastjóri m.a.s. að nafninu til þann tíma lengst af sem hann sat í fráfarandi ríkisstj., því að það er fyrst fyrir skömmu síðan sem hæstv. núv. forsrh. sagði því starfi sínu lausu, framkvæmdastjórastarfi hjá Rannsóknaráði ríkisins. Hann hélt því í fleiri ár eftir að hann fór í ráðherrastarf. Ég skal ekki um það segja, hvort hann sem framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs undirbjó það að settur var á fót sérstakur starfshópur eða starfshópar til að fjalla um málefni atvinnuveganna, þ. á m. mátefni sjávarútvegsins. En svo mikið er víst, að tekið var á þeim málum á meðan hæstv. núv. forsrh. var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs, m.a. á málefnum sjávarútvegsins.

Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu, sem ber heitið „Þróun sjávarútvegs, álitsgerð um stöðu og horfur í sjávarútvegi,“ og gefin var út 7. sept. 1981. Það er skýrsla starfshóps sem settur var á fót af Rannsóknaráði í nóv. 1979. Í henni segir, með leyfi virðulegs forseta, í inngangi:

„Meginniðurstaða skýrslunnar er sú, að ekki sé að vænta aflaaukningar sem orð er á gerandi í framtíðinni. Tímaskeið aukningar er liðið. Enn fremur má vænta þrengri markaðsstöðu. Með tilliti til þessa hlýtur meginviðleitni næstu ára að beinast að betri nýtingu auðlinda ásamt lækkun kostnaðar við veiðar og vinnslu.“

Undir þessa skýrslu rita eftirtaldir menn sem í þessum starfshópi voru: Jónas Blöndal, Björn Dagbjartsson, Jakob Jakobsson, Þorkell Helgason, Páll Guðmundsson og Jón Ármann Héðinsson.

Það væri ástæða til að rifja upp nokkra þætti úr hinu fróðlega áliti þessa starfshóps, vegna þess að hluti af því kom inn á borð stjórnvalda áður en þessi skýrsla var út gefin og hæstv. þáv. sjútvrh. hafði án efa aðgang að þessum gögnum löngu áður en starfshópurinn lauk störfum. En af hans hálfu var á þeim tíma ekki vilji til þess að hlusta á rök og ábendingar þessa starfshóps Rannsóknaráðs ríkisins og hann fékk vissulega ekki stuðning heldur eða hvatningu til þess að taka undir tillögur, t.d. af minni hálfu, um að taka upp breytta stjórnun fiskveiða. Hann fékk ekki stuðning við það frá flokksbræðrum sínum í þáv. ríkisstj., t.d. frá hæstv. þáv. viðskrh., núv. hv. 4. þm. Austurl., Tómasi Árnasyni, sem ekki lýsti neinum vilja til þess að tekið yrði á þessum málum með öðrum hætti en tillögur komu um frá hæstv. sjútvrh. og endaði yfirleitt flestar ræður sínar um þetta mál, að ég best man, og ég býst við að hv. þm. Framsfl. kannist við það úr sínum hópi, hann endaði þær yfirleitt á þá leið efnislega: „Já, ég held nú að það sé nógur fiskur í sjónum. Ég er nú þeirrar skoðunar að það sé nógur fiskur í sjónum.“ Þetta var leiðarstjarna hæstv. þáv. viðskrh. sem hélt á málefnum skipastólsins hér á árum áður ásamt þáv. hæstv. sjútvrh. Þessir tveir félagar, hv. þm. Framsfl., fóru með þau mál s.l. þrjú ár í þeirri ríkisstj., fiskveiðistefnuna og fiskiflotann. Það væri lærdómsríkt, ekki síst fyrir hæstv. núv. sjútvrh., að stiklað væri á helstu atriðum í málsmeðferð þessara hæstv. ráðh. varðandi þessa þætti, hvernig bú það var sem þeir undirbjuggu og hann fékk í hendur varðandi þessa málaþætti sem Framsfl. hafði forræði yfir í fráfarandi ríkisstj.

Ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að fara langt út í þá sálma hér þó að full ástæða væri til. Ég tel ekki ástæðu til að gera úr því sérstök pólitísk árásarefni hvernig á þessum mátum var haldið þó að það sé jafnbrýnt að átta sig á því til hvers það hefur leitt okkur, að haldið var á málum með þeim hætti sem gert var á þessum tíma og reyndar á árum fyrr, því að almanakið byrjaði nú ekki árið 1980. Það er mér jafnljóst og öðrum hv. þdm. Ég held að það sé rétt, áður en ég kem að því sem ég vil víkja að varðandi málafylgju af hálfu stjórnvalda á þessum tíma, að rifja aðeins upp það sem kemur fram í þeirri skýrslu Rannsóknaráðs sem skilað var 1981. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta, á bls. 6 eftirfarandi:

„Skýrslan um þróun sjávarútvegs sem út kom árið 1975 er fyrirrennari þessarar skýrslu sem hér birtist. Óþarft þótti að endurtaka margt af því sem þar kemur fram en hins vegar er lögð nokkur áhersla á að skoða hvernig þróunarspádómar þessarar svokölluðu „Bláu skýrslu“ hafa staðist hingað til. Þá er leitast við að draga fram viðhorfin eins og þau blasa við í öllum þáttum atvinnugreinarinnar og síðast en ekki síst gerð tilraun til að spá um líklegustu framvindu.“

Síðan er vikið að afrakstursgetu íslenskra fiskstofna og annarra sjávardýra, úttekt á spádómum um einstaka stofna, þar á meðal um þorskstofninn. Það er lærdómsríkt, í ljósi þeirra breyttu viðhorfa sem fram hafa komið, að hv. þm. kynni sér það og rifji upp sem þar er sagt, því að það lýsir vissulega verulegri breytingu í sýn til þessara mála.

Í kafla um ástand fiskstofna og aflaspár segir hins vegar á bls. 13 í þessari skýrslu:

„Með hliðsjón af því að fiskstofnar eru nú ýmist full eða ofnýttir er augljóst að öll viðleitni til aukins arðs af útgerð byggist einungis á sparnaði í útgerðarkostnaði og auknum gæðum landaðs afla en ekki á aflaaukningu.“ Þetta er undirstrikað í skýrslunni. „Áætlanir um framvindu fiskveiða sem einungis taka til stofnstærða og aflamagns segja því ekki nema hálfa sögu.“

Um þorskveiðistefnuna er í þessari skýrslu fjallað undir heitinu „Hagkvæm þorskveiðistefna“. Þar er vikið að sérstöku reiknilíkani sem reynt hefur verið að þróa en lá þó ekki fyrir fullbúið þegar gengið var frá þessu áliti. En það kemur hins vegar fram m.a. í töflu 1–3 varðandi „hagkvæmustu“ sóknarstefnu, að starfshópurinn hefur gert ráð fyrir því á þessum tíma, þegar hann fullgerði sína skýrslu, að aflinn á árunum 1980-1984, miðað við hagkvæmustu sóknarstefnu, væri á bilinu 330 þús. tonn og vaxandi smám saman upp í 360 þús. tonn. Þeir eru sem sagt, þegar þeir eru að velta þessum tölum fyrir sér, á mun lægri nótum en reyndin varð á árunum 1980 og 1981 og raunar einnig 1982.

Sá kafli sem ég tel hins vegar athyglisverðastan úr þessari greinargerð þessa starfshóps varðar það sem þar segir um framtíðarstjórnun fiskveiða. Tengist það með beinum hætti því máli sem við erum hér að fjalla um þó að það snerti ekki þann kjarna sem varðar hver skuli hafa valdið. Um þetta efni, framtíðarstjórn fiskveiða, segir, með leyfi virðulegs forseta; á bls. 24:

„Markmið fiskveiðistjórnunar ætti að vera að veiða hverju sinni æskilegt magn úr hverjum stofni á sem ódýrastan hátt og ná þannig fram hámarksafrakstri veiðanna. Einsýnt virðist af fenginni reynslu, að þær aðferðir sem beitt hefur verið nægja hvergi til að tryggja æskilegt aflamagn og því síður til að halda niðri sóknarkostnaði.

Til að ofangreindum markmiðum fiskveiðistjórnunar verði náð, virðist frumskilyrði að leyfisbinda allar fiskveiðar. Nú þegar eru fjölmargar tegundir veiða háðar leyfum og flest bendir til að áfram verði haldið á þeirri braut og því aðeins tímaspursmál hvenær lögbundið verður heilsteypt kerfi leyfisveitinga til fiskveiða. Tími frjáls og óhefts aðgangs að fiskimiðum er liðinn, þótt dregist geti að viðurkenna það leyfi til fiskveiða geta annaðhvort falið í sér heimild til að veiða ákveðinn afla á tilteknu tímabili, aflakvótar, eða kveðið á um heimild til að halda til veiða tilgreindu magni og gerð veiðarfæra, og/eða skipa, á tilgreindu tímabili, sóknarkvótar. Slík leyfi geta verið veitt einstökum útgerðum, skipum eða t.d. vinnslustöðvum með eða án ákvæða um framsal leyfanna til fiskiskipa. Þá er að geta þess að leyfisveitingu þarf ekki nauðsynlega að fylgja álagning leyfisgjalds.

Að sjálfsögðu koma einnig til greina ýmis millistig milli þessara tveggja tegunda kvótakerfa. Þannig eru aflakvótar allajafna veittir einhverjum afmörkuðum fjölda skipa, þannig að um leið eru veitt sóknarleyfi.

Augljóslega er nokkur eðlismunur á afla- og sóknarkvótum. Helsti kostur aflakvótakerfis er sá, að unnt er að stefna mjög nærri áformuðum heildarafla. Bersýnilega er ekki unnt að tryggja slíka aflatakmörkun með hreinu sóknarkvótakerfi, en þó verður að ætla að með aukinni þekkingu á fiskstofnum og auknum upplýsingum um fiskveiðar megi fara mjög nærri um sóknarafköst við hverjar veiðar á hverjum tíma, þannig að unnt ætti að vera að fara allnærri ætluðum heildarafla með réttu umfangi sóknarkvóta.

Hvernig stuðla þessar tvær tegundir kvótakerfa að hagkvæmum útgerðarþáttum? Með (hreinu) sóknarkvótakerfi eru skipstjórar óhindraðir í veiðunum og geta sóst eftir hámarksafla eða hámarksarði af veiðunum. Ætla má að þannig takmarki sóknarkvótakerfi lítt sem ekki frelsi leyfishafanna og líki þannig eftir ástandi óheftra veiða, þó með því æskilega fráviki, að samkeppni um „síðasta þorskinn“ ætti að vera óþörf. Ekki yrðu veitt fleiri né meiri sóknarleyfi en svo að nægilegur fiskur yrði fyrir alla. Með aflakvótakerfi má ætla að a.m.k. fyrst í stað yrðu kvótar það rýrir að langflestir leyfishafar næðu leyfðum kvóta. Hagkvæmnisleit þeirra mundi því miða að því að lágmarka kostnað við að ná hinum leyfða afla. Á tímum orkukreppu getur stefnubreyting í þessa átt talist æskileg. Hafa ber í huga að ofangreindar vangaveltur miðast við þessi kvótakerfi í hreinni mynd. Eins og áður sagði er og yrði framkvæmdin eitthvert bland beggja og því ekki vert að gera upp á milli hagkvæmnisáhrifa kerfanna.“

Síðan er vikið nánar að þessum kvótum og mismunandi gerðum kvóta. Ég hleyp hér yfir kafla en síðan segir í sama þætti um framtíðarstjórnun fiskveiða eftirfarandi:

„Helsta hætta við kvótakerfi virðist sú, að stöðnun verði í útgerð og meðalmennskan ráði ríkjum. Hinir duglegustu fái ekki að njóta sín. Endurnýjun verði ekki í hópi útgerðaraðila, o.s.frv.

Góður árangur kvótakerfisins virðist undir því kominn, að nægilegur sveigjanleiki sé fyrir hendi. Þannig þyrftu fengsæl skip að geta aflað sér aukins kvóta og t.d. þeir sem vildu einbeita sér að sérstökum stofnum að geta losnað við einn kvóta fyrir annan. Væntanlega mætti ná fram nægilegum sveigjanleika með því að heimila framsal kvóta, e.t.v. með einhverjum takmörkunum, t.d. þeim að kvóta megi einungis framselja innan sama svæðis í einhverjum skilningi. Meginvandkvæði slíkra framsala virðist vera ókunnugleiki manna á opnum mörkuðum. Markaðsverð kvóta gæti orðið allmiklum hendingum háð og hætt er við óheilbrigðum viðskiptum eða a.m.k. tortryggni um slíkt. Einfaldara og meira í samræmi við okkar þjóðskipulag virðist vera að hið opinbera setji kvótaleyfi og þá á ákveðnu verði. Mætti hugsa sér að hægt yrði farið af stað þannig að í upphafi yrði um 80% leyfilegs afla úthlutað ókeypis eftir fastmótuðum reglum en afgangurinn boðinn til sölu.“

Þetta eru lok kaflans um framtíðarstjórn fiskveiða í áliti starfshóps rannsóknaráðs. En samandregið segir um stjórnunina á næstu bls. eftirfarandi:

„Betri stjórnun fiskveiða: Fiskveiðistjórnun hefur afgerandi áhrif á afkomu veiðanna. Í kafla 1.2 hefur verið bent á að ná mætti hámarksþorskafla með verulega minni sókn og flota en nú er. Þar að auki má efalaust draga úr heildarkostnaði veiðanna með því vali veiðarfæra og skipategunda sem betur falla að stærri fiskstofnum og hærra olíuverði en nú er. Rétt stjórnun fiskveiða gæti með hvata eða boðum stuðlað að réttri þróun í þessu sambandi.“

Áður hafði verið fjallað um tæknilegar umbætur og betri stjórnun um borð, en svo segir í lokin um þessa þrjá þætti: „Af þessum þremur þáttum er sá síðast nefndi,“ þ.e. betri stjórnun fiskveiða, „sá sem sköpum skiptir.“

Þessar tilvitnanir í skýrslu starfshóps Rannsóknaráðs ríkisins, sem er 76 bls. að lengd, ætla ég að láta nægja hér í mínu máli. En ég taldi ástæðu til að vekja athygli á því að þessi sjónarmið hafa komið fram með jafn skilmerkilegum hætti og hér er gert fyrir meira en tveimur árum síðan, og raunar hlutar af þessu fram komnir þó nokkuð löngu áður, þannig að stjórnvöld höfðu á þessum tíma tillögur þeirra aðila sem hér eru nefndir og að þessum starfshóp stóðu, sumra þeirra aðila sem nú eru enn að veita hæstv. sjútvrh. ráðgjöf, og margir fleiri komu með ábendingar og tillögur um breytta stjórnun af þessu tagi. (Gripið fram í: Hvað vildu hagsmunaaðilar þá?) Ég tel það afar afdrifaríkt að ekki skuli hafa verið hlustað meira á þessar tillögur á þessum tíma og að ekki skuti hafa verið neinn pólitískur vilji á þessum árum til að taka með breyttum hætti á stjórnun fiskveiða, með öðrum hætti en þeim sem menn þekkja af reynslu síðustu ára, hinu svokallaða skrapdagakerfi, sem er afkvæmi hæstv. sjútvrh. Framsfl. á þessum tíma, Steingríms Hermannssonar. Það er það kerfi sem loða mun við nafn hans, miðað við hans feril sem sjútvrh., skrapdagakerfið sem stjórnunarkerfi.

Og það var svo, hv. 5. þm. Norðurt. v., Stefán Guðmundsson, að á þessum árum var um þessi mál fjallað t.d. á Fiskiþingi og af nefndum á vegum Fiskiþings og fleiri aðilum, sem ég veit að hv. þm. þekkir, og þar komu fram frá mörgum aðilum álitsgerðir sem eindregið hvöttu til þess að breytt yrði með róttækum hætti til um stjórnun veiðanna og tekið upp aflamark, sem kallað var kvóti á þeim tíma. Hins vegar var ekki gerð um það nein heildarsamþykkt af Fiskiþingi. Það er jafnljóst. Það er mér fyllilega kunnugt um, því að ég hef farið í gegnum allar ályktanir Fiskiþings frá þessum árum, líka þær tillögur sem ekki náðu þar samþykkt. Ég minni t.d. á tillögur nefndar sem Hilmar Bjarnason stýrði, sá glöggi skipstjórnarmaður og fiskifélagsmaður, sem þar hefur verið á oddi um langt skeið og verið starfsmaður fiskifélagsdeilda á Austurlandi, hann leiddi nefnd sem um þessi mál fjallaði og skilaði mjög marktæku áliti að mínu mati og margra, margra fleiri.

Ég greip hér með mér í ræðustólinn minnisblað sem hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson lagði inn til ríkisstj. og þingflokka þann 21. okt. 1980. Það ber yfirskriftina „Stjórnun fiskveiða“ og það er ómaksins vert að menn átti sig á hvert er inntak þessa minnisblaðs. Ég ætla ekki að taka tíma hv. deildar með því að lesa þetta gagn hér, þó að ástæða væri til að fara í gegnum það í heild sinni til þess að það lægi hér fyrir í þingtíðindum. En það er engin ástæða til þess, því að það er af svo mörgum atriðum að taka, sem ég þarf að hafa tíma til að leiða hér fram máli mínu til stuðnings og okkar tillögumanna fyrir brtt., að það er ekki ástæða til að taka upp nema fátt eitt úr þessu minnisblaði hæstv. þáv. sjútvrh. frá haustinu 1980. En í upphafi segir þar:

„Hér á eftir verða rakin“ (Gripið fram í: En er þetta ekki úrelt þegar?) Síður en svo, hv. þm. Halldór Blöndal. Þetta varpar einmitt ljósi á þær aðstæður sem hafa leitt okkur hingað hér og nú til þessarar umr. og þeirrar ömurlegu aðstöðu, sem þinginu er búin með framkomu þess frv. sem hér liggur fyrir, og þess tíma sem þinginu er ætlaður til að fjalla um það stóra mál. Ástæða ófarnaðarins, eins og ég hef verið að víkja að hér og rökstyðja í máli mínu, er ekki síst sú, að það var ekki pólitískur vilji af hálfu Framsfl. til að taka á þessum málum hér á árum fyrr, þegar möguleiki var til að þróa hér stjórnun, skynsamlega stjórnun fiskveiða, meðan menn ekki bjuggu við þær alvarlegu og knöppu aðstæður sem nú ríkja að margra mati.

Ég held að það sé hollt fyrir menn að hugleiða einmitt hversu nöturlegt það er að við skulum hér vera komnir með tillögur af hálfu Hafrannsóknastofnunar um 200 þús. tonna þorskafla á ári, eftir að hafa búið hér að þorskafla á bitinu 300–460 þús. tonn fyrir 2–3–4 árum síðan, sem hefði gert það kleift með sársaukalausum hætti að taka hér upp gerbreytt vinnubrögð í sambandi við okkar sjávarútveg og stjórnun þessara mála, þannig að ekki væri jafnilla komið þeirri auðlind eins og rök eru fram borin um af sérfræðingum ef á þessum málum hefði verið tekið fyrr.

Það er í fyrsta lagi alveg ljóst að við hefðum ekki staðið frammi fyrir tillögum um 200 þús. tonna ársafla ef svo hefði verið og menn hefðu getað þróað breyttar stjórnunaraðferðir skref fyrir skref. Það sem er þó kannske þýðingarmest af öllu í þessu samhengi er sú staðreynd, eða a.m.k. það sem auðvelt er að leiða skýr rök að, ekki síst á þessari stundu, að menn væru ekki komnir með þann flota til veiðanna nú — (HBl: Ef færri skip hefðu verið keypt.) Í fyrsta lagi, hv. þm. Halldór Blöndal, þetta er alveg rétt athugað hjá þér og alveg óvenjulega skörp aths., ef færri skip hefðu verið keypt væri flotinn ekki jafnstór, en þá hefðu menn gáð betur að sér og sá strekkingur til að stækka flotann sem við þekkjum hér frá liðnum árum og alveg fram á þetta ár, sá gífurlegi þrýstingur hefði ekki komið fram, vegna þess að ef menn hefðu staðið fyrir eitthvað svipaðri tillögu og hæstv. ríkisstj. nú myndast til að leggja fram í sambandi við stjórnun veiðanna, ég hæli henni ekki fyrir innihaldið að öðru leyti, ef það hefði verið gert, þá hefði það verið mönnum dagljóst að ekki væru efni til þess að auka við flotann með þeim hætti sem gert hefur verið á allra síðustu árum.

Það er kannske einn meginkostur þeirrar stjórnunaraðferðar sem hér er lagt til að upp verði tekin og er til umr., þó að útfærsla hennar komi ekki fram hér í þessu frv., að hún gerbreytir sýn manna til þessarar takmörkuðu auðlindar sem hér er um að ræða, og hefur auðvitað alltaf verið sínum takmörkum háð, þó að menn hafi ekki rekið sig upp undir með jafn afgerandi hætti eins og nú er og hér er um fjallað. Þeir hjálpuðust að um það, hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson, sem hafnaði því að taka upp breytta stjórnun með aflamarki hér á síðustu árum, og þáv. hæstv. viðskrh. Tómas Árnason að vinda upp, að hlaða utan á þennan bolta sem nú er orðinn svo stór að það er vart að hæstv. núv. sjútvrh. nái utan um hann og kallar hann þó ekki allt ömmu sína, sá vaski maður. (Sjútvrh.: Það var nú byggt eitthvað af skipasmíðastöðvum.) Já, hæstv. sjútvrh. upplýsir það hér með frammítöku, sem honum er velkomin, að það hafi nú verið byggt eitthvað hjá skipasmíðastöðvum. Alveg rétt, hæstv. sjútvrh. Það hefur líka verið byggt eitthvað hér innanlands. Það er nú kafli sem væri mikil ástæða til að taka svolítið á við Framsfl., við hæstv. ráðh. hans bæði núv. og fyrrv. (Gripið fram í.) hvernig þeirra hlutur hefur verið í sambandi við innlendan skipasmíðaiðnað. Þar kemur einmitt að þeim sömu hæstv. fyrrv. ráðherrum flokksins sem ég hef hér minnst á, þeirri botnlausu tunnu skilningsleysis sem þar var um að ræða í sambandi við samhengið í íslensku atvinnulífi.

Það er nefnilega svo, hæstv. sjútvrh. og aðrir hv. þdm., að það er fyrr en nú sem menn hefðu þurft að horfa til margra átta í sambandi við þróun okkar atvinnulífs og átta sig á því, að lítið samfélag, lítil þjóð sem okkar hefur ekki efni á því að kasta frá sér uppbyggingar- og þróunarmöguleikum í heilum greinum eins og reyndin hefur orðið á og við blasir nú með álíka alvarlegum hætti eins og í sambandi við fiskstofnana, þ.e. í sambandi við íslenskan skipasmíðaiðnað. Og það er dálítið sérkennilegt, kannske eðlilegt, en seint í rassinn gripið, þegar nokkrir hv. þm. Framsfl. flytja hér inn í þingið, inn í Sþ. þáltill. um viðhald íslenska fiskiskipaflotans. Það er að renna upp fyrir þessum hv. þm. og væntanlega öllum þm. Framsfl. að þeir þurfi að sýna einhverja viðleitni til þess að krafsa yfir þá gröf sem þeir hafa búið innlendum skipasmíðaiðnaði með stefnu sinni og gerðum hér á undanförnum árum. (HBl: Voru ekki hinir Framsóknarráðherrarnir betri?)

Ég gæti rakið hér allítarlega þá sögu mála, hvernig beitt var ráðum, og óráðum þó fyrst og fremst, til þess að flytja inn í landið gamla kláfa, gömul skip niðurgreidd frá útlöndum, til þess að stækka hér hömlulítið flotann í stað þess að taka undir tillögur um það að beita sér að því verkefni að gera innlendan skipasmíðaiðnað samkeppnisfæran og tryggja honum lágmarksverkefni og eðlileg verkefni í sambandi við endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans. Ég segi, gera hann samkeppnisfæran, því að mér er ekkert annað í hug en að þessi grein geti boðið íslenskum sjávarútvegi skip, sem séu fullfær til þess að rækja sitt verkefni tæknilega séð, en ekki síður hitt, að þau séu samkeppnisfær við nýsmíði erlendis frá. Innlendar skipasmíðastöðvar hafa ekki farið fram á mikið í þessum efnum og það hefði ekki orðið nein stökkbreyting í íslenska fiskiskipaflotanum þó að þær hefðu fengist við einhver verkefni, ekki síst ef að því hefði verið hugað og undir það tekið að þær fengju að njóta viðhaldsverkefna með eðlilegum hætti. En það var á valdi þáv. hæstv. viðskrh. að tryggja það með eðlilegum reglum að viðhaldsverkefni beindust til innlendra stöðva. Og ég gæti rakið það fyrir hv. 5. þm. Norðurt. v. hvernig undirtektir voru við tillögur þar að lútandi, því að það liggur allt saman fyrir, og hvernig það var hindrað að settar yrðu eðlilegar og sjálfsagðar reglur til þess að viðgerðar- og viðhaldsverkefni beindust til innlendu stöðvanna á liðnum árum.

Nei, það þýðir ekki fyrir núv. hæstv. sjútvrh. að ætla með frammígripum að breiða yfir það sem gerst hefur í sambandi við stækkun flotans og telja að vandinn liggi í því að það hafi verið smíðuð nokkur skip á síðustu árum hjá innlendum skipasmíðastöðvum. Ég tek hins vegar alveg undir það að varðandi nýsmíði hér innanlands þurfa menn vissulega að sjá fótum sínum forráð. Og það var vandalaust ef samstaða hefði verið um það að gera stöðvarnar samkeppnisfærar, eins og segja má að tekist hafi varðandi eina af þessum stöðvum, alveg sérstaklega nú síðustu árin, þ.e. Slippstöðina á Akureyri, sem er prýðilega búin stöð sem getur keppt við nýsmíði nánast hvar sem er og hefur sýnt með tilboðum sínum að hún er fullfær um það. Aðrar stöðvar voru einnig á góðri leið með það. Með fyrirgreiðslum, með breyttum fjármagns- og lánareglum var samkeppnisaðstaða skipasmíðastöðvanna löguð stig af stigi hér á síðustu árum. Ég er þakklátur hæstv. sjútvrh. fyrir að hafa minnt mig á þennan gilda þátt.

Þetta minnir okkur á það sjálfsagða verkefni að viðhald flotans, jafnt viðgerðir og nýsmíði, verði í framtíðinni leyst hér innanlands að langmestu leyti og helst að fullu. Það er markmið sem ætti að vera sjálfsagt fyrir hverja ríkisstj. að keppa að en hætta þeirri stefnu að byggja út atvinnutækifærum úr landinu með þeim hætti sem gerst hefur með skipulagsleysi og samtakaleysi milli sjávarútvegs og iðnaðar, þar sem skammtímahagsmunir hafa verið í fyrirrúmi og leitt til þess að við höfum misst af stórkostlegum tækifærum í sambandi við uppbyggingu iðnaðarins og möguleikum til að þjóna okkar flota.

Það kemur að því að við þurfum að byggja hér ný skip. Það er ekki mjög langt í að það þurfi að gerast og þau verkefni á að leysa hér innanlands. En það verður ekki gert nema það hugarfar ríki hjá ráðh. atvinnumála og fjármála sem geri það kleift og þar sem menn stilli saman að þessu marki. Það gera keppinautar okkar. Það gera Norðmenn og margir fleiri og brjóta meira að segja á okkur allar eðlilegar fríverslunarreglur, sem okkur er gert að hlíta, með ríkisstyrkjum við skipasmíðaiðnaðinn. Það er líka þekkt í öðrum viðskiptalöndum.

En þrátt fyrir það að þetta lægi fyrir og væri skýrt dregið fram, þá fengust menn ekki hér á síðustu árum til þeirrar sjálfsögðu varnaraðgerðar að taka fiskiskip af frílista. Hæstv. fyrrv. viðskrh. mátti ekki á það heyra minnst að fiskiskip væru tekin af frílista og þannig var lætt hér inn í landið skipum án þess að nokkur fyrirgreiðsla lánastofnana kæmi þar við sögu og útlendingar fóru að gera hér út í íslenskri lögsögu á laun með fyrirgreiðslu íslenskra stjórnvalda.

Þetta er arfurinn, sem núv. hæstv. sjútvrh. tekur við, fyrir utan önnur raunaleg dæmi og gleymsku og yfirsjónir hæstv. núv. forsrh. sem ekki mundi mánuðinum lengur eftir því hvað ráðið hefði verið í sambandi við skipakaup og skipainnflutning erlendis frá. (JBH: Svo er verið að segja að ég sé enn í stjórnarandstöðu við fyrrverandi stjórn. Það eru fleiri, heyri ég mér til ánægju.) Það er ekki stjórnarandstaða, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Það er engin stjórnarandstaða. Það er aðeins viðleitni til þess að menn læri af fortíðinni. Til þess er fortíðin að reyna að læra af henni. Ég tel að menn séu með vissum hætti að læra hér í dag — á þessari nóttu og á þessum dögum, það endurspeglist með þeim hugmyndum sem uppi eru um breytta stjórnun veiða. Vissulega. En það er bara seint sem það er gert, það er bara seint sem það gerist og sá dráttur er dýrkeyptur sem á hefur orðið að menn lærðu þá lexíu.

Já, ég var einmitt að líta í minnisblað frá hæstv. fyrrv. sjútvrh. þegar núv. hæstv. sjútvrh. minnti mig á fiskiskipastólinn og vildi greinilega læða því hér að með frammítöku sinni að ég ætti einhvern hlut í því í sambandi við innlendan skipaiðnað. Ég skammast mín ekkert fyrir þann þátt, hæstv. ráðh. (Sjútvrh.: Ég hélt að þú hefðir gleymt því.) Já, já, það mátti heyra. En í þessu minnisblaði segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á eftir verða rakin meginmarkmið sem leggja ber til grundvallar við stjórnun fiskveiða og þeim leiðum lýst sem helst virðast koma til greina. Hér verður aðeins fjallað um botnfiskveiðar og gert ráð fyrir því að þorskaflann einan þurfi að takmarka.“

Síðan er fjallað um meginmarkmið fiskveiðistefnu, og margt af því minnir mig að hafi verið mjög skynsamlegt sem þar kom fram, og síðan raktar ýmsar leiðir. (Gripið fram í.) Um markmið fiskveiðistefnu, það er minnisblað sem hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson lagði fram. En í sambandi við leiðirnar til að ná markmiðinu, þá fór nú í verra, hv. þm. Stefán Guðmundsson, því að þar fer hæstv. ráðh. yfir ýmsar leiðir og takmarkanir sem þurfa að koma til og fjallar um kvótakerfi, víkur að því með svofelldum hætti. (Gripið fram í.) Á bls. 4 í þessu minnisblaði undir lið 2.3 segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um kvótakerfið:

„Kvótakerfið er leið sem í ýmsum löndum er farin. Hún hefur fyrst og fremst eftirgreinda kosti:

1. Tiltölulega auðvelt ætti að vera að tryggja að heildarafli verði ekki meiri en að er stefnt.

2. Gera má ráð fyrir því að meðferð aflans batni með minna kapphlaupi eftir miklum afla.

3. Unnt ætti að vera að gæta meiri hagsýni við veiðar og stunda aðrar veiðar þegar hentar, án þess að eiga á hættu að missa af þorskkvóta.

Hins vegar virðast á þessari leið ýmsir annmarkar, m.a.:

1. Þótt unnt ætti að vera að ákveða kvóta fyrir hvern togara er slíkt stórum erfiðara fyrir hátt í 700 báta sem ýmsar þorskveiðar stunda. Jafnvel þótt færabátum yrði sleppt yrði að takmarka veiðar annarra báta eftir öðrum leiðum. Kvótakerfið virðist varla koma til greina.

2. Ekki virðist réttlátt að allir togarar séu með sama kvótann. Líklega yrði að ákveða hann á grundvelli veiða undanfarinna ára. Hætt er við að um slíkt yrðu miklar deilur.“

Þetta segir hæstv. ráðh. haustið 1980, fyrsta haustið sem hann er í starfi sem sjútvrh., um þessa stjórnunarleið, á sama tíma t.d. og það ráð sem hann þá var enn framkvæmdastjóri fyrir, Rannsóknaráð ríkisins, hafði gert úttekt um þróun sjávarútvegs, að vísu ekki gefið út skýrslu þar um, en menn sem hæstv. ráðh. var í góðu kallfæri við voru á veg komnir með að greina þessi mál og leggja þar til gerbreytta stjórnun. Eins og ég gat um hér fyrr í umr. um þetta frv. þá gekk ég eftir því ár eftir ár í sambandi við mótun fiskveiðistefnu, hvort ráðh. væri ekki reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að þar yrði breytt til. Svarið var afdráttarlaust neitandi. Skrapdagakerfi skyldi það heita og sú varð lendingin. (Gripið fram í.) Það er von að hv. sjútvn. að meiri hluta komist svo að orði sem hér greinir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 1 í sínu nál.:

„Enda þótt vel hafi verið að lögunum frá 1976 staðið,“ um fiskveiðilandhelgi Íslands, það er mitt innskot, „og í þeim fjölmörg nýmæli á þeim tíma hefur þróun í fiskveiðum og stjórn þeirra orðið að mörgu leyti önnur en menn hugðu þegar þessi lög voru samþykkt. Ástand fiskstofna, stærri fiskveiðifloti og ný tækni hafa valdið því hér á landi eins og annars staðar að gripið hefur verið til nýrri og virkari stjórnunaraðgerða í veiðum og vinnslu í því skyni að nýta þá nytjastofna, sem eru hér við land, á sem skynsamlegastan hátt. Er nú svo komið að beitt er ýmsum aðgerðum við stjórn veiða sem engum komu í hug fyrir nokkrum árum. Má sem dæmi nefna þær sóknartakmarkanir sem verið hafa á þorskveiðum undanfarin ár og skiptingu aflakvóta milli veiðarfæra og báta.“

Þetta læt ég nægja sem tilvitnun í nál., en því vitna ég í það að verið er að reyna að koma að þeirri hugsun, að hér sé eitthvað alveg nýtt mál á ferðinni, ný uppgötvun á ferðinni, það hafi komið hér yfir menn með samþykkt Fiskiþings nú nýlega að það þyrfti að breyta róttækt til, hér hafi komið fram hugmyndir um aðferðir sem engum komu í hug fyrir nokkrum árum. Hvað er nokkur ár, hv. formaður sjútvn., í þessu samhengi? Eitt, tvö, þrjú? (Gripið fram í: Það er ekki hægt að auka sókn í aðra stofna.) Hvað segir hv. þm., það er ekki hægt að auka sókn? (Gripið fram í: Sókn í aðra stofna.) Já, það er einmitt það. Ég átta mig ekki alveg á samhenginu en hv. þm. skýrir það sjálfsagt nánar þegar kemur að honum hér í umr. Ég hef tekið eftir því að hann hefur beðið um orðið.

Ég held að rétt sé að víkja einmitt aðeins að þessu, sem hér kemur ítrekað fram jafnt í nál. sem í umr. talsmanna þessa frv., talsmanna meiri hl. sjútvn. og fylgismanna þeirra, að það hafi ekki verið ráðrúm til að taka á þessu máli fyrr en eftir að Fiskiþing var afstaðið. Þess vegna höfum við nú svo knappan tíma til að fjalla um það, þess vegna beri nauðsyn til að hespa þetta mál af hér í annríkinu rétt fyrir jólin. Ég tel að þetta sé ekki frambærilegur málflutningur. Í ljósi þess sem ég hef verið að rekja hér, umr. um þessi mál og tillögur, þá er þetta ekki frambærilegt. Ég hygg að ýmsir í þjóðfélaginu, sem ekki eru nátengdir sjávarútvegi og ekki hafa fylgst með þessum málum gjörla, geti kannske látið blekkjast um hríð af svona málflutningi. Ég býst við að þeir finnist. Ég vænti þess þó að þeir séu ekki hér inni á Alþingi, að allir hafi fylgst svo með þessum málum hér að þetta sé ekki með öllu nýtt fyrir þeim. En það er ósmekklegt, finnst mér, að beita rökum af þessu tagi til þess fyrst og fremst að fá hér í hendur óútfylltan víxil fyrir framkvæmdavaldið í landinu, fyrir hæstv. sjútvrh., en það er meginkjarni þess frv. sem hér er til umr. Og það er með eindæmum að ekki skuli finnast vilji til þess hjá hv. meiri hl. sjútvn. að taka hér undir brtt. sem fram eru komnar til að leiðrétta þennan meginágalla frv. Því að málið er ekki um það að menn séu hér andvígir því að taka upp breytta stjórnun. Hér er þvert á móti hvatt til þess af ræðumanni eftir ræðumann og undir það tekið, að á því sé nauðsyn og þótt fyrr hefði verið.

Herra forseti. Ég hef hér í samþjöppuðu máli leitast við að gera grein fyrir meginviðhorfum mínum til þessa frv., til viðbótar því sem áður hefur fram komið. Ég vænti að viðleitni okkar, sem erum á annarri skoðun um efni þessa frv. og höfum flutt um það brtt., verði að einhverju metin, ef menn hafa áhuga á því að reyna að stilla saman um þetta stóra mál. Og það er ekki aðeins hér inni á hv. Alþingi að menn greini á um þetta efni. Þessi ágreiningur er í þjóðfélaginu og ég er ansi smeykur um að hann geti orðið til ófarnaðar ef menn reynast ekki reiðubúnir til þess að koma hér til móts við þau sjónarmið sem fyrir liggja í brtt. Ég vil því hér undir lok míns máls hvetja eindregið til þess að ráðrúm verði notað innan þessarar umr., þessarar 2. umr. hér, til að taka á þessu máli af alvöru af meiri hl. hv. sjútvn., og það verði eitthvað annað en sýndarmennskan, að leita eftir leiðum til sátta og samkomulags, en ég get ekki kallað það annað en sýndarmennsku, þegar skotið er á klukkutíma fundi hér, og ekki er neinn afrakstur af honum heldur aðeins borin fram hin fyrri rök og ekki reynt að nálgast þau sjónarmið sem fram koma í brtt. sem fyrir liggja við frv.

Ég bið hv. talsmenn þessa máls að endurskoða sinn hug. Því fyrr sem það verður gert, þeim mun betra fyrir málið og fyrir það sem á bak við það felst, þá alvöru sem við blasir í okkar undirstöðuatvinnugrein þar sem mestu skiptir að menn leggist saman á árar.