25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

453. mál, dýpkunarskip

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vísa til fsp. á þskj. 20 og þess sem hv. 5. landsk. þm. las upp og gef svohljóðandi svar:

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun, sem er virkjunaraðili Blönduvirkjunar, hefur kostnaður samkv. lið 1 orðið sem hér segir — þetta er kostnaður samkv. samningi RARIK við hreppsnefndir á Blöndusvæðinu um virkjun Blöndu, dags. 15. mars 1982:

Á árinu 1981 fellur til kostnaður vegna uppgræðslu 617 þús. og vegna samningsgerðar og samráðsnefndar 459 þús. Árið 1982 fellur til kostnaður sem hér segir: Uppgræðsla 872 þús., girðingar 195 þús., heiðavegir 2.7 millj., gangnamannaskálar 50 þús., samningsgerð og samráðsnefnd 466 þús. Á árinu 1983 fram til sept. er kostnaður sem hér segir: Uppgræðsla 4 millj. 951 þús., girðingar 111 þús., heiðavegir 4 millj. 698 þús., gangnamannaskálar 130 þús. og samningsgerð 33 þús. Samtals er um að ræða á árinu 1981 1 millj. 76 þús., á árinu 1982 4 millj. 283 þús. og fram til sept. í ár 9 millj. 923 þús.

Annar kostnaður sem spurt er um og ekki telst til eiginlegs virkjunarkostnaðar, þ.e. kaup á Eiðsstöðum, bygging á fjárhúsi, hlöðu o.fl., svo og kostnaður við veiðimál, nam á árinu 1981 197 þús., á árinu 1982 1 millj. 539 þús. og í ár fram til sept. 5 millj. 948 þús. kr.

Samtals er framantalinn kostnaður þeirra liða sem tilheyra lið 1 í fsp. þessi: Árið 1981 1 millj. 273 þús., 1982 5 millj. 822 þús. og til sept. í ár 15 millj. 871 þús. eða samtals öll árin 22 millj. 966 þús., tæpar 23 millj.

Sem svar við lið 2 skal upplýst að RARIK hafði umsjón með öllum framkvæmdum við Blönduvirkjun til ársloka 1982. Sundurgreining á kostnaði RARIK árið 1981 og 1982 hefur ekki borist, en hér er um mjög lágar upphæðir að tefla. Sundurgreining kostnaðar frá Landsvirkjun, sem fallið hefur í jan. til sept. 1983, skiptist hins vegar á allmarga viðtakendur, þar sem þeir helstu eru: Áburðarverksmiðja ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, svo og nokkrir einstaklingar, verktakar, kaupfélög o.s.frv. Lista þennan hef ég undir höndum, ef fyrirspyrjandi eða aðrir vilja kynna sér hann, en að öðru leyti tel ég ekki rétt að lesa upp einstakar greiðslur, sem nema allt frá 2 þús. kr. og upp í hærri fjárhæðir.

Varðandi 3. lið fsp., um vatnsréttindin, liggur ekkert fyrir enn sem komið er um hverjir munu fá greiðslur vegna vatnsréttinda í Blöndu.

Þetta er hið beina svar eftir spurninganna hljóðan, en ég geri ráð fyrir að þetta svar þyki of magurt svar, miðað við aðrar upplýsingar sem í málinu hafa komið fram áður, og vil því bæta við nokkrum upplýsingum frekari.

Á áætlunum hönnuða um kostnað við virkjanir hérlendis er að sjálfsögðu talinn allur beinn kostnaður við framkvæmd verks, ásamt þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á virkjunarstað, svo sem vegagerð, vinnusvæði og húsnæði alls konar með tilheyrandi þjónustubúnaði. Þá er og talinn með kostnaður af rannsóknum, hönnun og öðrum slíkum undirbúningi, umsjónar- og stjórnunarkostnaður eigenda og loks fjármagnskostnaður. Ótalinn er hins vegar ýmis kostnaður sem hönnuði skortir forsendur til að meta. Þar til má telja greiðslur eða aðrar bætur fyrir landspjöll, vatnsréttindi, efnistöku, röskun á veiði og kostnað við jarðakaup. Enn fremur má þar til telja kostnað við vegagerð að virkjunarsvæði. Eðlilegt er í flestum tilvikum að sá kostnaður greiðist af almennu vegafé, en virkjunaraðill neyðist oft og tíðum til að taka hann á sig. Hið sama gildir einnig um flutningslínur fyrir vinnurafmagn og símatengingu. Slíkur aukakostnaður fellur alltaf að einhverju leyti á hverja virkjun, en nokkur munur getur verið á hversu þungt hann vegur. Við Blönduvirkjun veldur miklu að bæta þarf gróið land, sem fer undir vatn í ofsetnum afréttum, og að vegir að virkjunarsvæðinu eru lélegir þótt í byggð sé.

Árið 1982 var undirritaður samningur milli virkjunaraðila og þeirra sex hreppa — ég trúi að þó að hér standi sex séu þeir fimm — sem teljast eigendur Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar. Með þessum samningi fékkst heimild til að gera miðlunartón og vatnsvegi virkjunar í þessum heiðalöndum. Á móti skyldu koma bætur með fernum hætti:

Í fyrsta lagi uppgræðsla í stað gróðurlands sem tapast og jafngildi þess að landkostum. Í öðru lagi vegagerð til þess að auðvelda umferð um afréttina og bæta röskun á hagagöngu búfjár. Í þriðja lagi girðingar til þess að forðast röskun á hagagöngu af völdum virkjunar. Í fjórða lagi gangnamannaskálar. Einn skála þarf að stækka vegna breyttrar notkunar afréttarins og færa eða endurbyggja tvo aðra.

Í nóv. 1981, meðan samningurinn var í undirbúningi, var reynt að meta kostnað við lið 1–3, uppgræðsluna, vegagerðina og girðingarnar, en hinn fjórði var þá ekki í samningsdrögum. Samtals nam áætlun þá nær 50 millj. kr., en framreiknaður til verðlags í sumar með vísitölu byggingarkostnaðar 207 nemur sá kostnaður 127.4 millj.kr.

Um uppgræðsluna er það að segja, að framreiknaður til verðlags 1983 nemur áfallinn kostnaður alls 8.9 millj. kr. Með uppgræðslunni í sumar hefur fengist mun betri viðmiðun en áður um kostnaðinn. Samkvæmt því áætlast kostnaður við það sem á vantar, þrjú þúsund hektara, um 61 millj. kr. Til stofnkostnaðar reiknast enn fremur áburðargjöf í fjögur ár. Samtals verður þá kostnaður við uppgræðslu á verðlagi þessa árs 69.9 millj. kr. eða 2.3% af virkjunarkostnaði. Upphafleg áætlun, sem byggð var á minni athöfnum árið 1981, var mun hærri.

Um heiðavegi er það að segja, að árið 1982 voru lagðir 17 km af vegum auk smálagfæringa og byggð ein brú. Á þessu ári er nú lokið við tæplega 70 km, en áætluð viðbót á árinu er 10–15 km. Lokið er einni brú og önnur er í smíðum. Í upphaflegri áætlun var reiknað með 130 km af vegum, en sagt „líklegra að vantalið sé“, en afmörkun í samningi er mjög óljós. Samkvæmt þeirri afmörkun sem þegar er orðin og þeim hugmyndum sem heimamenn hafa lýst um óunna vegi virðist heildarlengdin verða nálægt 200 km. Þar á móti kemur að kostnaður hefur í sumar reynst mun minni á hvern km en áætlað var í upphafi. Í fyrra var kostnaður 2.7 millj. kr., sem samsvarar um 4.9 millj. á verðlagi þessa árs. Á þessu ári er áfatlinn kostnaður 11 millj., en verður væntanlega 15 millj. alls. Kostnaður við vegi og brýr, sem ólokið verður í haust, er áætlaður um 20 millj. kr., þannig að heildarkostnaður verður um 40 millj. á verðlagi þessa árs. Í hlutfalli við virkjunarkostnað er sú áætlun því nærri sama og sú er gerð var í nóv. 1981.

Um girðingar er þetta að segja, að mestur hluti umsaminnar girðingavinnu er óunninn enn, en mjög óljóst er hversu langar girðingar verða. Í byrjun voru þær áætlaðar allt að 150 km. Kostnaður við það sem komið er gefur ekki tilefni til annars en að framreikna fyrri áætlun óbreytta og er þá heildarkostnaður talinn 9.7 millj. kr. á verðlagi þessa árs.

Um gangnamannakofa segir: Búið er að reisa við Ströngukvísl skála sem þangað var fluttur frá Hrauneyjafossi. Húsið er gamalt og þarfnast verulegrar endurnýjunar, en það verk bíður næsta sumars. Síðan þarf að færa og endurbyggja skála við Galtará og Kólkukvísl. Heildarkostnaðaráætlun er 4 millj.

Um samningana er það að segja, að umfram það sem að framan er talið leiðir nokkurn kostnað af umræddum samningi. Þar er fyrst að nefna kostnað við samningsgerðina, síðan kostnað við samráðsnefnd, sem á að sjá um framkvæmd samningsins, og við matsnefnd sem á að fjalla um ágreining ef upp kemur. Erfitt er að áætla þennan kostnað, en hann er hér metinn á 5 millj. alls á verðlagi þessa árs.

Um veiðimálin segir: Virkjun mun breyta rennsli Blöndu. Engin tök eru á að vita það fyrir hvort eða hverjar breytingar verða af þeim sökum á farvegi árinnar eða veiði í henni. Vötn sem verða á nýrri veituleið munu breytast við það að jökulvatn fellur um þau. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á farvegi Blöndu. — Herra forseti. Ég er rétt að ljúka lestri mínum. Vil ég beina því til hæstv. forseta hvort hann vill ekki draga af síðari 10 mínútunum mínum. Ég held að það sé skynsamlegra að ég komi þessu öllu til skila í fyrstu atrennu og umræðan verði þá skipulegri. (Forseti: Það mun verða orðið við ósk hæstv. ráðh., en það verður dregið sleitulaust frá síðar.) — Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á farvegi Blöndu og veiði og uppeldisstöðvum í ánni. Til athugunar er hvort og að hve miklu leyti þarf að halda þessum rannsóknum áfram og jafnvel að endurtaka þær að virkjun lokinni til samanburðar, nema samið verði um annað. Áfallinn kostnaður framreiknaður nemur 3.9 millj. kr., en engin spá er gerð hér um framhaldið.

Um Eiðsstaði er það að segja, að unnið er að byggingu fjárhúss og hlöðu á jörðinni, svo sem skylt var samkvæmt samningi. Verkinu er senn lokið. Á næsta ári á að einangra íbúðarhúsið og klæða að utan. Kostnaður af þessu og kaupum á jörðinni er áætlaður samtals 9.1 millj. kr.

Vegir utan virkjunarsvæðis: Á árunum 1981–83 var byggður upp hluti af Svínvetningabraut og vegi um Blöndudal, samtals um 15 km. Enn þarf að byggja 13– 19 km langa vegi svo að viðunandi vegasamband fáist. Kostnaður framreiknaður til verðlags í sumar er nú orðinn 55.8 millj., en viðbót áætluð 32.9 millj. Alls mun þessi kostnaður þá nema 88.7 millj. kr.

Heildarkostnaður vegna raflínu er reiknaður 10.7 millj. kr.

Annar kostnaður. Um vatnsréttindin er alveg ósamið og allsendis óvíst hvernig þau verða metin til fjár. Það skortir allar forsendur til þess að meta þann kostnað.

Ef ég gef svo í tveim setningum yfirlit um kostnaðinn, þá er það að segja, að á júníverðtagi þessa árs er virkjunarkostnaður talinn 3 milljarðar og 18 millj. kr. samkvæmt nýjustu áætlun hönnuða. Framantalinn aukakostnaður er talinn nema 237 millj. kr. og nemur því um 7.9% af virkjunarkostnaði.