19.12.1983
Efri deild: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umr. sem hér hefur átt sér stað. Ég ætla ekki að lengja umr. en vil reyna að svara í nokkru þeim beinu spurningum sem til mín hefur verið beint. Hv. þm. Karl Steinar spurði hvers vegna rætt væri um þrjú ár þegar rætt er um skiptingu á afla. Það sem menn hafa hér fyrst og fremst í huga er að fá þverskurð af fortíðinni sem gæti gefið líklega mynd af möguleikum viðkomandi skipa á t.d. næsta ári. Það er nú svo í langflestum tilvikum að afli skipanna í fortíðinni gefur mjög mikla og góða mynd af möguleikum þeirra í framtíðinni. Maður sér þegar litið er á skip sem hafa verið lengi á veiðum að svo er. Hvort þessi ár eiga að vera þrjú, fjögur eða tvö er út af fyrir sig engin heilög regla. Ef árin eru fleiri er þeim mun líklegra að fleiri vandamál komi upp. Það verða þá fleiri skip sem ekki hafa verið í rekstri svo lengi, það eru fleiri skip sem hafa skipt um eigendur svo að eitthvað sé nefnt ef notuð eru fjögur ár. Hins vegar hefur verið um það rætt að líta einnig á hverju það mundi breyta ef einu ári er bætt við.

Ekki hefur verið tekin um það ákvörðun með hvaða hætti þetta verður gert. Nú eiga sér stað útreikningar hjá Fiskifélagi Íslands til að leggja á það fullt mat, en það sem hér býr að baki er að menn vilja hafa tryggingu fyrir því að dugnaður manna á undanförnum árum og ráðdeild þeirra varðandi afla fái notið sín í kvótanum. Þannig er það t.d. í Noregi þar sem er jafn kvóti, þ.e. öll togskip hafa sama kvóta. Það liggur alveg fyrir af hendi hagsmunaaðila að aldrei gæti orðið samstaða um að skipta aflanum jafnt. Menn leggja á það meginþunga að tillit sé tekið til þess hvernig menn hafa staðið sig í fortíðinni. En ég tek fyllilega undir það, að einnig eru aðilar sem hafa nýlega keypt skip sem ekki fá þá notið sín vegna þess að þeir hafa ekki fengið tækifæri til að sanna hvað í þeim býr eins og hinir. Og það verður alveg sérstakt vandamál að koma upp hlutlausum og hlutlægum reglum um hvernig taka skuli á slíkum undantekningartilvikum. Þau eru eftir því sem ég best veit ekki óskaplega mörg en þau geta verið alvarleg. Að því er nú unnið af ráðgjafarnefndinni að móta slíkar reglur og gera tillögur um það á hvaða grundvelli aflanum verði skipt.

Ég vil sem sagt taka skýrt fram að sú ráðgjafarnefnd sem vinnur nú að þessum málum mun gera tillögur. Ég vil t.d. taka fram að ráðgjafarnefndin gerði tillögur um heildarafla fyrir næsta ár og ég leyfi mér að fullyrða að aldrei áður hefur verið haft svo mikið samráð við hagsmunaaðila um ákvarðanir um aflamark á næsta ári. Það hefur fyrst og fremst verið sjútvrh. sem hefur tekið þær ákvarðanir eftir að Hafrannsóknastofnun hefur komið með sínar tillögur, en nú vann ráðgjafarnefndin mjög gott starf og lagði sjálfstætt mat á aflatölur fyrir næsta ár og skilaði niðurstöðu sem ég tók upp og fór eftir.

Ég hef einnig tekið skýrt fram við hagsmunaaðila að eftir að þessar tillögur verða komnar frá ráðgjafarnefndinni verða þær kynntar sjávarútvegsnefndum þingsins og hagsmunaaðilum á breiðari grundvelli en í ráðgjafarnefndinni og síðan verða ákvarðanir teknar. Ég vil einnig taka skýrt fram að að sjálfsögðu munu þessi mál koma aftur til umfjöllunar þingsins. Þau verða að gera það vegna þess að lögin eiga aðeins að gilda í eitt ár og að sjálfsögðu hefur þingið, ríkisstj. eða ráðherrar alla möguleika á því að taka málið aftur upp á Alþingi síðar í vetur. Einstakir þm. og sjávarútvegsnefndir hafa að sjálfsögðu slíkan möguleika og geta flutt málið aftur inn á Alþingi. Ég hef einnig greint frá því að taka þarf þessi lög til áframhaldandi endurskoðunar. Hér er ekki um neina lokaendurskoðun að ræða og ég minnti þar á reglur um stærð fiskiskipa og landhelgislínu. Þessi atriði þurfa helst að koma til meðhöndlunar á Alþingi í vetur. Þessi löggjöf verður því til áframhaldandi meðferðar hér.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að mjög mikilvægt er að um þetta mál ríki hin besta samstaða. Að sjálfsögðu er mikilvægt að svo sé á Alþingi. Það var einmitt með það í huga að ég kallaði strax og ég taldi málið liggja það skýrt fyrir á sjávarútvegsnefndir þingsins til að kynna málið og fara þess á leit að það væri tekið fyrir í þingflokkunum. Ekki er síður mikilvægt að góð samstaða ríki um málið við hagsmunaaðila sem eiga að búa við þessa löggjöf. Það er e.t.v. enn þá meira atriði. Hagsmunaaðilar allir hafa rætt þessi mál mjög mikið að undanförnu og þeir hafa komið fram með hugmyndir og sagt mjög skýrt að þeir vilji taka á þessum málum í samvinnu við sjútvrn. Þeir gera það vegna þess að þeir sjá enga aðra möguleika til að skapa bærilegan rekstrargrundvöll, en ég óttast nú að hann verði ekki einu sinni bærilegur á næsta ári. Þeir sjá ekki möguleika á að halda áfram því mikla kappi sem hefur verið um fiskimiðin, þar verði að draga úr. Það er e.t.v. nokkuð líkt þó að í minna mæli hafi verið þegar eigendur loðnuskipa komust að þeirri niðurstöðu að þeir þyrftu að koma sér saman um skiptingu aflans.

Nú er það svo vegna þess að mikið hefur verið talað um frjálsan atvinnurekstur í þessu sambandi, að eigendur loðnuskipanna eru e.t.v. þeir aðilar í útgerð sem eru hvað sjálfstæðastir og minnst háðir vinnslunni. Og það voru þessir menn og þessir aðilar sem komu sér saman um að breyta fyrirkomulaginu. Það var að vísu ekki atger samstaða en allir sem líta til baka á þessi mál eru sannfærðir um að hér var stigið rétt skref. Olíunotkun hefur minnkað mjög verulega hjá loðnuflotanum og veiðarfæraslit hefur stórminnkað þannig að þar hefur átt sér stað mikill sparnaður.

Það var að mínu mati e.t.v. enn þá meiri ábyrgðarhlutur en allt annað að standa á móti því að taka á þessum málum og reyna að koma við sparnaði og skipulagi með hagsmunaaðilunum. Af því að Fiskiþing hefur komið hér til umr. þá eru þar þrátt fyrir allt menn alls staðar að af landinu sem hafa lifað og starfað í sjávarútvegi allt sitt líf. Í Landssambandi ísi. útvegsmanna er sama sagan, í Sjómannasambandinu og Farmanna- og fiskimannasambandinu. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að ekki er alger eining meðal þessara manna. En það er yfirgnæfandi meiri hluti sem krefst þess að forustumenn þessara samtaka geri tilraun til að koma á öðru skipulagi í samvinnu við sjútvrn.

Spurt var um það hér af hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni hvers vegna flotvarpan var felld út. Það er alveg rétt að þegar frv. var kynnt var grein um það að sjútvrh. væri heimilt að banna veiðar með flotvörpu. Aðalfundur LÍÚ samþykkti slíka tilhögun og ég taldi rétt að tekin væri afstaða til slíks banns. Ég vildi þá að alveg væri ljóst að ef Alþingi samþykkti slíka heimild yrði að vera ljóst að sú heimild yrði notuð. Hins vegar kom mjög skýrt fram á Fiskiþingi eftir að menn komu sér saman um að æskilegast væri að gera tilraun með kvótaskiptingu í eitt ár að þá væri ekki rétt að banna ákveðin veiðarfæri. Það var raunverulega forsenda þess að einstakir aðilar gátu sætt sig við slíka skipan, t.d. Vestfirðingar og Norðlendingar ýmsir. En það vita að sjálfsögðu allir að mismunandi sjónarmið eru í landshlutunum bæði að því er varðar veiðarfæri og hvort eigi að veiða fiskinn smáan eða stóran. Það er afskaplega mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir þá togstreitu sem oft vill verða á milli landshlutanna ef vel á að takast til.

Einnig komu fram spurningar frá Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, hv. 11. þm. Reykv., hvort fyrir lægju upplýsingar um kvóta á milli byggðarlaga og hvernig þetta mundi virka á atvinnuna. Ég vil taka fram vegna þess að raunverulega hefur komið fram hjá ýmsum að þetta frv. gæti orðið þess valdandi að atvinnuleysi færi vaxandi að ég tel það algerlega rangt. Ég tel að mun meiri líkur séu til að það muni fremur ganga í gagnstæða átt því að grundvöllurinn fyrir okkar atvinnu er að sjálfsögðu verðmætasköpun og það sem skiptir okkur mestu máli sem þjóð er að skapa sem mest verðmæti úr auðlindunum og með betra skipulagi. Þegar hér er um svo takmarkaðan afla að ræða getum við náð upp meiri verðmætum.

Það liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um kvóta eða um afla á einstakt byggðarlag með skipulegum hætti. Að sjálfsögðu liggja þessar upplýsingar allar fyrir hjá Fiskifélaginu. Það eru listar til um afla hvers einasta skips mörg ár aftur í tímann og það eru upplýsingar um afla í hverju einasta byggðarlagi mörg ár aftur í tímann þannig að þessar upplýsingar liggja í sjálfu sér alveg fyrir, rétt er að taka það fram. En ég held að mjög hættulegt sé að meta þetta mál í ljósi þessa. Við verðum hér fyrst og fremst að líta á heildarhagsmunina vitandi að komið geta upp ýmis staðbundin vandamál. Einmitt í ljósi þess sagði ég hér fyrir nokkru síðan að auðvitað væri best að fækka skipunum sem mest þannig að hin hefðu meiri möguleika og náttúrlega væri þá best að fækka þeim þar sem aðrir atvinnumöguleikar væru fyrir hendi. Í mínum huga er þetta mjög einföld skynsemi, a.m.k. þeirra sem vilja viðhalda fullri atvinnu í landinu. En það var ekki lengi að kvikna á ýmsum perum. Ég var sakaður um að vilja leggja hverjum einasta togara á Faxaflóasvæðinu og draga menn í nauðungarvinnu í álverið eins og það var orðað af nokkrum stjórnarandstæðingum. (Gripið fram í.) Ég veit að þetta hefði aldrei komið fram hér í hv. Ed., hér eru miklu hógværari menn. En ég er ekki að segja að það hafi endilega komið sérstaklega fram í þinginu en þetta kom mjög skýrt fram í fjölmiðlum. Auðvitað er það þetta sem málið snýst um. Það snýst um það að nýta auðlindirnar við landið þannig að við getum skapað atvinnu handa fólkinu og við verðum þá að nýta þær auðlindir sem við höfum ekki nýtt til að koma á móti þeim þar sem erfiðlega gengur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Ég var búinn að lofa því að vera ekki langorður. En að sjálfsögðu getum við í sjútvrn. ekki farið að tala hér um hliðarráðstafanir. Það er að sjálfsögðu þjóðarinnar allrar að taka á því máli, byggja upp nýja atvinnuvegi í staðinn. Menn spyrja hvers konar byggðaröskun gæti átt sér stað. Ég tel að ekki eigi að þurfa að verða nein byggðaröskun vegna þessa hugsanlega skipulags vegna þess að við erum aðeins að reyna að finna réttláta leið til að jafna niður því mikla áfalli sem við höfum orðið fyrir og reyna að gera það besta úr hlutunum. Það er það sem allar þjóðir gera þegar þjóðfélög verða fyrir áföllum, þá fara menn þá leið.

Ég hef að sjálfsögðu ekki komið inn á öll þau atriði sem hér hafa komið fram. (Gripið fram í.) Já, varðandi línuna er það að segja að ég sagði eitt sinn í þinginu að ég teldi það koma mjög til álita að halda línuveiðinni utan við. Hitt er svo annað mál að ýmsir hagsmunaaðilar telja að mjög óráðlegt sé að gera það og það mundi sæta miklum mótmælum, t.d. togveiðiskipanna. Þetta er engan veginn útrætt mál. Það liggur alveg fyrir að ég hef sett fram ýmsar persónulegar skoðanir í þessum málum, bæði á aðatfundi LÍÚ, á Fiskiþingi og víðar. En ég vil taka skýrt fram að það er ekki mín hugmynd að þessar skoðanir verði sérstaklega ofan á. Ég hef alltaf sagt við hvert tækifæri að ég vilji taka sem mest tillit til hagsmunaaðilanna til að hægt verði að skapa sem mestan frið og samstöðu um málið. Ég hef að vísu varpað fram ýmsum skoðunum til að skapa umr. og ekkert hikað við það jafnvel þótt ég hafi oft verið gagnrýndur fyrir það, m.a. undanfarna daga, að ekki sé rétt af mér að vera að setja fram eina eða aðra skoðun því að það geti valdið vandræðum á milli aðila á meðan niðurstaða er ekki fengin.

Ég vil alveg taka undir það að það er mjög miður að mál þetta skuti ekki liggja allt saman ljóst fyrir. Ég hefði gjarnan viljað sjá að svo væri. Ég vænti þess að það liggi mun betur fyrir fljótlega upp úr áramótunum og þá sé hægt að segja alveg til um hvers konar skipulag við munum fara út í.

Það dettur held ég engum í hug að koma á fiskveiðistefnu á næsta ári nema í mjög nánu samráði við hagsmunaaðilana. Að ætla sér að fara af stað með eitthvað sem er í mikilli andstöðu við þá mun ekki stýra góðri lukku og mér dettur ekki til hugar að reyna slíkt. En um þetta verða höfð náin samráð, bæði við nefndir þingsins og hagsmunaaðila. Ég hef nú þá trú og ég veit að þm. hafa þá trú á lýðræðinu í landinu að ef eitthvað kemur upp sem menn geta alls ekki sætt sig við verður því að sjálfsögðu breytt. Þingið hefur alla möguleika á að taka málið upp og ég held að einmitt þess vegna sé mikilvægt að þetta margumtalaða vald sé í höndum pólitísks aðila því að hægt er að taka hann og spyrja í þinginu. Menn spyrja ekki Fiskifélag Íslands t.d. hér á Alþingi. Ef það ætti að hafa þetta vald, hver yrði spurður um þá ráðstöfun hér á Alþingi? Sennilega yrði sjútvrh. að svara fyrir hönd Fiskifélagsins. Menn spyrja ekki hagsmunaaðilana hér. Einnig getur þingið hvenær sem er breytt lögum og mér finnst að allt of mikið hafi verið gert úr því hvað ráðherra fær þarna mikið vald. Það er vissulega rétt. En ég vil minna menn á að þetta vald er afskaplega vandmeðfarið og það er í reynd ekki hægt að fara með það nema í mjög náinni samvinnu við þá sem við það eiga að búa.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. nefnd sjái sér fært að afgreiða þetta mál eins fljótt og mögulegt er. Ég tel mjög slæmt að málið skyldi ekki koma fyrr hingað til deildar. Það er vissulega rétt og ég hefði að sjálfsögðu kosið að það hefði komið hingað mun fyrr. En að mínu mati er mjög mikilvægt að fá skýrar línur í það hvort Alþingi er tilbúið til að á þessum málum verði tekið með þeim hætti sem hagsmunaaðilar hafa lagt á áherslu og menn hafa verið að ræða að undanförnu. Ef því verður frestað og því verður hafnað og málið dregið fram yfir áramót kemur mjög mikil óvissa upp.

Ég vil einnig taka skýrt fram að mjög erfitt er fyrir okkur í sjútvrn. að taka ábyrgð á stjórn fiskveiða á næsta ári með þeim heimildum sem við höfum. T.d. eru togveiðarnar ekki leyfisbundnar og við höfum í reynd enga heimild. Við getum að vísu útvíkkað skrapdagakerfið, en skrapdaga í hvað? Í ofnýtta aðra stofna sem mundi þá setja þá stofna í mikla útrýmingarhættu? Ég vil leiðrétta þann misskilning sem hér hefur komið upp að vandalaust sé að stýra sókninni í fiskistofnana með þeim heimildum sem eru fyrir í lögum. Að vísu eru þær heimildir mjög víðtækar en þær voru hugsaðar á þeim tímum þegar mikið var af vannýttum fiskistofnum. Menn litu á karfann, ufsann, ýsuna og marga aðra fiskistofna sem vannýtta. En nú er ekki lengur um það að ræða svo að við getum ekki stýrt sókninni úr ofnýttum stofni yfir í vannýtta stofna. Segja má að öll hugsunin í þeirri löggjöf hafi byggst á því.