19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Mér þykir satt að segja einkennilegt að það skuli enn vera hafin umr. um þetta og með nákvæmlega sömu rangfærslum og á fyrstu dögum þingsins í haust, þá af hv. þm. Svavari Gestssyni. Það var þá rekið rækilega hverjir það voru sem komu í veg fyrir samþykkt till. um að Alþingi skyldi koma saman eigi síðar en 18 dögum eftir kosningar. Það var Alþb. Ég sé enga ástæðu til að vera að rekja þetta aftur. Það var gert hér í haust. (Gripið fram í.)

Ég skal gera það já. Ég svara spurningu hv. þm. þannig, að það er ekki með samþykki Sjálfstfl. að þetta frv. til nýrra kosningalaga er ekki tekið á dagskrá. Þetta er hins vegar eitt af þeim frv. sem hefur ekki náðst samkomulag um að tekið yrði til afgreiðslu fyrir þinghlé núna. En það er ekki með neinu samþykki Sjálfstfl. Þvert á móti hef ég á fundum formanna þingflokka og forseta lagt áherslu á og stutt þar ósk hv. þm. Svavars Gestssonar um að málið kæmi hér til umr. Það er enn mín ósk að þetta frv. komi til umr. og megi ganga til nefndar, þar með líka að kjörnar verði sérstakar stjórnarskrárnefndir sem gætu þá tekið til starfa í þinghléinu. Að þessu leyti eigum við sameiginlegar óskir, Alþb.menn og sjálfstæðismenn.

Ég mundi telja heppilegt að það yrði kannað núna í fundarhléi hvort ekki væri möguleiki á samkomulagi milli þingflokka um að þetta mál kæmist til umr. Það er reyndar fleira sem ekki hefur orðið samkomulag um en mér þætti rétt að reyna enn hvort þingflokkar gætu ekki fallist á næði fram að ganga. Þar á ég sérstaklega við frv. um tekju- og eignarskatt. Ég veit að það hefur verið lögð misjöfn áhersla á það á fundum formanna þingflokka og forseta, en það er þó eitt af þeim málum sem ríkisstj. lagði áherslu á að næði fram að ganga. Mér sýnist þess vegna vera full ástæða til að formenn þingflokka og forsetar kanni á fundi sínum hvort ekki er möguleiki á að ná þessum málum fram.