19.12.1983
Neðri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

161. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Á fundi heilbr. og trn. í morgun kom þetta frv. nokkuð til umr., algerlega óformlega, þar sem ég hygg að nefndin eigi það öll sameiginlegt að hafa áhuga á að verða þess ekki valdandi að þetta mál tefjist. Það hafa hins vegar heyrst þær raddir meðal nm. að 2. gr. sé kannske ekki eins skýr og afgerandi og mörg okkar kysu, og þar sem ég á von á að nefndinni verði falið að afgreiða málið sem allra fyrst vildi ég leyfa mér að stytta þá leið með því að heyra hvað ráðh. hefði um það að segja ef nokkur orðalagsbreyting yrði gerð á þessari umræddu 2. gr. En hún hljóðar svo með leyfi forseta:

„Að styrkja byggingu sveitarfélaga á hjúkrunar- og sjúkradeildum fyrir aldraða með jafnháu framlagi og veitt er til sjóðsins á fjárlögum til þessara verkefna“ o.s.frv.

Ég hefði viljað gera að tillögu minni að þetta væri orðað ofurlítið öðruvísi eða í þá veru „að styrkja byggingu sveitarfélaga á hjúkrunardeildum og sjúkradeildum fyrir aldraða“ eins og segir í frv., en síðan yrði þarna nokkur orðalagsbreyting: „með jafnháu framlagi af mörkuðum tekjustofnum sjóðsins og nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn fær á fjárlögum frá ríkissjóði til þessara verkefna.“ Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart vegna þess að í grg. með frv. segir orðrétt um 2. gr., með leyfi forseta:

„Til að skýr sé sá vilji sem að baki ákvæðisins lá í upphafi þykir rétt að orða það nákvæmar og er það gert með þessari breytingu. Samkvæmt því skal af mörkuðum tekjustofni sjóðsins greiða til hjúkrunar- og sjúkradeilda aldraðra jafnháa fjárhæð og sjóðurinn fær á fjárlögum frá ríkissjóði til að sinna þessum verkefnum.“

Okkur þykir ástæðulaust að frvgr. sé minna afgerandi en grg. Ég tel því með öllu eðlilegt að þessu orðalagi verði breytt og ég geri ráð fyrir að till. um það komi fram í nefndinni. Það ætti ekki á nokkurn hátt að þurfa að tefja störf nefndarinnar og ég hygg að það gæti auðveldlega orðið samstaða um till. En vegna þess tímaskorts sem við erum í og með þeim vilja sem við öll höfum til að tefja málið ekki, þá held ég að það væri okkur öllum fyrir bestu að við fengjum að heyra hvort ráðh. hefur í sjálfu sér nokkuð á móti því að slík orðalagsbreyting yrði gerð, hvort sem hún yrði nákvæmlega svona eða ekki, en merkingin væri afgerandi.

Ég vil leyfa mér að benda á að í lögum um mátefni aldraðra segir í 12. gr. um hlutverk Framkvæmdasjóðs í aldraðra í 3. lið:

„Að greiða hlutdeild ríkissjóðs, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 57/1978, í byggingum sveitarfélaga og stofnunum fyrir aldraða, sbr. 17. gr. 3. og 4. tölul., enda verði veitt jafnhátt framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra á fjárlögum hvers árs á móti.“ Ég held þess vegna að hér væri um samræmingu þessara laga að ræða og á erfitt með að sjá að það geti verið nokkuð á móti því að við fengjum að gera þessa breytingu. Ég mun í öllu falli leggja það til.