25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

452. mál, jafnréttislög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 4. þm. Vesturl. vil ég upplýsa það að ekki liggur enn fyrir áætlun eða ákvörðun um að kaupa nýtt dýpkunarskip í stað Grettis. Ástæða þess er sú að uppi eru áform um það, eins og öllum er kunnugt, að reyna að draga sem mest úr framkvæmdum og fjárfestingu ríkisfyrirtækja og hyggja betur að því hvort verktakar almennt geti ekki frekar tekið að sér slík verkefni með útboðum. Alþingi hefur margoft lýst yfir vilja sínum í því efni. Af þessari ástæðu fyrst og fremst og einnig af fjárhagsástæðum hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um þetta. Hins vegar á Hafnamálastofnunin sambærileg skip sem hafa verið í notkun og eru það áfram. Þessi mál eru enn þá til athugunar í rn.

Ég get upplýst það varðandi seinni lið fsp. að Grettir var tryggður fyrir sem næst kaupverðið, 5 157 000 norskar kr. eða um 19.6 millj. ísl. kr. Af því hafa þegar verið greiddar til Hafnamálastofnunar tæpar 4 227 000 n.kr. Er það geymt á gjaldeyrisreikningi í Landsbankanum að frádregnum 3 millj. ísl. kr., sem ákveðið var að nota til að fullgera starfsmannahús við verkstæði stofnunarinnar í Kópavogi, sem var fullfrágengið í vor. Það sem á vantar er væntanlegt á næstunni frá endurtryggingum samkv. upplýsingum frá hafnamálastjóra.

Frá því að Grettir var keyptur hefur verðbólga í Evrópu yfirleitt verið 8–10% þannig að nálgast mun að tryggingin hafi jafngilt afskrifuðu verðmæti tækisins. Er þá reiknað með afskriftum 8–10% á ári en ekkert tillit tekið til endurbóta, sem gerðar hafa verið á skipinu síðan kaupin áttu sér stað, né heldur þó nokkurs af áhöldum sem voru um borð í skipinu. Þetta sýnir að skipið var vanvátryggt. Vantaði mikið á að það væri vátryggt á því verði sem nauðsynlegt var. Ég er þeirrar skoðunar að þó að ríkið eigi í hlut eigi að vátryggja fyrir atsköðum að fullu og öllu. En ég er aftur á móti mjög hlynntur því að í hlutatilfetlum taki ríkið að sér stærri ábyrgð en yfirleitt gerist og gengur í vátryggingarstarfsemi. Það er nú sennilega of seint að tala um þetta núna því aðeins og í auglýsingunni segir: Þú tryggir ekki eftir á.

Vita- og hafnamálastofnunin hefur gert lauslega áætlun um verð á nýju graftæki sem væri endurbætt og öflugri gerð Grettis. Stofnunin telur að slíkt tæki mundi kosta um 12 millj. n. kr. eða sem samsvaraði um 45.5 millj. ísl. kr. Tel ég þá að fsp. sé svarað.