24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

405. mál, verðlagning á sjávarafurðum á Bandaríkjamarkaði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka viðskrh. fyrir hans svar, en að einu leyti gætti þar þó misskilnings. Að sjálfsögðu er ekki verið að fara fram á að íslenska viðskrn. setji reglur fyrir bandarísk fyrirtæki. Spurningin er aðeins: Skila þeir aðilar sem selja frá Íslandi sambærilegu verði í erlendum gjaldeyri til íslenskra aðila sem eiga þann fisk sem þeir eru að selja, sé um sambærilega vöru að ræða?

Það hlýtur að vera verkefni viðskrn. að meta hvort þannig sé að þessum málum staðið að eðlilegt geti talist. Það getur ekki verið rétt að heimila einum að selja út á lægra verði en öðrum á hærra verði sömu vöruna. Þarna verður viðskrn. að koma inn í þetta mál ef það ætlar yfir höfuð að láta taka sig alvarlega sem afskiptaaðila af útflutningi af þessu tagi. Ég hygg að þess vegna hljóti viðskrn. að meta það hvort sú stefna er rétt að fela tveimur aðilum að sjá um söluna. Hún er því aðeins rétt að ekki geisi verðstríð milli þessara aðila. Ef það geisar hlýtur að vera eðlilegt að leyfa fleirum að selja og kanna hvort þeir eru færir um að selja á hærra verði.