24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

130. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég kannast nú nokkuð við það mál sem hér um ræðir, þar sem varaþm. minn á sínum tíma, Hannes Baldvinsson, flutti þetta mál á Alþingi með mínu samþykki þegar ég var fjmrh. og það var hér til umfjöllunar fyrir tveimur árum. Því miður tókst nú ekki að fá málið afgreitt á þeim vetri. En veturinn eftir fluttu nokkrir þm. Framsfl. alveg hliðstætt frv., raunar örlítið víðtækara en fyrra frv., og það var samþ. á Alþingi á s.l. vetri.

Ég þarf ekki að ítreka það sem hér hefur verið sagt. Það er ósanngjarnt, það fyrirkomufag sem nú er, að ríkið skuli hagnast á miklum snjómokstri einstakra sveitarfélaga. Það var skýlaus vilji fyrir hendi hér í þinginu að endurgreiða söluskatt af snjómokstri. Ég er feginn því að hæstv. núv. fjmrh. er sömu skoðunar, að hér sé um sanngirnismál að ræða í fyrsta lagi og í öðru lagi, eins og hann sagði, að lögin eru afdráttarlaus um vilja Alþingis. Hvað kemur þá eiginlega annað til greina en að framkvæma lögin afdráttarlaust eins og ráðh. hefur verið falið?

Ég segi fyrir mig að ég varð mjög undrandi yfir svari hæstv. fjmrh. Mér kom ekki til hugar, þegar ég varð var við að verulegur dráttur hafði orðið á því að lögin kæmu til framkvæmda og endurgreiðslur hæfust, að skýringin á því gæti verið önnur en sú að það væri verið að semja reglugerð og undirbúa málið. En nú heyri ég í fyrsta skipti á þessu andartaki að ráðh. og ríkisstj. ætli sér að sniðganga vilja Alþingis og alls ekki að framkvæma það sem Alþingi hefur samþykkt. Þetta kemur mér mjög á óvart.

Ég verð að lýsa því yfir að ég sé ekki að fyrirkomulag á þessari endurgreiðslu sé óyfirstíganlegur þröskuldur. Það er vissulega hægt að láta einhvern aðila hjá ríkinu hafa nokkurt eftirlit með þessu, við skulum segja t.d. bara sýslumenn og bæjarfógeta eða lögreglu. Það fer nú ekki fram hjá mönnum hvort verið er að moka snjó eða ekki. Tökum f. d. snjóþungt byggðarlag norður í landi, við skulum segja Siglufjörð. Það ætti nú að liggja nokkuð ljóst fyrir og vera hægt að fá vottorð um það, við skulum segja frá lögreglunni á staðnum, hvenær snjómokstur hefur farið fram og hvenær ekki. Það má vel vera að skattyfirvöld þurfi að finna leiðir til þess að fylgjast með þessu, en þær leiðir eru áreiðanlega finnanlegar og mér finnst aldeilis fráleitt að eftir að Alþingi hefur lýst þessum skýlausa vilja sínum fari fjmrn. að sniðganga þann vilja.