24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

130. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er vissulega alveg rétt ábending hjá hæstv. fjmrh. að það leið einhver tími frá því að lögin voru staðfest og þar til ég fór úr fjmrn. Ég hygg nú að lögin hafi ekki verið staðfest fyrr en einhvern tíma undir lok aprílmánaðar og það hafa því liðið þarna kannske fjórar vikur þar til ég fór frá. Ég sá hins vegar til þess að það var farið að undirbúa reglugerð um framkvæmd þessa máls. Ég verð að segja það alveg í fullri hreinskilni að ég var svo sannfærður um að mátið væri í ágætum höndum, þar sem var nýr fjmrh. sem mér datt ekki í hug annað en mundi framkvæma vilja Alþingis, að ég taldi það ekki skipta öllu máli að ganga endanlega frá reglugerðinni áður en ég hætti í fjmrn., enda var þeirri vinnu sem var verið að vinna að undirbúningi málsins ekki lokið. Ef mig hefði grunað að í fjmrn. kæmi maður sem ætlaði sér að svíkjast undan að framkvæma það sem hann sjálfur lýsir yfir hér í þinginu að sé afdráttarlaus vilji Alþingis hefði ég svo sannarlega reynt að nota þessa fáu daga sem þarna voru til ráðstöfunar til að ganga frá málinu. En mig grunaði þetta ekki og því fór sem fór.