25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

459. mál, ráðstöfun gengismunar og bætt meðferð sjávarafla

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna þeim umr. sem hér hafa orðið um þessi mál. Það er vissulega tímabært að ræða um vöruvöndun í sjávarútvegi og bætta nýtingu sjávarfangs. Ég er þess fullviss að um þau mál eiga eftir að verða hér miklar umr. í vetur og væri auðvitað æskilegra og eðlilegra að þær færu fremur fram þá heldur en nú undir þessum lið sem er í fyrirspurnarformi.

Fyrirspyrjandi var að finna að því hvað gert hefði verið í sjútvrn. í þessum efnum. Mér fannst hann tala um það allt í heldur svona leiðinlegum tón. Það finnst mér þó koma úr hörðustu átt frá manni sem ætti að gjörþekkja þessi mál eins og hv. þm. Skúli Alexandersson. Hann er að tala um hvaða kostnaður hljótist af því að breytingar hafi orðið hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða. Það væri gaman ef hv. þm. Skúli Alexandersson hefði velt því upp fyrir okkur hver kostnaðurinn hefði orðið af þeim hræðilegu mistökum sem urðu í meðferð sjávarafla á s.l. vetri. Ég held þess vegna að okkur beri að fagna því sem gert hefur verið. (SkA: Að það hafi verið forstjóraleysi?) Ég held að það megi orða það eins og þú gerir — að það hafi verið forstjóraleysi. Ég held því miður að það hafi jaðrað við að vera hálfgert forstjóraleysi. Það er a.m.k. óhætt að orða það svo að það hafi verið skortur á eftirliti.

Ég stend hér fyrst og fremst upp til að lýsa ánægju minni yfir því að menn skuli gefa sér tíma til að ræða um þessi mál. Ég er sammála því að það er einmitt hér sem auðurinn liggur, að við gerum sem best úr því sem við drögum að landi. Ég er sannfærður um að þar eru þeir peningar sem okkur vantar í dag. En ég fagna þessum umr. og ég vil líka undirstrika það rækilega að ég fagna því sem verið er að vinna að í sjútvrn. þessa dagana.