25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

152. mál, skemmtanaskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að málefni kvikmyndahúsa skuli koma til umr. hér en ég tel að það frv. sem hér liggur fyrir sé fullmikil smáskammtalækning á vandamálum kvikmyndahúsareksturs í dag sem er mjög erfiður, ekki aðeins í byggðarlögum með 2500 íbúa og færri heldur um land allt og sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ég skil ekki hvernig þessi viðmiðun er til komin, 2500 íbúar.

En ég vil ítreka það að vandamál þessa reksturs er mjög mikið vegna þess að svokölluð vídeóvæðing hefur gert það að verkum að fólk sækir kvikmyndahús minna en ella. Kvikmyndahúsin þurfa að gjalda þess að myndbönd eru leigð út sem ekki er leyfi fyrir að leigja út, svokölluð sjóræningjastarfsemi á sér stað og þrátt fyrir að nokkuð hafi úr henni dregið á hún sér stað enn þá. En eðlilega hefur þetta komið mjög niður á kvikmyndahúsunum og ég fullyrði að þau eru allflest rekin með miklu tapi í dag.

Eitt er það sem rétt er að hafa í huga að hvergi nokkurs staðar í veröldinni er skattlagning á bíómiða eins mikil og hér. Það er 36.4% samtals sem greitt er af hverjum bíómiða í skatta til ríkisins. Ég leyfi mér því að spyrja hvort ekki sé hugsanlegt að koma til móts við þennan rekstur sem mjög er illa staddur, rekstur sem á fullan rétt á sér og, eins og hæstv. menntmrh. sagði áðan, færir mönnum góða skemmtan og oft á tíðum heilmikla menningu, a.m.k. annað slagið.

Ég tel að ekki sé nóg að gert með því að miða þetta við 2500 íbúa og að ekki eigi einungis að fella niður skemmtanaskattinn, heldur tel ég koma mjög til greina að fella niður söluskattinn. Það væri gaman að vita hvað bærist mikið af söluskatti af vídeóleigunum sem hafa sprottið hér upp eins og gorkúlur um allan bæ og um allt land. Ég er alveg sannfærður um að skil á þeim skatti eru alveg í lágmarki á þeim stöðum.

Ég spyr aftur: Hvers vegna eru þessi einstöku byggðarlög tekin út? Hefur ekki komið til umr. að þetta gangi yfir allt eða þá þau kvikmyndahús sem eru úti á landi? Svona leið var einu sinni valin í sambandi við rekstur samkomuhúsa. Ég held að þá hafi verið miðað við 1500 íbúa. Þá gátu byggðarlög sem voru í nágrenni við þéttbýli byggt upp góð félagsheimili á meðan þeir sem bjuggu í þéttbýli gátu það ekki vegna þess að þeir sem ráku samkomuhús í viðkomandi þorpi fengu alla skatta niðurfellda a.m.k. skemmtanaskattinn sem þá var miklu hærri, en hinir ekki. Ég held að það sé ekki af því góða að taka upp svona smáskammtalækningar. En ég veit að það er einungis skemmtanaskatturinn sem fellur undir menntmrh. Ég vildi því spyrja fjmrh. hvort hann hafi athugað það erindi Félags kvikmyndahúsaeigenda að fella niður söluskatt af kvikmyndasýningum. En skattlagning á bíómiða er 36.4%, sú hæsta sem þekkist í veröldinni í dag.