25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

152. mál, skemmtanaskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég er að vísu alveg sammála hv. 3. þm. Norðurl. v. að hér er sjálfsagt ekki um mikilvægasta mál þessarar þjóðar að ræða. Allavega komst þessi þjóð af í 1000 ár án þess að fara á bíó. En það fara þó nokkuð saman velgengnisár þessarar þjóðar og saga kvikmyndanna. En af því að hérna hefur spunnist örlítil umr. út af spurningunni um réttlætismörk gat ég eiginlega ekki á mér setið að koma hér aftur í ræðustól.

Það eru ákveðin örlög höfuðborga að oft er litið á þær eins og þær séu ekki hluti af því landi sem þær þjóna, sbr. hugtakið landsbyggðin og síðan Reykjavík rétt eins og Reykjavík sé ekki byggð á þessu landi. En þegar maður hugleiðir eðli þessa skatts sem er skattur á neytendur gæti maður út af fyrir sig alveg hugsað réttlætismörkin einhvers staðar í kringum 150 þús. manna byggð sem þýddi að fella mætti hann algerlega niður því að þessi skattur fjallar í raun og veru fyrst og fremst um möguleika einstaklingsins til að njóta þessarar skemmtunar en ekki möguleika fjöldans. Og að því leyti væri alveg réttlætanlegt að einstaklingur í Reykjavík hefði sömu möguleika og einstaklingur annars staðar á þessu landi til að njóta þessarar skemmtunar og þörf hans, ef þörf er fyrir hendi á annað borð, alveg jafn mikil. Því að ekki er heldur hægt að hugsa þá hugsun rökrétt að það hafi einhverjar óheillavænlegar afleiðingar fyrir kvikmyndahús úti á landi þó að hið sama gildi fyrir kvikmyndahús hér í Reykjavík. Þau taka ekki neitt frá þeim í þeim skilningi þó að þessum skatti væri aflétt af þeim líka.