26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þm. Alþfl. að flytja þáltill. sem fjallar um athugun á möguleikum íslenskra fiskiskipa til veiða í erlendri fiskveiðilandhelgi. Samhljóða till. var flutt í fyrra og hittiðfyrra, en varð ekki útrædd.

Með leyfi forseta er till. svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að kanna möguleika á kaupum veiðileyfa og öflun veiðiaðstöðu fyrir íslensk fiskiskip í fiskveiðilögsögu ríkja í Norður-Ameríku og Vestur-Afríku“.

„Svört skýrsla“ Hafrannsóknastofnunar, sem gerð var opinber í haust, minnti okkur á hve ástand fiskistofna umhverfis landið er alvarlegt. Ofveiði og versnandi skilyrði í sjónum hafa á undanförnum árum haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og má búast við að þessi staðreynd verði íslensku þjóðarbúi mikill fjötur um fót næstu árin. Viðbrögð við svörtu skýrslunni voru þau að binda allar veiðar leyfum og stefnt er að því að veiða um 100 þús. tonnum minna af þorski á þessu ári en í fyrra. Kvótakerfi, eins og fyrirhuguð stjórn fiskveiða hefur verið nefnd, mun hafa það í för með sér að fjöldi fiskiskipa verði verkefnalaus eða verkefnalítill á árinu. Menn hafa loksins almennt gert sér ljóst að fiskiskip eru of mörg.

Í umr. um þessa till. í fyrra kom fram að allt væri í himnalagi, við ættum jafnvel að fjölga skipum, stækka skip og endurbyggja. Þessar raddir eru að mestu þagnaðar, en syndir fyrri ríkisstjórna sitjum við uppi með. Ég ætla ekki að tíunda hvernig með þessi mál var farið þá, en ég leyfi mér þó að fullyrða að þar hafi verið framin mörg óþurftarverk. En nóg um það.

Rætt er nú um að togarar þurfi að liggja mikinn hluta ársins í landi verkefnalausir, sem hlýtur að vera okkur áhyggjuefni. Því þykir okkur flm. rétt og hefur þótt það undanfarin ár að Alþingi feli ríkisstj. að kanna alla hugsanlega möguleika til að afla flotanum verkefna á nýjum slóðum, bæði til að nýta þessi stórvirku atvinnutæki og til að forða svo mörgum sjómönnum frá atvinnuleysi sem hugsanlegt er.

Það er ekki mjög langt síðan við Íslendingar stunduðum bæði loðnuveiðar og reyndar þorskveiðar líka í Barentshafi. Við stunduðum karfaveiðar við Nýfundnalandsstrendur. Það er ekki ýkjalangt síðan íslenskir útgerðarmenn gerðu út á síld við austurströnd Bandaríkjanna. Þar reið á vaðið einn af frumkvöðlum íslenskrar útgerðar á síðustu áratugum, Einar Sigurðsson. Hans skip stunduðu þessar veiðar í 1–2 ár. Þá minnist ég þess að við höfðum stundað miklar úthafsveiðar á Grænlandshafi við Bjarnarey og einnig stunduðum við lúðuveiðar við Grænland. Segja má því að Íslendingar hafi nokkra reynslu af úthafsveiðum og gáfu þær mikinn arð í aðra hönd á sínum tíma.

Vitað er um nokkur ríki sem aflað hafa sér tímabundinna heimilda til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi annarra ríkja. Má þar t.d. nefna bæði Japana, Kóreumenn og Austur-Evrópuþjóðir. Það er t.d. alkunna að pólsk fiskiskip hafa nú aftur fengið heimild til þorskveiða út af austurströnd Bandaríkjanna. Afla sinn selja þessi skip að nokkru leyti til bandarískra fyrirtækja. Annað dæmi sem kunnugt er er þátttaka íslenskra nótaveiðiskipa í veiðum á vegum eigenda norska verksmiðjuskipsins „Norglobal“, sem hér kom töluvert við sögu loðnuveiða á sínum tíma. Þær veiðar áttu sér reyndar stað í fiskveiðilögsögu Máritaníu.

Í till. okkar er Vestur-Afríka tilgreind sérstaklega. Fyrir skömmu frétti ég hins vegar að Þjóðverjar veiða humar við strendur Sómalíu, sem reyndar er í Austur-Afríku. Þessar veiðar eru stundaðar með góðum árangri. Mér er kunnugt af viðræðum við þýska þm. að hugsanlega gætu Íslendingar fengið leyfi til veiða við strendur Sómalíu. Það er langt þangað og mörgum finnst þetta fjarrænn möguleiki, en eitt er víst, að Þjóðverjar telja þetta arðbærar veiðar. Hvers vegna ekki að kanna þessa möguleika? Gæti þetta ekki orðið arðbært fyrir okkur líka — eða þá við strendur annarra ríkja?

Við strendur Sómalíu veiða Pólverjar einnig. Reyndar hafa þeir aðgang að móðurskipi, en sú staðreynd að Pólverjar sækja á fiskimið annarra ríkja víða um heim sýna okkur að eftir einhverju er að sækjast.

Það má geta þess að fyrir fáeinum árum voru hér á landi á ferð fulltrúar stjórnvalda í Líberíu sem vildu efla til samvinnu við erlendar þjóðir um fiskveiðar í landhelgi síns heimalands.

Þegar umræða um stöðvun hvalveiða stóð sem hæst á Alþingi barst óformlegt boð frá Bandaríkjunum þess efnis að íslensk skip gætu fengið veiðiheimildir við strendur Bandaríkjanna gegn því að Íslendingar létu af hvalveiðum. Síðan mun hafa borist staðfesting á þessu boði og málið sent LÍÚ til umsagnar.

Okkur flm. er kunnugt um að undirtektir útvegsmanna eru jákvæðar. Á 44. aðalfundi LÍÚ, sem haldinn var á Akureyri 2.–4. nóv. s.l., var rætt um öflun veiðiheimilda á fjarlægum svæðum og eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

„Aðalfundurinn felur stjórn samtakanna að kanna hvort hægt sé að afla veiðiheimilda á fjarlægum svæðum, svo sem við Bandaríki Norður-Ameríku og Afríku“.

Vegna tilboðs Bandaríkjamanna, sem vafalaust hafði áhrif á marga þm. þegar hvalveiðimálin voru til umræðu hér, spyr ég: Hefur eitthvað verið gert til að fylgja málinu eftir? Ætla má að lítið fari fyrir því, en fróðlegt væri að fá vitneskju um hvort eitthvað hefur skeð í þeim málum.

Sú skoðun hefur heyrst að óhugsandi sé að fá veiðiheimildir við strendur Bandaríkjanna án þess að þeir fái gagnkvæm réttindi hér við land. Þetta tel ég að sé misskilningur — eða hver hefur heyrt af veiðum Bandaríkjamanna við strendur Póllands? Þær fyrirfinnast ekki.

Hvað getum við boðið ríkjum t.d. í Afríku í stað veiðiheimilda? Jú, auðvitað gætum við boðið þeim að kenna þeim fiskveiðar. Slík þróunarhjálp, sem hægt væri að nefna svo, væri þeim mikils virði. Okkur væri mikils virði að fá að nýta vannýtta fiskistofna hjá þeim. Kanna þarf hvort ekki er víða um svo gagnkvæma hagsmuni að ræða.

Tilgangur þessarar þáttill. okkar er fyrst og fremst að það verði gengið úr skugga um hvort finna megi flota okkar, sem auðsjáanlega hefur of lítil verkefni hér, verkefni á fjarlægum miðum. Áreiðanlegt er að samfara því koma í ljós ýmis vandamál, en það er skoðun okkar flm. að íslenskir sjómenn og útgerðarmenn muni sigrast á þeim.

Þessa till. höfum við borið fram hvað eftir annað, en þrátt fyrir góðar undirtektir alþm. hefur ekki tekist að afgreiða hana. Nú hefur margt skeð einmitt á síðasta ári sem mælir mjög sterklega með því að till. verði samþykkt. Í fyrsta lagi nefni ég tilboð Bandaríkjamanna í tengslum við hvalveiðibannið. Í öðru lagi hefur LÍÚ nú í fyrsta skipti ályktað um málið og talið brýnt og hagkvæmt að kanna það. Í þriðja lagi hafa verkefni fiskiskipaflota okkar stórminnkað og verða skipin verkefnalaus nú í ár, jafnvel í marga mánuði.

Það kann hjá mörgum að virðast fjarlægur möguleiki að íslensk fiskiskip hefji veiðar við strendur Bandaríkjanna eða Afríku, en þetta gera aðrar þjóðir í ríkum mæli og telja mjög hagkvæmt. Fyrsta skrefið er að kanna hvort möguleikar eru á því að nýta íslenska fiskiskipaflotann eða hluta hans með þeim hætti sem till. okkar gerir ráð fyrir.

Ég legg til að að loknum umr. verði till. vísað til hv. atvmn.