31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

146. mál, umhverfismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Við fsp. hv. 7. landsk. þm. á þskj. 196 er svar mitt þannig: Í samkomulagi sem gert var á milli stjórnarflokkanna við myndun ríkisstj. var eitt atriðið að sett yrðu lög um umgengni á landinu, verndun náttúru og auðlinda og áhersla yrði lögð á að auka gróður landsins. Í samræmi við þetta samkomulag ákvað ríkisstj. að leggja fram frv. til l. um umhverfismál og var félmrh. falið að setja það mál í gang með því að skipa í það sérstaka nefnd. 12. sept. s.l. var sú nefnd skipuð til að semja frv. til l. um umhverfismál. Í nefndinni eiga sæti Hermann Sveinbjörnsson deildarstjóri, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Markús Einarsson veðurfræðingur, Ólafur Dýrmundsson ráðunautur, Salome Þorkelsdóttir alþm. og dr. Sturla Friðriksson erfðafræðingur.

Það er rétt að rekja forsögu þessa máls nokkuð vegna þess að hún kemur inn í umr. Hún er sú, að hinn 4. mars 1975 skipaði þáv. ríkisstj. nefnd til að endurskoða og samræma ákvæði laga um umhverfis- og mengunarmál í því skyni að sett yrði heildarlöggjöf um þau efni og kveðið á um hvernig stjórnarfyrirkomulagi skyldi háttað á þessu sviði. Í nefndina voru skipaðir Gunnar G. Schram prófessor, sem var formaður, Knútur Hallsson skrifstofustjóri, varaformaður, Árni Reynisson framkvæmdastjóri, Edgar Guðmundsson verkfræðingur, Hjálmar R. Bárðarson siglingamálastjóri, páll Líndal borgarlögmaður, Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri og Þórður Ásgeirsson skrifstofustjóri. Nefndin samdi frv. til l. um umhverfismál sem Gunnar Thoroddsen þáv. félmrh. mælti fyrir á Alþingi í maí 1978 samkvæmt sérstakri samþykkt þáv. ríkisstj. Frv. hlaut ekki afgreiðslu.

Þann 13. júlí 1981 skipaði Svavar Gestsson þáv. félmrh. nefnd sem falið var að semja frv. til l. um umhverfismát. Það átti m.a. að fela í sér að helstu flokkar þeirra yrðu settir undir eitt rn. Í nefndina voru skipaðir Árni Reynisson formaður, Eysteinn Jónsson fyrrv. ráðh. og dr. Gunnar G. Schram. Nefndin samdi frv. um umhverfismál og lagði það fyrir ráðh. 30. sept. 1981. Í jan. 1982 fól Svavar Gestsson þáv. félmrh. þeim Stefáni Thors arkitekt og Ingimar Sigurðssyni lögfræðingi að yfirfara frv. þetta. Þeir Stefán og Ingimar komust að þeirri niðurstöðu að verulegrar stefnubreytingar væri þörf frá því sem frv. gerði ráð fyrir og sömdu síðan drög að frv. til l. um stjórnun umhverfismála og lögðu fyrir ráðh. hinn 12. mars 1982.

Þetta er forsaga þessa máls. Framhald þess varð ekki lengra hjá fyrrv. ríkisstj. en þarna segir.

Þegar félmrh. skipaði fyrrgreinda nefnd til að semja frv. voru henni afhent öll þessi frv. og öll þau fylgigögn sem fylgt höfðu þeirri vinnu sem þar hafði farið fram og óskað eftir því að hún kannaði og samræmdi viðhorfin sem í þessum frv. hefðu komið fram og semdi eitt heildarlagafrv. til að leggja fyrir Alþingið sem nú situr.

Nefndin hefur enn ekki lokið starfi sínu, en ég reikna með því að stjfrv. um umhverfismál verði lagt fram samkvæmt ákvörðun ríkisstj. ekki síðar en í marsmánuði n.k. Tel ég þá mjög æskilegt að þingnefnd taki það frv,, svo og önnur slík sem hér hafa verið lögð fram eða kunna að verða lögð fram, til ítarlegrar umfjöllunar og athugunar því hér er vissulega um stórmál að ræða sem vanda þarf mjög vel til á allan hátt. Ég er fyllilega sammála hv. fyrirspyrjanda um það sem hjá honum kom fram í sambandi við þetta mál og þann forgang sem það þarf vissulega að hafa.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið á þessu stigi. Ég vil undirstrika að algjör samstaða er í ríkisstj. um þetta mál. Það frv. sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi og hv. 2. þm. Reykn. er 1. flm. að á ekkert skylt við ósamkomulag. Ég vænti þess að um þessi mál náist víðtækt samstarf hér á hv. Alþingi og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ekki dragist lengi, helst ekki lengur en fram í byrjun mars, að leggja fram heildarfrumvarpið um þessi mái. sem verður stjfrv., þannig að hægt verði að ræða ítarlega þessi mál á þessu þingi.