31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

146. mál, umhverfismál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hefja umr. um þessi mál á hinu háa Alþingi. Ég er sannfærð um að fá mál eru jafnbrýn og nauðsynleg og áhyggjur manna af eigin skemmdarverkum á móður jörð hafa sennilega aldrei verið meiri en einmitt nú.

Ég kom hins vegar hingað til að vekja athygli á því að ég fel að orðið sé mjög brýnt fyrir ríkisstjórn Íslands að leggja fram frv. til l. um breytingar á lögunum um stjórnarskrá Íslands í þá veru að stofnað verði umhverfismálaráðuneyti hér eins og annars staðar gerist, t.d. á hinum Norðurlöndunum. Það er áreiðanlega hemill á öllum aðgerðum í þessum málum að umhverfismál skiptast á a.m.k. þrjú rn. Þetta sýnir sig í alþjóðlegu samstarfi. Þar nægir t.d. að nefna, hæstv. félmrh., sem fer með umhverfismál, að haldin var í nóv. s.l. í Stokkhólmi ráðstefna umhverfismálaráðherra Norðurlandanna. Þar voru gerðar ályktanir um hin ýmsu mál; mengun sjávar, mengun í lofti og margt fleira. En því miður var þar enginn fulltrúi frá íslandi. Þar var hvorki ráðherra né embættismenn. Þetta er öldungis óþolandi. Við þm. fáum svo kannske fyrir hreina tilviljun upplýsingar um hvað samþykkt er á slíkum ráðstefnum. Það gefur þó auga leið að mjög nauðsynlegt er fyrir okkur hér að taka þátt í slíku samstarfi.

Ég vil benda mönnum á að ég hef flutt hér fsp., sem ég vona að verði tekin fyrir í næsta fsp.-tíma, um afstöðu Íslendinga til tillögu Norðurlandanna um afstöðu til mengunarmála, sem vekja nú ugg í hugum fjölda manna, mengunar frá endurvinnslustöðvum úrgangsefna frá kjarnorkuverum. Við skulum ekki ganga í neinni blekkingu um að við séum svo langt frá öllu að slík ósköp nái okkur ekki. Það er margsannað mál og vísindamenn hafa sýnt fram á að fólki og fé stendur stórhætta af t.d. endurvinnslustöðinni í Windscale í Bretlandi. Hafstraumar bera þetta fljótlega til okkar og í fiskinn í sjónum. Það er áreiðanlegt að Alþingi Íslendinga þarf að vera á varðbergi um öll þau mál er varða mengunarmál í heiminum. (Forseti hringir.) Ég skal ljúka máli mínu, forseti.

Ég vil þess vegna einungis ítreka að ég tel að fátt sé brýnna í breytingum á lögum um stjórnarskrá Íslands en að stofnað verði hið allra fyrsta umhverfismálaráðuneyti þar sem einn ráðherra bæri ábyrgð á þeim málaflokki.