31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

165. mál, sleppibúnaður björgunarbáta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við fyrri fsp., hvað líði uppsetningu löglegs sleppibúnaðar gúmmíbjörgunarbáta (Sigmundsbúnaðar) í íslensk skip samkv. reglugerð þar að lútandi:

Sjósetningarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta samkv. reglum var kominn í um 400 skip í lok jan. 1984. Frá vélsmiðjunni Þór hf. Vestmannaeyjum eru komnir í skip um 130 sjósetningarbúnaðir gúmmíbjörgunarbáta, frá Vélsmiðju Ol. Olsen hf. Njarðvík eru komnir í skip um 265 sjósetningarbúnaðir og um 3 sjósetningarbúnaðir frá Stálvík hf. í Garðabæ. Afgreiðslufrestur er nú hjá öllum þessu aðilum á Sjósetningarbúnaði og stöðugt verið að setja í fleiri skip eftir því sem afkastageta þessara framleiðenda leyfir. Siglingamálastofnun ríkisins hefur lagt megináherslu á að sjósetningarbúnaður verði sem fyrst settur í minni skipin. Ekki eru tök á að bíða með það. Þess vegna er sú leið farin sem nú er farin.