31.01.1984
Sameinað þing: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

374. mál, framkvæmd vegáætlunar 1982

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Skýrsla samgrh. um framkvæmd vegáætlunar 1982 var ekki tilbúin þegar þing var rofið og efnt var til kosninga á s.l. vori en ég lagði þessa skýrslu fram hér í byrjun desember og mun skýra hana í stórum dráttum.

Skv. vegáætlun 1981–1984 var heildarupphæð fjárveitingar til vegamála árið 1982 582.3 millj. kr. Þar sem verðforsendur höfðu breyst nokkuð frá því vegáætlun var samþ. árið 1981 var áætlun fyrir árið 1982 tekin til endurskoðunar. Við þessa endurskoðun hækkaði framlag til vegamála í 617.3 millj. kr. Hafði þá verið tekið tillit til niðurskurðar ríkisútgjalda upp á 7.8 millj. kr. Af þessari hækkun voru 20 millj. kr. í formi óafturkræfs framlags frá Framkvæmdastofnun ríkisins. Af þeirri upphæð fóru 10 millj. kr. til að verðbæta framkvæmdaliði skv. upphaflegri áætlun en 10 millj. kr. voru markaðar sérstaklega til svonefndra Ó-vega sem var nýr liður. Þessu til viðbótar voru veittar aukafjárveitingar úr ríkissjóði að upphæð 1.9 millj. kr., þar af 1.6 millj. kr. til Siglufjarðarvegar og 0.3 millj. kr. uppbót á launalið, stjórn og undirbúning. Ennfremur kom til viðbótar andvirði seldra happdrættisskuldabréfa vegna Norður- og Austurvegar, alls 3.9 millj. kr. Heildarútgjöld urðu þannig 623.7 millj. kr. og er það með því hæsta sem þau hafa orðið.

Markaðar tekjur voru skv. áætlun alls 389.7 millj. kr. Tekjur af bensíngjaldi voru áætlaðar 272.7 millj. kr. Þrátt fyrir mikla aukningu á bensínsölu á árinu varð innheimta 0.7 millj. kr. undir áætlun. Ástæður þess eru að hækkanir á bensíngjaldi komu mun seinna til framkvæmda en áætlunin gerði ráð fyrir. Tekjur af þungaskatti voru áætlaðar 116 millj. kr. en innheimta var 1.2 millj. kr. umfram áætlun. Þá voru tekjur af gúmmígjaldi 0.1 millj. kr. umfram áætlun. Alls urðu því markaðar tekjur 0.6 millj. kr. umfram áætlun.

Framkvæmdastofnun veitti óafturkræft framlag til vegagerðar. Helmingi þess fjármagns var varið til Óvega en hinn hluti þess fór á ýmsa framkvæmdaliði. Ríkisframlag var í vegáætlun 7.6 millj. kr. en hækkaði um 1.9 millj. kr. sem eru verðbætur á launalið stjórnar og undirbúnings að upphæð 0.3 millj. kr. og aukafjárveiting til Siglufjarðarvegar 1.6 millj. kr. Lánsfjáröflun önnur en bráðabirgðalán og vinnulán námu 200 millj. kr. skv. vegáætlun. Þar af fóru 170 millj. kr. til almennra framkvæmda og 30 millj. kr. til sérstakra verkefna, þ. á m. jaðarbyggðavega, hafísvega o.fl. Lánsfjáröflun hækkaði um 3.9 millj. kr. umfram vegáætlun sem er andvirði þess er inn kom af sölu happdrættisbréfa til Norður- og Austurvegar.

Að venju fór meginhluti fjárveitinga til viðhalds og nýbygginga á þjóðvegakerfinu. Til sumarviðhalds var varið 181 millj. kr. og er það meira að raungildi en áður hafði verið. Þrátt fyrir það er langt frá því að það fullnægi þörfinni. Undanfarin ár hafa fjárveitingar til viðhalds aðeins numið um eða undir 70% af áætlaðri þörf og meðan svo er hallar á ógæfuhliðina. Sést það best á því að öxulþungatakmarkanir á vorin færast enn í aukana á malarvegunum. Vorið 1982 þurfti víða að takmarka hann við 5 og 7 tonn og loka sumum vegum alveg um stundarsakir. Á fjölförnum vegum þurfti að takmarka þunga í allt að tvo mánuði.

Nokkurra breytinga verður vart í sumarviðhaldi sé það borið saman ár frá ári. Eftir því sem bundin slitlög lengjast og ná til fleiri af fjölfarnari vegum landsins er tiltölulega minna fé varið til heflunar en meira til mölunar, en viðhald slitlaga eykst jöfnum höndum. Á árinu 1982 var yfirborð nokkurra steyptra og malbikaðra vega fræst niður fyrir hjólför í stað þess að leggja yfir þá malbik. Var þetta verk boðið út og reyndist kostnaður um eða undir helmingi þess sem nýtt lag hefði kostað. Á árinu fór óvenjumikið viðhaldsfé til lagfæringar vegna vatnaskemmda sem urðu fyrst og fremst um vestanvert landið og í Öræfasveit.

Vetrarviðhald fór 11.5 millj. kr. fram úr áætlun og var það fyrst og fremst vegna óhagstæðs tíðarfars síðari hluta ársins. Það varð alls 56 millj kr.

Það hefur sýnt sig að batnandi vegir kalla á aukna þjónustu og breyttar umferðar- og flutningavenjur og hefur vetrarviðhald því ekki farið minnkandi að undanförnu. Sömu vegirnir eru dýrastir í viðhaldi ár frá ári og má af þeim nefna veginn um Hellisheiði, Breiðdals- og Botnsheiði, Oddsskarð og Fjarðarheiði, Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarveg.

Eins og ætíð þegar verðbólga verður meiri en áætlað er gengur það fyrst og fremst út yfir nýbyggingar. Það verður því ekki sagt um þær eins og viðhaldið að þær hafi náð hámarki árið 1982 enda þótt hlutur þeirra hafi verið tiltölulega góður. Fjárveitingar til vega, brúa og fjallvega námu alls 311.7 millj. kr. sem er 26 millj. kr. lægri tala en árið áður miðað við sama verðlag. Hluti af þessu mun stafa af því að ríkisstj. ákvað að fresta framkvæmdum á þessu ári að upphæð 7.8 millj. kr.

Ekki verða hér taldar upp einstakar framkvæmdir ársins enda þær tíundaðar í skýrslunni. Fyrst og fremst verður drepið á hvernig þær skiptast í liði og gerð grein fyrir nokkrum þeirra.

Fjárveiting til nýbygginga á þjóðvegum landsins var skv. vegáætlun 263.5 millj. kr. Af henni fengu stofnbrautir 209.3 millj. kr., þjóðbrautir 39.9 millj. kr. og Óvegirnir svokölluðu 10 millj. kr. en afgangurinn fór til girðinga og uppgræðslu. Stofnbrautaféð skiptist að vanda milli almennra verkefna, bundinna slitlaga og sérstakra verkefna. Hlutur almennu verkefnanna var nokkru stærri en hinna. Geta má þess, að bundið slitlag var lagt á 144 km og var orðið í árslok 651 km. Mest var lagt á árinu á Norðurtandi eystra, á rúma 30 km, en á tæpa 30 km á Norðurlandi vestra, en minnst á Vestfjörðum 8 km.

Eins og að undanförnu fengu sérstök verkefni stærstu fjárveitingarnar. Heita má að einu slíku verkefni hafi verið lokið á árinu en það er Hafnarfjarðarvegur í Garðabæ. Á Hafnarfjarðarvegi hafa að undanförnu verið langflest umferðarslys á þjóðvegum, 140 á árinu 1983 eða 15.5% af skráðum umferðarslysum á þjóðvegum landsins. Margir aðrir kaflar sem eru hlutar af þessum sérverkefnum voru teknir í notkun en aðrir eru styttra á veg komnir enda þetta verkefni sem tekur mörg ár að ljúka. Af stórum verkefnum sem hafin var vinna við má sérstaklega nefna Ó-vegina tvo, þ.e. vegina undir Ólafsvíkurenni og í Óshlíð. Eins og áður er getið fengu þessir vegir 10 millj. kr. framlag frá Framkvæmdastofnun ríkisins.

Til brúargerða var varið 24.8 millj. kr., þar af 19.7 millj. kr. til brúa lengri en 10 m. Mesta brúargerðin var

á Svarfaðardalsá, en hún hófst 1981. Lokið var við brú yfir Eyjafjarðará hjá Hrafnagili sem einnig hófst 1981. Aðrar meiriháttar brýr voru á Jökulsá hjá Goðdölum og Fjarðará í Borgarfirði eystra. Til smábrúa var varið 5.1 millj. kr.

Fjárveiting til aðalfjallvega var 1.25 millj. kr. en 1.46 millj. kr. til annarra fjallvega. Taldir eru upp í skýrslunni þeir vegir sem fé var veitt til. Auk þess fengu þjóðgarðavegir og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum 1.25 millj. kr. og Bláfjallavegur 2.9 millj. kr. auk láns að upphæð 1 millj. kr. frá Framkvæmdastofnun.

Gerð er í skýrslunni grein fyrir ráðstöfun fjárveitinga til sýsluvega en hún nam 19.5 millj. kr. Fjárveiting til vega í kaupstöðum og kauptúnum var 43 millj. kr. 3/4 hlutum þess var skipt eftir höfðatölu milli 22 kaupstaða og 43 kauptúna með yfir 200 íbúa en fjvn. skipti fjórðungi fjárins milli 35 þéttbýlisstaða.