02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er nú ekki svo að þessi hæstv. ríkisstj. sem nú situr hafi staðið við sín kosningaloforð. Henni hefur þegar tekist að svíkja ýmis af þeim. Ég minni þar bara á húsnæðismálin. Um það veit ég að hv. þm. Agli Jónssyni er fullkunnugt. Þar hefur ekki verið staðið við þau loforð sem gefin voru. En vegna þess að hann vék að hv. þm. Karvel Pálmasyni í ræðu sinni áðan og kvaðst sakna nærveru hans í þingsölum nú um stundir vil ég að fram komi að hann þurfti að víkja af þingfundi til þess að sitja miðstjórnarfund Alþýðusambands Ístands þar sem menn eru að ræða nú á þessum válegu tímum í kjaramálum varnaraðgerðir gegn hinum hrikalegu kjaraskerðingum þessarar ríkisst . sem hv. þm. Egill Jónsson styður með ráðum og dáð. Ég veit ekki hvort honum finnst það frambærileg afsökun fyrir fjarveru um stundarsakir úr þingsölum en mér finnst það. (EgJ: Ég sagði þetta nú ekki með niðrandi orðum.) Nei, en engu að síður vék hv. þm. að því að hv. þm. Karvel Pálmason væri ekki staddur hér í salnum og því vil ég að þetta komi skýrt og greinilega fram.

Hæstv. félmrh. tók til máls áðan og greindi frá ýmsu af því sem verið er að vinna að í þessum efnum. Það er allt góðra gjalda vert. Þó að þessi ríkisstj. hafi svikið ýmis af sínum kosningaloforðum og loforðum sem hún gaf við upphaf síns ferils ætla ég ekki að vantreysta henni um alla hluti. Ég ætla að leyfa mér að hafa svolitla biðlund — hún er ekki búin að starfa mjög lengi — og láta á það reyna hvort hún gerir eitthvað í réttlætisátt í þessum mikilvægu málum, sjá þær tillögur sem hún mun leggja fram í þessum málum og sjá hvort þá verður staðið við þau hin stóru orðin. Ég ætla ekki að fella harða dóma yfir henni eftir þessa mánuði sem hún hefur starfað þó að hún hafi ekki komið öllu fram í þessum efnum. Þetta eru flókin mál og ekki á öllum sviðum mjög auðveld viðfangs. Það verður líka að sýna svolitla sanngirni í pólitík eins og annars staðar í mannlegu lífi.

Varðandi þá till. sem hér er til umr. þá er þetta auðvitað skynsamleg till. Hún skiptist í 4 efnisþætti sem hefur verið rækilega gerð grein fyrir þegar í þessum umr. og ég ætla ekki að endurtaka en að efni til og stofni er þetta skynsamleg till. Hún er vandlega unnin, a.m.k. á ytra borði, full af fskj., töflum, súluritum, línuritum og öllu sem nöfnum tjáir að nefna á því sviði þó að hún sé kannske óvenjulega þunnt plagg miðað við þá doðranta sem hv. 1. flm., fyrrv. iðnrh., beindi hér á borð þm. öllum stundum. Allt er gott um till. og hennar efni. En hvað þá?

Það sem mér finnst miður geðfellt í þessu sambandi er sá tvískinnungur og, ég vil leyfa mér að segja, sú bíræfni sem felst í þessum tillöguflutningi. Hv. 1. flm. þessarar till. hefur gegnt embætti iðnrh. um margra ára skeið, nánast allar götur síðan 1978 með einu stuttu hléi. (HG: Hver stóð fyrir því?) Já, við stóðum fyrir því og kannske hefði það hlé á setu hv:. þm. Hjörleifs Guttormssonar í stóli iðnrh. að ósekju mátt vera miklu lengra en við fengum því ekki ráðið. En hvað þá? Hvers vegna gerði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ekki það sem hann nú vill gera þegar hann gegndi embætti iðnrh.? Hvers vegna var þetta ekki gert þá? Hvers vegna var ekki búið að þessu fyrir löngu? Það er þessi tvískinnungsháttur, þessi bíræfni, sem sumir mundu kannske segja að jaðraði við fullkomna ósvífni, hafandi verið fáa mánuði í stjórnarandstöðu og segja: Nú get ég leiðrétt öll þessi mál í einni svipan. Af hverju var ekkert gert allar götur síðan 1978? Kannske er fulldjúpt í árinni tekið að segja að ekkert hafi verið gert. Ég skal draga í land með það. En lítið var gert.

Ég minni hv. þm. Hjörleif Guttormsson á að þm. Alþfl. á þessu tímabili fluttu fjölmargar till. til lækkunar og jöfnunar hitunarkostnaðar. En hvað gerði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þegar hann vermdi stól iðnrh. hér mér til vinstri handar? Hann rétti upp hendina og greiddi atkv. gegn þessum till.

Ég veit ekki hvort menn halda að svona framkoma í pólitík sé til þess fallin að vera af hinu góða. Ég held þvert á móti að ekki þýði að bjóða fólki upp á svona framkomu. En þetta hafa hv. þm. Alþb. sýnt að undanförnu mætavel. Þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu er blaðinu allt í einu gersamlega snúið við. Í dag höfum við allt aðra skoðun en við höfðum í gær. Í dag erum við í stjórnarandstöðu, í gær vorum við í stjórn og þess vegna höfum við aðra skoðun í dag en við höfðum í gær. Þýðir að bjóða íslenskum almenningi, vel upplýstu fólki, svona háttalag? Þessi till. sem hér er til umr. er dæmigerð fyrir svona framkomu. Ég held að það sé liðin tíð í íslenskri stjórnmálabaráttu að það þýði að haga sér svona. En þeir sem það vilja geta auðvitað haldið því áfram til eilífðarnóns og vonandi gera þeir það vegna þess að ég held að það verði þeim ekki til framdráttar, nema síður sé.

En ég endurtek að þetta er skynsemdartillaga. Hún hefði bara betur verið fyrr fram komin og hún hefði betur verið fyrr framkvæmd. Ég skal ekki, herra forseti, tefja þessar umr. mjög lengi. En svo sem aðrir sem hafa talað á undan mér legg ég þunga áherslu á það hversu mikið réttlætismál hér er um að ræða. Rifjast þá upp í huga mínum þegar hitaveita kom á Akranes og til Borgarness, hið mesta þjóðþrifafyrirtæki þótt dýrt sé og erfitt að standa undir afborgunum á tímum hágengis dollara. Þá sögðu menn: Þessar krónutöluhækkanir sem við höfum verið að fá í launaumslögin eru ekkert miðað við þá kjarabót sem lækkun hitakostnaðarins hefur verið. Þetta er auðvitað meginatriði í málinu.

Það eru mörg ár síðan ég benti á t.d., og var ekki einn um það, til hverrar búseturöskunar í landinu það mundi leiða ef þetta misræmi héldist og hversu dýr sú búseturöskun mundi reynast, ekki aðeins íbúum þeirra svæða sem flutt væri til heldur íslensku þjóðinni allri vegna þess að það er mál þjóðarinnar allrar að jafna þennan kostnað. Jöfnun og lækkun þessa kostnaðar er eitthvert mesta réttlætismál sem nú er á döfinni í íslensku þjóðfélagi. Þessi mikli munur sem menn búa við er sömuleiðis eitthvert mesta ranglæti sem nú er við lýði í íslensku þjóðfélagi. Þess vegna fagna ég þeim yfirlýsingum sem gefnar voru áðan af hálfu hæstv. ríkisstj. að verið sé að vinna að þessu. Ég veit að innan ríkisstj. eru áhugamenn um leiðréttingu á þessu sviði og enn um sinn ætla ég að leyfa mér að sýna henni svolitla biðlund og sjá hvort á næstu vikum koma ekki fram frá henni till. til úrbóta í þessum efnum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.