02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég tek eindregið undir þá meginstefnu til jöfnunar hitakostnaðar um landið sem er komið að í þessari till. til þál. Eins og hefur komið fram í umr. er mismunur á húshitunarkostnaði á Íslandi einn þeirra þátta sem raska lífskjörum á Íslandi stórkostlega og skipta fólki í kjarafylkingar sem ráðast ekkert af launakjörum þess. Við höfum um þessa þætti ýmis fleiri dæmi. Á hv. Alþingi hefur áður í vetur verið vikið að atriðum eins og húsnæðismálum, skattamálum og því hvort ein eða tvær fyrirvinnur eru á heimili. Þessir þættir vega svo þungt í því að skipta fólki upp í lífskjarafylkingar að það liggur við að manni finnist hjákátlegt að horfa upp á að fólk skuli þurfa að takast á í miklum átökum í kjarasamningum um kannske örfá hundruð kr. þegar einstakar fjölskyldur búa við ójöfnuð upp á þúsundir króna vegna þessara þátta sem var vikið að hérna að framan eins og húsnæðismála og húshitunarkostnaðar.

Hérna hefur verið rætt og rifist mikið um orkuverð, stefnu undanfarinna stjórna og ástæður okkar fyrir háu orkuverði. Ástæðurnar fyrir þessu háa orkuverði eru náttúrlega margar. T.d. er gífurlega hröð fjárfesting í orkuframkvæmdum og lítið eigið fjármagn. Tekjur okkar af þeim samningum sem við þegar höfum um orkusölu til stóriðju eru lágar og óverulegar. Þetta leiðir hugann að því t.d. hversu skynsamlegt er að byrja nú á einni virkjuninni enn mitt í því ástandi í orkumálum sem um er rætt.

Ég ætlaði aðeins að koma aftur að óskamáli mínu sem er orkusparnaður. Mikið hefur verið rætt og ritað um orkusparnað. Birtar hafa verið tölur um gífurlega fjármuni sem hefur verið varið á undanförnum árum til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Einnig hefur komið fram að þörf er á að gera miklu betur og veita miklu meira fé til þessa málaflokks ef á að jafna þann lífskjaragrunn sem fólkið í landinu stendur á. Þess vegna eru þær upplýsingar sem á undanförnum misserum hafa verið að berast um orkunýtingu í húshitun kærkomnar. Ég minni á nýlega könnun sem var gerð á Vesturlandi og kannanir sem hafa verið gerðar á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og eru með á fskj. í þál.

Augljóst er að þetta þjóðfélag sem nú telur sig vera í miklum kröggum hlýtur að gera skilyrðislausar kröfur til þess að húsaeinangrun verði stórlega bætt frá því sem nú er. Það getur ekki verið að við höfum hreinlega efni á því að láta orkuna nýtast jafnilla og hún gerir. $g held að við höfum þegar nægar upplýsingar í þessum húseinangrunarmálum til að hrinda með litlum fyrirvara af stað miklu átaki til að bæta húseinangrun. Ég held líka að það sé girnileg ráðstöfun, ekki síst með tilliti til versnandi atvinnuástands víða um land. Því vil ég leggja mikla áherslu á að ég tel að bæði þeim fjármunum sem nú þegar er verið að verja til húshitunarjöfnunar og þeim fjármunum sem hugsanlega verður varið til viðbótar á þessu sviði á næstu misserum megi ekki sóa á þann hátt sem víða virðist gerast.

Í þessum umr. hefur verið vikið dálítið að till.

Bandalags jafnaðarmanna í orkusparnaði sem voru til umr. í síðustu viku. Þær gerðu ráð fyrir hagstæðum lánum til húseigenda og að það yrði skilyrði fyrir greiðslum til húshitunarjöfnunar að viðunandi einangrun hefði verið náð. Ef sýnt væri að viðunandi einangrun væri ekki hægt að ná í byggingu, t.d. vegna þess að hún væri svo gömul eða á einhvern hátt þannig úr garði gerð, væri eðlilegt að fjalla sérstaklega um slík tilfelli. En einhver arðsamasta aðgerð sem við gætum gert í okkar orkumálum í dag hlýtur að vera að einangra hús betur.

Það er líka mikilvægt atriði í þessum till. Bandalagsins að þessar orkujöfnunargreiðslur nái ákveðnu hámarki, þ.e. þak sé á þeim. Þetta þak má jafnvel miða við húsastærð eða fjölskyldustærð eftir því sem við á.

Svo er líka mikilvægt atriði í þessum till. að orkutaxtar séu ekki niðurgreiddir sjálfir heldur að niðurgreiðslum orkunnar sé komið til notenda á annan hátt. Þetta er mikilvægt vegna þess að það hefur sýnt sig að flakk með orkutaxta hefur valdið skuldasöfnun og rekstrarerfiðleikum hjá orkufyrirtækjum. Því tel ég rétt að söluverð orkufyrirtækjanna sé kostnaðarverð að viðbættu því sem má telja eðlilegan kostnað við rannsóknir og útþenslu veitukerfa t.d. en að niðurgreiðslum verði síðan komið til notenda utan orkutaxtanna sjálfra.

En ég lýsi fylgi mínu og okkar Bandalagsmanna við megintilgang þessarar þáltill. sem er jöfnun hitakostnaðar vegna þess að ég legg áherslu á að það er næstum því sárgrætilegt að á sama tíma og yfirlýst stefna allra stjórnmálaflokka í landinu er að stuðla að jöfnun lífskjara í þessu landi skuli vera einstakir málaflokkar, eins og ég nefndi húsnæðismál og hitunarmál, skattamál o.fl., sem valda svo stórkostlegum ójöfnuði, svo stórkostlegu misræmi milli fólks og milli landshluta að átök um krónahundruð í launasamningum verða næstum hjákátleg. Ég hef lokið máli mínu.