07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

414. mál, varnir gegn mengun sjávar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Norðurlandaþjóðirnar beittu sér fyrir atþjóðtegri ráðstefnu um umhverfismál í Stokkhólmi árið 1971, þar sem ákveðið var að gera samning um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum. samningur þessi var undirbúinn hér í Reykjavík í des. 1971 og samþykktur í Osló 15. febr. 1972. Ekki hafði í fyrstu tekist víðtækt samstarf um samninginn utan Norðurlandanna, en að lokum fór svo að tólf ríki sem aðild áttu að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni ákváðu að gera slíkan samning. Frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. að staðfesta samninginn varð að lögum 4. apríl 1973 og er þessi samningur ævinlega nefndur Oslóarsamningurinn.

Árið 1972 var haldinn fundur í London og þar var gerður samningur um víðtækari varnir gegn mengun hafsins og jafnframt unnið að því að fá fleiri þjóðir til samstarfs. Samningur um varnir gegn mengun hafsins vegna Losunar úrgangsefna og annarra efna í það var undirritaður 29. des. 1972, svokallaður Lundúnasamningur, og fékk ríkisstjórn Íslands heimild til staðfestingar hér á hinu háa Alþingi 16. apríl 1973. Tekur þessi samningur til geislavirkra úrgangsefna sérstaklega, en Oslóarsamningurinn gerði það ekki.

Síðan hefur Alþingi samþykkt frekari viðaukabókanir við þessa samninga. Embætti siglingamálastjóra hefur annast framkvæmd þessara samninga þar sem ekki er sérstakt umhverfismálaráðuneyti hér í landi.

Árið 1974 var gerður samningur í París um mengun sjávar frá landstöðvum og samþykkti Alþingi staðfestingu hans 8. maí 1981. Er sannarlega ánægjulegt til þess að vita að Íslendingar hafa frá upphafi tekið þátt í þessu starfi. Í Parísarsáttmálanum er sérstaklega getið geislavirkra úrgangsefna, auk fjölda annarra efna sem sýnt er að valdi lífríki jarðarinnar skaða. Aðilar samningsins taka sér þá skyldu á herðar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir losun þeirra í haf og umhverfi.

Norðurlandaþjóðirnar hafa áður borið fram tillögu um bann við losun geislavirkra úrgangsefna í höfin á fundi um Lundúnasáttmálann og var samþykkt tveggja ára bann við slíkri losun í febrúar 1983 meðan fram færu rannsóknir á umfangi mengunar. Áður höfðu nokkur lítil eyríki í Kyrrahafinu borið fram tillögur sem ekki náðu samþykki.

Árið 1947 var ákveðið að byggja fyrstu kjarnorkuvopnaverksmiðjuna í Englandi, í Cumberland, og árið 1952 var byggð önnur verksmiðja á vesturströnd Bretlands, sem nefnd er Windscale-verksmiðjan og vinna á hágeislavirk úrgangsefni frá kjarnorkuvopnaverksmiðjunni í geymsluhæft og endurnýtanlegt form. Ekki liðu mörg ár þar til menn gerðust uggandi um að Windscale-verksmiðjan væri nógu tryggilega búin tækjum svo að geislavirk efni kæmust ekki út í umhverfið. Önnur slík verksmiðja er raunar einnig á strönd Bretagne í Frakklandi, La Hague-verksmiðjan, en mælingar frá henni hafa ekki sýnt jafngeigvænlega geislun og frá Windscale.

Saga Windseale verksmiðjunnar er öll hin sorglegasta. Árið 1957 varð þar bruni sem talið er fullvíst að hafi orsakað 33 dauðsföll af völdum krabbameins. Síðan hafa mælingar sýnt að geislavirkni í fiski í Írska hafinu er t.d. fimm þúsund sinnum meiri en í fiski frá Íslandi. Bretar hafa þrjóskast við að gera úrbætur á tækjabúnaði verksmiðjunnar og nú er talið að allt að hálft tonn af plútónium liggi á hafsbotninum milli Írlands og Bretlands. Mælingar hafa þegar sýnt aukna geislavirkni í Norðursjónum og jafnvel allt norður í Barentshaf. Breska sjónvarpið BBC lét gera vandaðan þátt um Windscale á síðasta ári, sem vakti mikla athygli og nánast skelfingu. Kom þá m.a. í ljós að breski herinn hafði neyðst til að loka Írska hafinu um tíma vegna geislavirkrar froðu sem skolast hafði á land. Rannsóknir á ryki á heimilum í nágrenni verksmiðjunnar sýndu að hættulegt magn af plútónium var í því og síðast en ekki síst að tíðni blóðkrabbameins í börnum á svæðinu var fimmfalt hærri en annars staðar á Bretlandi.

Ég taldi rétt að upplýsa hv. þm. um þessar staðreyndir áður en ég kem að meginefni fsp. minnar, en danski umhverfismálaráðherrann, Christian Christensen, hefur haft forgöngu um að Norðurlandaþjóðirnar flytji till. á fundi um Parísarsáttmálann í júní n.k. þar sem öllum þeim þjóðum sem reka slíkar endurvinnsluverksmiðjur verði gert að nýta allan fáanlegan tækjakost til að hindra útfall geislavirkra efna. Verksmiðjur í Sovétríkjunum, Bandaríkjunum og Japan hafa mun fullkomnari tækjabúnað en Windscale-verksmiðjan, enda sýna mælingar að sams konar hættuástand hefur ekki skapast vegna verksmiðjanna þar. Öll þjóðþing Norðurlandanna hafa nú lýst yfir samþykki við slíka till. og til þess er fsp. mín flutt að sams konar svar liggi fyrir frá íslenska þinginu.

Það er okkur til sóma hversu vel hefur verið unnið af hálfu Íslands í þessum efnum, og á þar ekki lítinn hlut Hjálmar R. Bárðarson siglingamálastjóri. Það er því ákaflega mikilvægt að á tímum niðurskurðar og sparnaðar verði ekki skornar niður fjárveitingar til þátttöku í fundum áðurnefnds alþjóðasamnings. Það væri sparnaður sem gæti orðið okkur dýr er stundir líða fram.

Fsp. mín liggur frammi á þskj. 309. Hún hljóðar svo og er til hæstv. samgrh.:

„Hyggst íslenska ríkisstjórnin taka þátt í flutningi till., sem Norðurlandaþjóðirnar munu bera fram til vísinda- og tækninefndarinnar, á fundi um Parísarsáttmálann um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, sbr. lög nr. 67/1981, sem haldinn verður í júní n.k., um að fyrirtækjum, sem endurvinna úrgangsefni frá kjarnorkuverum, verði gert skylt að nýta öll fáanleg tæki til að koma í veg fyrir mengun geislavirkra efna í umhverfinu?“