15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2851 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta tekjuskattsfrv. en eins og kunnugt er er það aðalefni frv. að lækka tekjuskatt í þágu þeirra sem eiga og reka fyrirtæki eða fjárfesta í atvinnurekstri.

Að ósk okkar í stjórnarandstöðu var frv. þetta sent fjölmennustu launþegasamtökum landsins meðal annarra, þ.e. til Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Frá báðum þessum samtökum bárust umsagnir. Ég tel að umsagnir þessara aðila séu einkar athyglisverðar. Af þeirri ástæðu höfum við sem skipum minni hl. n. látið prenta álit þessi sem fskj.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands þakkar það tækifæri sem því er gefið til að segja álit sitt á framlögðum frv. um tekju- og eignarskatt og frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri.

Ríkisstj. hefur með markvissum aðgerðum tekist að fjarlægja fjórða hluta kaupgetu almenns launafólks. Í framhaldi af þeim drjúga árangri hefur verið ákveðið að auka skattbyrði tekjuskatts og útsvars um nálega 1.5% tekna á þessu ári.

Atvinnureksturinn nýtur hinna lágu launa enda hefur afkoma í flestum greinum, utan sjávarútvegs, sjaldan verið betri. Til að styrkja fyrirtækin enn frekar eru nú til umræðu till. um hækkun afskriftahlutfalla, skattfrelsi fjárfestingar í atvinnurekstri, arðs af hlutabréfum og fjár sem notað er til hlutafjárkaupa. Starfsmönnum skal einnig heimilt með skattfrelsi að kaupa hlutabréf í því fyrirtæki sem þeir starfa hjá, í þeim fáu tilfellum þar sem slík bréf kunna að vera til sölu. Til að tryggja að slík starfsmannafjárfesting fari ekki í rangan farveg er stjórn viðkomandi hlutafélaga tryggður fulltrúi í stjórn þess starfsmannasjóðs sem hlutabréfin kaupir.

Greinilegt er að umrædd frv. eru skýrt og markvisst framhald af fyrri ákvörðun stjórnvalda um tilflutning fjár í þjóðfélaginu. Stefnan hvílir öll á þeirri forsendu að fátækur maður, sem fær fé í hendur, sé líklegur til að nýta það í mat, klæði eða annað það sem þjóðfélaginu verður að litlu gagni. Sá ríki, sem lifir í vellystingum praktuglega, sé líklegri til að veita því í þjóðfélagslega nytsama framkvæmd.

Umsögnin er einföld: Tillögurnar eru eðlilegur þáttur í þeirri samfelldu stefnu ríkisstj. að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari. Alþýðusambandið getur ekki gert þá stefnu að sinni.“

Virðulegi forseti. Ég hef lesið hér allt bréf Alþýðusambands Íslands vegna þess að ég tel að þar komi kjarni þessa máls einkar skýrt fram. Ég held að þessi umsögn sé ekki síður athyglisverð fyrir þá sök að hún var samþykkt einróma á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 2. febr. s.l. en í miðstjórninni eiga sæti menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Menn skulu sem sagt ekki halda að afstaða manna til þessa frv. fari endilega eftir því í hvaða stjórnmálaflokki þeir eru eða hvaða stjórnmálaflokki þeir fylgja að málum. Í miðstjórn Alþýðusambandsins voru allir sammála um að fordæma þetta frv., hvaða skoðanir að öðru leyti sem þeir hafa á þjóðmálum. Þetta segir kannske meiri sögu en flest annað sem hægt er að segja um þetta frv.

Einnig er niðurstaða stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja mjög athyglisverð en sú stjórn er líka skipuð mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum. Þessi niðurstaða kemur fram í nál. okkar sem skipum minni hl. n. Vegna þess að hér er um niðurstöðu jafnmikilvægra samtaka að ræða og þessarar stjórnar og þar sem þar koma fram ýmsar ábendingar vil ég vekja sérstaka athygli deildarinnar á þeim sjónarmiðum sem þar koma fram með því að lesa þá umsögn í heild sinni, með leyfi virðulegs forseta:

„Stjórn BSRB hefur verið sent til umsagnar frv. til l. um breyting á lögum nr. 75 14 sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 21 23. mars 1983 um breyting á þeim lögum, og frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri.

Í því sambandi ályktar stjórn BSRB eftirfarandi:

Í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir hefur BSRB lagt sérstaka áherslu á kjör hinna lægst launuðu, sbr. 1. lið kröfugerðar BSRB dags. 10. jan. 1984 sem hljóðar svo:

„Þegar í stað verði bættur hlutur þeirra sem við lökust kjör búa og við það miðað að enginn hafi dagvinnulaun undir 15 þús. kr. á mánuði. Hluti kjarabóta að þessu marki mætti felast í breytingum án beinnar hækkunar launastigans, t.d. hröðun uppfærslu sérstaklega milli lægstu launaflokka BSRB, hækkun barnabóta og tekjutryggingar lífeyrisþega, neikvæðum tekjuskatti og hækkun skattleysismarka við álagningu tekjuskatts og útsvars.“

Eins og hér kemur fram telur BSRB að eins megi bæta kjör hinna lægst launuðu í gegnum breytingar á skattbyrði, þ.m.t. aukning neikvæðra skatta eins og með beinum kauphækkunum. Til að ígildi kröfunnar um 15 þús. kr. lágmarkslaun rúmist innan skattleysismarka miðað við árið 1983 og kaupmátt 15 þús. í sept. s.l. þyrftu skattfrelsismörk að hækka verulega.

Leggur BSRB áherslu á að hlutur láglaunafólks verði stórlega bættur með frv. þessum,en frv. stefna í gagnstæða átt. Frv. eru augljóslega sniðin með það í huga að létta skattbyrði atvinnurekenda og því telja stjórnvöld greinilega svigrúm fyrir hendi hjá ríkissjóði sem ætti fremur að verja til að gera stórátak í málefnum láglaunafólks.

Þá eru í frv. til l. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri nýmæli um starfsmannasjóði. Í 13. gr. frv. kemur fram að opinberir starfsmenn eru þarna undanskildir.

Stjórn BSRB vill taka fram að hún tetur starfsmannasjóði almennt mjög athyglisverða sem hluta úrlausna í atvinnu- og efnahagsmálum. Á hinn bóginn er það form þeirra sem fram er sett í frv. of þröngt og alls ófullnægjandi. Bandalagið er því andvígt frv. eins og það liggur fyrir.“

Ég hef sem sagt kynnt hér tvö einróma álit stjórna fjölmennustu launþegasamtaka þjóðarinnar ekki síst vegna þess að í þessum álitum báðum er komið að kjarna málsins og þessar álitsgerðir, þessar umsagnir, tala því máli sem við sem skipum minni hl. n. viljum flytja við þessa umr. Við nm. í minni hl. teljum sem sagt miklu brýnna að bæta kjör lágtekjufólks með breytingu á skattalögum en að veita atvinnurekendum enn frekari skattfríðindi.

Við minnum líka á þá gífurlegu kjaraskerðingu sem öllum er ljós og m.a. er nefnd í umsögnum þessara launþegasamtaka. Við minnum á að kjaraskerðingin bitnar því harðar á fólki sem tekjurnar eru lægri en ljóst er að þeir verst settu munu í engu geta notið þeirra fríðinda sem felast í því frv. sem hér er til umr., bæði vegna þess að þeir verst settu eiga ekkert til að leggja til hliðar og skattfríðindin eru bundin við þá eina sem greiða tekjuskatt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. en vísa til þess sem ég sagði við 1. umr. málsins og til annarra atriða sem fram koma í nál. okkar sem skipum minni hl. en það er fulltrúi Kvennalistans, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Eiður Guðnason 5. landsk. þm., fulltrúi Alþfl., og svo ég fyrir hönd Alþb. Ég vil láta þess getið að hér eru tvö mál á ferð og annað málið, það sem síðar er á dagskránni, er í beinum órjúfanlegum tengslum við málið sem nú er verið að ræða. Það liggur því í hlutarins eðli að vegna þess að við erum andvíg þessu frv. og leggjum til að það sé fellt erum við einnig andvíg frv. sem er meðfylgjandi og verður til umr. hér á eftir en höfum ekki séð ástæðu til að gefa út sérstakt nál. um það mál þar sem nánast er um sama málið að ræða.