15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Þessar umr. hafa á köflum verið nokkuð almennar, sem kannske er von, og lotið að ríkisstj. og stjórnarstefnunni og ýmsu fleiru. M.a. hefur verið spurt um það hvort ríkisstj. hafi verið kosin af meiri hluta þjóðarinnar. Það þarf í sjálfu sér ekkert að deila um þetta mál. Þetta mál er þannig, að að þessari ríkisstj. standa tveir flokkar sem kosnir voru af meiri hluta þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Ég er að orða það hvernig þetta sé til þess að glöggva þetta í hugum manna. Ríkisstj. hefur 37 stuðningsmenn í þinginu á móti 23, svo að það þarf auðvitað ekki að deila um það, að þetta er ríkisstj. sem styðst við sterkan þingmeirihluta. Talað hefur verið um það hvað menn hafi sagt fyrir kosningar. Ég vil rifja það upp hvað við í Framsfl. sögðum fyrir kosningar. Við sögðum að það þyrfti sterka ríkisstj. til þess að gera ráðstafanir, sérstaklega gegn verðbólgunni sem í raun og veru var að færa allt í kaf. Ég ætla ekki að rifja það upp í löngu máli núna hvernig þetta gekk til í fyrrv. ríkisstj. Það gekk einfaldlega þannig til að það var aldrei hægt að fá Alþb. til að taka þátt í neinum ráðstöfunum sem urðu að gagni í baráttunni við verðbólguna. Það var ósköp einfalt. Og þar við sat.

Ríkisstj. hafði það höfuðverkefni efst á sinni stefnuskrá, eins og raunar fyrrv. ríkisstj., að stuðla að því að koma verðbólgunni niður á stig, sem væri svipað því sem er í nágrannalöndunum, nákvæmlega sama stefnuskrá. En þessi ríkisstj. hefur tekið allt öðruvísi á málum en sú fyrri eins og kunnugt er. Það er ástæða til að velta því aðeins fyrir sér við umræður sem þessar hvað hefði skeð ef ekkert samkomulag hefði náðst í þinginu um að koma saman ríkisstj. sem markaði stefnu í því efni að hefta verðbólguna og koma henni niður. Hvað hefði skeð ef áfram hefði verið ósamkomulag um þessi mál? Ég held að það sem hefði skeð væri einfaldlega það í fyrsta lagi, að smátt og smátt hefði hallað á hina verri hlið hvað snertir þjóðarframleiðslu, rekstur fyrirtækja, þjóðartekjurnar, atvinnuöryggi o.s.frv., o.s.frv. Ég held að ef ekki hefði tekist í sumar að koma saman sterkum þingmeirihluta og sterkri ríkisstj. til að takast á við þetta, þessi mál og þetta ástand, þá hefði horft illa. Ég er ekki að segja að ekki hefði verið hægt að gera það með öðrum hætti en gert hefur verið, en ég álít að það hafi verið mjög þýðingarmikið að þetta tókst, mjög þýðingarmikið.

Ég hef trúað þeirri kenningu, sem ég held að Haraldur Guðmundsson hafi sett fram fyrstur, að verðbólgan gerði fátæka fólkið fátækara og þá ríku ríkari. Ég held að það sé rétt kenning í flestum tilvikum. Ég held nefnilega að fátæka fólkið hafi enga möguleika til þess að nýta sér verðbólgu. Hins vegar hafa þeir sem hafa betri efni möguleika til þess. Og það er það sem hefur verið að gerast í okkar þjóðfélagi um langan tíma. Þess vegna held ég ef gagnálykta má út frá þessu, að það að ná niður verðbólgu muni, þegar til lengri tíma er litið, valda meira jafnrétti í þjóðfélaginu heldur en hitt. Ég held að það hefði aukið á misréttið ef ekki hefði tekist að hemja verðbólguna.

Alþb. sagði fyrir kosningar að það þyrfti að setja á neyðaráætlun verðbólgu. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hægt hefði verið að ná verðbólgunni niður án þess að til kaupmáttarskerðingar kæmi hjá öllum. En hvað hefði gerst ef þetta hefði ekki verið gert? Auðvitað hefði orðið kaupmáttarskerðing, auðvitað hefði orðið upplausn í landinu. Og það lá í raun og veru ekkert annað fyrir eftir kosningar í vor um þingmeirihluta en þann sem varð eftir langa samningafundi.

Hvað varðar skilgreiningu á þessari stefnu, þá er ég þeirrar skoðunar að þessi meginstefna hafa verið eins konar málamiðlun milli þess sem hefur verið kallað niðurtalning, sem við í Framsfl. vildum beita, og leiftursóknar sem Sjálfstfl. markaði á sínum tíma. Um það hvor stefnan hefur verið meira ráðandi í þessu efni má að sjálfsögðu deila. Árangurinn er sá, að í dag búum við við svipaða verðtagsþróun og verðbólgu og nágrannaþjóðir okkar og viðskiptaþjóðir okkar yfirleitt og það er gífurlega mikill árangur.

Kaupmáttur launa hefur minnkað. En hann hefur ekki minnkað um þriðjung eins og hv. þm. Ragnar Arnalds var að tala um áðan, hafði það að vísu eftir öðrum. Það er ekki rétt. Það er ósatt. Hann hefur minnkað um 11–12% segir Þjóðhagsstofnun. Það er hið rétta og sanna. Hitt er ósatt. Hann hefur minnkað misjafnlega mikið hjá fólki e.t.v., en þegar á heildina er litið hafa ráðstöfunartekjur eða raunveruleg laun manna lækkað um 10–11%, eða 11–12%, ég man nú ekki hvort var. (Gripið fram í.) Nei, þetta er það sem Þjóðhagsstofnun, sem er alveg hluttaus stofnun í þessum efnum, setur fram og engin ástæða til að ætla að hún fari ekki rétt með. Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að kaupmáttur launa hafi minnkað um 10–12%, en hefði áreiðanlega lækkað meira ef ekkert hefði verið að gert og kannske enn þá meira hjá þeim sem síst skyldi, sem hefðu e.t.v. misst sína atvinnu. Varðandi launastefnu ríkisstj. er það að segja að hún hefur haft þá stefnu að hækka lægstu laun. Þegar hún tók við var ákveðið að ráðstafa 450 millj. kr. til hinna tekjulægri í þjóðfélaginu og fjmrh. sagði mér áðan að þessi upphæð væri áætluð á þessu ári 650–700 millj. Þetta er kannske ekki mjög mikið, en það er þó nokkuð í þá áttina að hækka launin hjá þeim lægra launuðu. Ég hef tekið eftir því að fjmrh. hefur boðið verulega miklu meiri launahækkun hjá þeim lægst launuðu en hjá hinum eða 13%. (Fjmrh.: 13.3%.) 13.3% hjá þeim en 3% hjá þeim sem hærri laun hafa eða 3.5%. Það er því ekki rétt að það hafi ekki verið viðleitni í þessa átt. Það hefur í raun og veru ekkert verið dregið úr velferð í þjóðfélaginu. Það hefur ekki verið gert. Það er svipuð stefna sem ríkir í ýmsum velferðarmálum, t.d. fræðslumálum, tryggingamálum og heilbrigðismálum. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að breyta nokkuð um stefnu í tryggingamálum í þá veru, að þeir sem virkilega þurfa þess með fái meiri tryggingar en nú er. Menn kalla þetta tryggingar og þetta eiga auðvitað að vera tryggingar til handa þeim sem þurfa á því að halda af einhverjum ástæðum. Það hefur verið erfitt að fá tryggingafræðinga til að telja að mögulegt væri að breyta tryggingakerfinu í þessa veru. Ég held að það hljóti að vera hægt, og ég held að það ætti að gera það, vegna þess að við Íslendingar verjum miklum fjárhæðum í þessu skyni eins og kunnugt er.

Frv. sem hér er til umr. er hluti af þeirri stefnu sem ríkisstj. markaði í sínum stjórnarsamningi. Tilgangurinn með frv. er auðvitað sá fyrst og seinast, að reyna að stuðla að því með löggjöf að fólk beini meira af fjármagni sínu inn í atvinnulífið, til þess að efla atvinnulífið, til þess að styrkja atvinnulífið, til þess að skapa meiri verðmæti sem gætu síðar orðið grundvöllur að hærri launum í landinu. Þetta er náttúrlega tilgangurinn fyrst og seinast. Og það er kannske sérstök ástæða til þess nú að gera ráðstafanir af þessu tagi vegna þess að þjóðartekjurnar hafa minnkað hjá okkur einmitt núna á síðustu tveimur árum verulega, eða um 11–12% að því er mig minnir, sem er náttúrlega gífurleg minnkun þjóðartekna og þjóðarframleiðslu.

Það sem er kannske helsta viðfangsefnið í framtíðinni, auk þess auðvitað að reka áfram okkar undirstöðuatvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað o.s.frv., það er að efla iðnaðinn í landinu. Þar er vaxtarbroddurinn sem menn koma helst auga á, ekki síst í sambandi við orkuna. En það er kannske vandasamara að efla iðnaðinn en að efla sjávarútveginn og landbúnaðinn, vegna þess að þær atvinnugreinar höfum við lagt stund á um aldir og áratugi, þekkjum þær og kunnum betur til verka en í ýmsum nýjum iðngreinum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að alltaf verða einhver mistök í sambandi við uppbyggingu nýs iðnaðar eins og hefur verið hjá okkur og mætti auðvitað nefna mörg dæmi þess, en það á ekki að hræða menn frá því að reyna að stuðla að því að beina fjármagni í iðnaðaruppbyggingu. Það er fyrst og seinast tilgangurinn með þessu frv. að beina fjármagni til framleiðslunnar, skapa meiri verðmæti sem geta síðar orðið grundvöllur fyrir bættum kjörum.