27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1984

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ekki hvarflar að neinum að neita því, að erfiðleikar hafa steðjað að vegna aflaleysis hér heima fyrir og vegna kreppuástands víða um heim. Rekstur ríkissjóðs hefur ekki farið varhluta af þessum erfiðleikum. En þrátt fyrir þessa erfiðleika og ekki síst með þá í huga er full þörf á því að rekstur ríkissjóðs sé áfram í góðu jafnvægi. Aðsteðjandi erfiðleika á og má ekki geta að tilefni til að hefja nú stórfelldan hallarekstur ríkissjóðs eins og gert var á seinasta áratug. Afgangur hjá ríkissjóði hefur verið það mikill undanfarin þrjú ár að þótt eitthvað harðni á dalnum nú í bili með samdrætti ríkistekna á ekki að vera þörf á að hopa lengra en svo, að tekjur og gjöld standist nokkurn veginn á. Miðað við allar aðstæður í ríkisbúskapnum er almennt þörf á því að einhver afgangur sé á hverju ári. Á sérstökum erfiðleikatímum verður hins vegar að láta sér lynda að reksturinn standi í járnum. Frekara undanhald en þetta, jafnvel stórfelldur halli, verður ekki skýrður með þeim breytingum einum sem stafa af breyttum aðstæðum. Þar kemur þá annað til eins og ég mun víkja að síðar.

Fjárlagafrv. er spegilmynd af stefnu ríkisstj. hverju sinni. Þessi stefnumótandi mynd hlýtur um leið að endurspegla álit ríkisstj. á því hvernig eðlilegt sé að verja sameiginlegum fjármunum þjóðarinnar. Fráfarandi ríkisstj. lagði þunga áherslu á hvers konar félagslegar umbætur, einkum í þágu aldraðra, öryrkja og þroskaheftra og annarra þeirra hópa sem minna mega sín. Reynt var, þrátt fyrir aðsteðjandi erfiðleika, að tryggja fólkinu í landinu óskerta félagslega þjónustu. Jafnframt var stöðugt leitast við að efla íslenska menningar- og listastarfsemi.

Sú spegilmynd af stefnu núv. ríkisstj. sem við horfum hér á sýnir verulega áherslubreytingu frá stefnu fráfarandi stjórnar. Segja má að einmitt þeir þættir sem fyrrv. stjórn lagði sérstaka áherslu á séu áberandi vanræktir í þessu frv. Á hinn bóginn koma nú til sögu mjög viðamiklir kostnaðarliðir sem verulega íþyngja. Munar þar mest um framlag til byggingar flugstöðvar að upphæð 104.5 millj. kr.

Til að átta sig betur á tölum eins og þeim sem ég nú nefndi væri kannske ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvað mætti gera við 105 millj. kr., en það er upphæðin sem ég nefndi áðan og verja á í allt of stóra hernaðarflugstöð á Keflavíkurvelli. Þá vil ég fyrst draga það fram, að framlag til dagvistunarheimila er 30 millj. kr. og hefur aðeins hækkað um 3 millj. frá seinustu fjárlögum. Framlög til allra flugvalla á landinu, öryggistækja, slitlags og annarra nauðsynlegra þátta nemur 51 millj. kr. Hækkun er aðeins 5 millj. kr. Til allra grunnskólabygginga á landinu er varið 108 millj. kr. Hækkun er aðeins 11 millj. Til allra sjúkrahúsabygginga er varið 111 millj. kr. Hækkun er aðeins 11 millj. Til listastarfsemi í landinu, undir liðnum Listir, er varið 35 millj. kr. Hækkun er engin. Til Framkvæmdasjóðs aldraðra og þroskaheftra er varið 42 millj. kr. Hækkun er aðeins 2 millj. Og til Framkvæmdasjóðs fatlaðra er varið 40 millj. kr., sem er óbreytt upphæð. Samtals gera þetta 417 millj. til þeirra þátta sem ég nefndi nú og meðaltalshækkunin er aðeins 8%.

Ef við hugsuðum okkur að allir þeir málaflokkar sem ég nú nefndi fengju eðlilega hækkun, nauðsynlega hækkun, 35% hækkun frá fjárlögum seinasta árs, sem ég tel vera þá hækkun sem raunhæf er miðað við sennilega þróun mála á komandi ári, mundi það kosta um 103 millj. kr. til viðbótar eða nokkurn veginn sömu upphæð og verja á til þessarar allt of stóru byggingar á Keflavíkurflugvelli.

Eins mætti velta því fyrir sér, hvað gera hefði mátt við áframhaldandi tekjur af skemmtiferðum til útlanda. Sennilega hefði álag á ferðagjaldeyri numið um 120 millj. kr. á næsta ári. Það hefði t.d. mátt nota það fjármagn til að leysa brýnan vanda íslenskra námsmanna heima og erlendis, sem nú verða fyrir þungum búsifjum.

Þetta fjárlagafrv. ber með sér með skýrum hætti að það er ætlun núv. ríkisstj. að sú kjaraskerðing sem dunið hefur yfir á liðnum vikum og mánuðum verði varanleg, að hún vari allt næsta ár. Í frv. virðist vera gert ráð fyrir að verðhækkun milli ára nemi að meðaltali um 26% og að laun hækki um 15%, en á árinu 1984 virðist vera gert ráð fyrir að verðlag hækki aðeins um 8% og laun um 11%. Tölur af þessu tagi eru vissulega varhugaverðar vegna þess að þær má nota í ýmiss konar samhengi. Ef talað er á máli frv. um þessa. hluti er þar sagt að verðlag verði 4% hærra að meðaltali á árinu en í ársbyrjun 1984. Það túlka ég svo, að verðlagsbreyting frá upphafi til loka ársins sé hugsuð einhvers staðar í kringum 8%. Sama gildir um launaforsenduna. Hún er talin vera 6% hærri að meðaltali á árinu en í ársbyrjun. En vafalaust má þá gera ráð fyrir að launabreytingin innan ársins sé einhvers staðar í kringum 11% frá sjónarmiði höfunda frv. Af þessum tölum er ljóst að kaupskerðingin á að vera varanleg, að menn eru að tala um að verðlagsbreytingin milli ára sé 26%, en launabreytingin aðeins 15%. Það bætist að sjálfsögðu við þá kjaraskerðingu sem var orðin á miðju þessu ári.

Þegar litið er á skattahlið frv. verður ljóst að ráðgert er að tekjuskattur stórhækki sem hlutfall af tekjum líðandi árs. Að vísu er engin skattvísitala finnanleg í fjárlagafrv. og hæstv. fjmrh. upplýsti að hann mundi á síðara stigi gera till. um skattvísitölu. Hann hefur raunar haft á orði að til greina komi að lækka beina skatta. En ef það er ætlun ríkisstj. að lækka beina skatta, þá er ljóst að tölur frv. um beina skatta eru villandi og alrangar. Laun eru í frv. áætluð að hækki um 15% milli ára, eins og ég tók fram áðan. Í fullu samræmi við það er gert ráð fyrir að óbeinir skattar hækki um 15.6% milli ára. Þetta er fullkomlega rökrétt vegna þess að af reynslunni vitum við að nokkurn veginn haldast í hendur tekjur af óbeinum sköttum annars vegar og breytingar á launum hins vegar. Þótt auðvitað geti þar nokkrir áhrifaþættir komið inn í sem einhverju skakka er meginreglan sú, að þarna er fullt samræmi á milli. En samkv. frv. virðist gert ráð fyrir að beinir skattar hækki um 26%, eignarskattur um 25.9% og tekjuskattur um 26.4%, og er þá ekki miðað við fjárlagafrv. fyrir árið 1983, heldur endurskoðaða áætlun um tekjur þessa árs.

Afkoma ríkissjóðs á árinu 1983 er vissulega of snemmt að segja nokkuð til um með vissu. Fjmrh. hefur verið að spá allverulegum halla á þessu ári og hafa verið nefndar tölur allt frá 800 millj. og upp í 1200 millj. Raunar er það svo, að við stjórnarskiptin nefndu stjórnarliðar miklu hærri upphæðir og áttu þó eftir að bæta við ýmist auknum útgjöldum eða minnkuðum tekjum um 800 millj. kr. Staðreyndin er sú, að staða ríkissjóðs í maílok á þessu ári var síst lakari en hún hefur oft áður verið, þó vissulega væri hún töluvert miklu lakari en á árinu 1982, sem er það ár sem best hefur komið út um áraraðir.

En þegar litið er á þennan halla, sem spáð er að verði á þessu ári, er rétt að velta því fyrir sér hvernig hann kynni að vera til komin. Ljóst er að þessi ríkisstj. hefur tekið býsna margar stórar ákvarðanir sem snerta afkomu ríkissjóðs. Hún ákvað að framkvæma vegáætlun óbreytta eins og fjvn. Alþingis hafði gengið frá henni og eins og fráfarandi ríkisstj. hafði einnig áformað, án þess að afla tekna til þess, eins og þó fyrri ríkisstj. vildi, en kom ekki fram hér í þinginu vegna þess að þing var rofið áður en hægt væri að afgreiða það mál. Þegar ríkisstj. lýsti því yfir, og þá á ég við fráfarandi ríkisstj., í apríl s.l., að ætlunin væri að framkvæma tölurnar sem voru niðurstaða fjvn. rétt við þinglokin, þá gekk hún einnig út frá því að aflað yrði tekna á móti, þótt hún hefði ekki haft þingmeirihluta til að koma því fram og vildi ekki af skiljanlegum ástæðum setja þá brbl. um það efni beint í kjölfar þess að málið hafði ekki náð fram að ganga í þinginu. Ný ríkisstjórn hlaut því að gera annað tveggja, annaðhvort að draga úr útgjöldum til vegamála sem nam þessum 120 millj. eða afla tekna í staðinn. En núv. ríkisstj. gerði hvorugt og þar með myndaðist halli upp á 120 millj. í greiðsluáætlun þessa árs.

Núv. ríkisstj. tók ákvörðun um svokallaðar mildandi aðgerðir, sem hæstv. fjmrh. var rétt að enda við að upplýsa að hefðu numið um 405 millj. kr. Núv. ríkisstj. tók ákvörðun um að fella niður skattgjald sem Alþingi hafði ákveðið að leggja á, svonefnt álag á ferðagjaldeyri, þótt enga nauðsyn bæri til þess, ekkert kallaði á það og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði m.a.s. samþykkt án þess að mögla á nokkurn hátt að þetta gjald mætti standa allt árið. Ég er þar til vitnis og margir aðrir. Það var ekki nokkur vandi að fá því gjaldi framlengt á sínum tíma. En núv. ríkisstj. ákvað að fella niður þetta gjald og það hefur að sjálfsögðu þýtt verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Þar hefur ekkert annað komið í staðinn. Ég hygg að tap ríkissjóðs á þessu ári af þessari ástæðu einni nemi ekki minni upphæð en 50 millj. kr., með tilliti til þess að tekjurnar það sem af var ársins voru um 58 millj. kr.

Auk þess hefur núv. ríkisstj. tekið ákvörðun um ýmiss konar tollalækkanir aðrar en þær sem fólust í hinum mildandi aðgerðum. Ég hef ekki upplýsingar um hversu stórum fjárhæðum þessar ákvarðanir nema, en kannske mætti áætla að þær næmu kringum 30 millj. kr.

Þessu til viðbótar hefur svo ríkisstj. tekið ákvörðun um að niðurgreiðslur á búvöru verði 194 millj. kr. hærri en núverandi fjárlög gera ráð fyrir. — Samanlagt gera þessar upphæðir um 799 millj. kr.

Ég hef alltaf dregið í efa að þegar upp yrði staðið í lok þessa árs yrði rekstrarafkoman. neikvæðari um hærri upphæð en ég nefndi nú. Ég hef talið að í ríkisreikningi fyrir árið 1983 yrði halli ársins, miðað við útlitið eins og það er, minni en nemur þessari tölu, þegar haft er í huga að afgangur ársins 1982 var hvorki meira né minna en 850 millj. Því er ljóst að ef tekna hefði verið aflað í stað þeirra tekna og tekjupósta sem lagðir voru niður eða útgjöld lækkuð þar á móti, þá hefði ríkissjóður komið nokkuð örugglega út á sléttu á þessu ári, jafnvel skilað einhverjum afgangi. En allt kemur þetta í ljós síðar meir.

Hæstv. ríkisstj. tók sér heimild í brbl. til að skera niður ríkisútgjöld um 300 millj. kr. Ég veit ekki hvort einhverjir þm. hafa orðið varir við þennan niðurskurð. Ég hef ekki orðið var við hann og vil gera það að fyrstu spurningu minni til hæstv. fjmrh., hvort hann geti lesið hér upp fyrir þm. lista yfir niðurskurð ríkisútgjalda í samræmi við þetta heimildarákvæði — eða hvað varð um þennan áformaða 300 millj. kr. sparnað?

Ég minntist hér á afkomu ríkissjóðs á árinu 1982 í samræmi við ríkisreikning sem hefur verið lagður fram, og er þá kannske rétt að fara nokkrum orðum um afkomu ríkissjóðs á liðnum árum. Það er öllum kunnugt að á seinasta áratug var ríkissjóður rekinn með miklum halla öll árin. 1971–1979 var halli á ríkisreikningi nema árið 1976. skuldasöfnun var því gífurleg á þessum árum. Þrjú seinustu ár, 1980–82, hafa skorið sig úr með talsverðum rekstrarafgangi, sem hefur gengið til lækkunar á skuldum. Það er því rangt, sem hæstv. fjmrh. var að segja hér áðan, að safnað hafi verið skuldum á liðnum árum af hálfu ríkissjóðs, jafnvel með erlendum lántökum. Rekstrarafgangur ríkissjóðs á árinu 1980 nam 139 millj. kr. eða um 3.7% af ríkisútgjöldum, rekstrarafgangur 1981 nam 175 millj. kr. eða um 2.9% af ríkisútgjöldum og rekstrarafgangur 1982 nam 850 millj. kr. eða sem næst 9% af ríkisútgjöldum. Það er vafalaust langhæsti afgangur sem verið hefur í ríkisrekstri um mjög langt árabil. Ég hygg að það þurfi jafnvel að fara nokkra áratugi aftur í tímann. (Gripið fram í.) — Ja, það skyldi ekki vera.

Um erlendar lántökur vil ég segja það, að fráfarandi stjórn var mjög sökuð um óhóflegar erlendar lántökur og enn má heyra talsmenn ríkisstj., og þá ekki síst hæstv. fjmrh., rökstyðja hverja sína sparnaðarákvörðun með því að ekki megi taka erlend lán. Staðreyndin er sú, að á undanförnum árum hafa ekki verið tekin erlend lán til ríkisrekstrarins í þrengri merkingu, þ.e. í A-hluta ríkissjóðs. Það hafa eingöngu verið notuð innlend lán í A-hlutann. Það hefur hins vegar verið aflað erlendra lána vegna B-hlutans, en þar er um að ræða fyrirtæki sem flest hver standa undir sér sjálf eða eiga að standa undir sér sjálf á komandi árum. Fyrirtækin í A-hlutanum, sem taka við framlögum úr ríkissjóði án þess að skila neinum arði, skila sem sagt ekki arði í bókstaflegri merkingu, — vissulega í óeiginlegri merkingu með ýmsum hætti, en skila ekki arði í bókstaflegri merkinu, — hafa ekki notið erlendra lána. En þau hafa fengið nokkurt innlent fé og þó hefur A-hlutinn almennt gert meira af að greiða skuldir en taka lán, eins og auðvitað lýsir sér í því að rekstrarútkoman er jákvæð. En alltaf hafa B-hluta fyrirtæki fengið eitthvað af erlendum lánum.

Ef litið er á erlendar lántökur á komandi ári með hliðsjón af því sem ég hef nú rakið er ljóst að það er ekki nóg að allar lántökur til B-hluta fyrirtækja séu erlend lán, hvert einasta lán til B-hluta fyrirtækis erlent lán, sem líklega hefur aldrei áður verið, heldur eru nú í fyrsta sinn, í öllu falli um mjög langt skeið, kannske í fyrsta sinn í sögunni, tekin erlend lán í stórum stíl í A-hlutann, en það eru um 42% af lánsfjárþörf A-hlutans sem er fjármögnuð með erlendum lánum. Til nánari skýringar á þessu er rétt að upplýsa að erlendar lántökur í A-hluta eru ekki 1140 millj. kr., eins og stendur í fjárlagafrv. Það er atrangt sem þar stendur. Erlendar lántökur til A-hlutans eru 1620 millj. kr., eins og stendur í lánsfjáráætlun. Satt best að segja er það harla óvenjulegt að þegar fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun er lögð fram á sama tíma og hvort tveggja er rætt um svipað leyti skuli svo stórkostlegt ósamræmi milli fjárlaga annars vegar og lánsfjáráætlunar hins vegar, eins og lýsir sér í þessari staðreynd. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvernig í ósköpunum standi á þessu. Er þetta vegna þess að ef þessar 480 millj., sem vantar inn í fjárlagafrv., en eru aftur í lánsfjáráætlun, allar í erlendum lánum, hefðu verið teknar inn í frv. hefði verið 470 millj. kr. rekstrarhalli á ríkissjóð og að fjmrh. hafi ekki treyst sér til þess að sýna frv. í þessum búningi? Er þetta skýringin á því að þessari stóru tölu er sleppt út úr fjárlagadæminu?

Ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um þennan þátt málsins. En það blasir sem sagt við að mennirnir, sem hafa verið næstum dag hvern og í mánuði hverjum í þrjú ár að ásaka fráfarandi stjórn fyrir óhóflegar erlendar lántökur og eru enn að kyrja þennan söng næstum dag hvern hér í þinginu, ætla sér á næsta ári að gera hluti sem teljast einsdæmi í íslenskri fjármálasögu, þ.e. að taka stórfelld erlend lán til að fjármagna þann hluta af rekstri ríkisins sem ekki er ætlað að borga þessi lán til baka.

Í fjárlagafrv. er dálítið kynleg athugasemd þess efnis — í grg. — að reiknitala fjárlaga þessa árs varðandi verðbólguaukningu milli ára hafi reynst verulega lægri en raunveruleg verðbólguþróun. Þetta er út af fyrir sig eðlileg athugasemd. En svo er því mjög hátíðlega heitið að nú verði breyting á og farið ýmsum orðum um hvílíkt hneyksli skuti vera að fjárlög passi ekki saman við raunverulega verðbólguþróun. Staðreyndin er sú, að um mjög langt skeið, eða allt síðan verðbólga tók að stefna í þær hæðir sem hún hefur verið í um 10 ára skeið, hefur verið mjög verulegur munur á verðbólguáætlun fjárlaga og raunverulegri þróun mála. Seinustu tíu árin hefur aldrei verið minni munur en 10% á fjárlögum annars vegar og raunverulegri þróun mála. Oftast hefur munurinn verið rétt um 20%. Mér virðist að munurinn á árinu 1983 ætli að verða í hærri kantinum, sennilega með því hæsta sem verið hefur, en þó ekkert einsdæmi. Það stefnir nú í það, að gjöldin hækki um 22% samkv. endurskoðaðri fjárlagaáætlun, en tekjurnar hækki um 14%. Ég hygg að þetta sé svipað og oft hefur áður gerst.

Í þessu nýjasta frv. er reiknað með að verðbólgan hér á landi verði 6–8% frá upphafi til loka næsta ár, eins og ég nefndi áðan. Auðvitað verður hver og einn að dæma um það út frá sinni persónulegu skynsemi, hvort honum finnst þessi verðbólguspá bera vott um tímamótamarkandi raunsæi. Persónulega tel ég miklu líklegra að verðbólgan verði svo sem eins og 10–20% hærri en þessari reiknitölu nemur.

Ég nefni eitt dæmi máli mínu til stuðnings. Samkv. frv. verða niðurgreiðslur á matvörum hlutfallslega miklu minni en greiðslur þessa árs, enda krónutalan í frv. lægri en nemur niðurgreiðslum í ár. Matvörur hljóta því að stórhækka í verði á næsta ári af þessari ástæðu einni. Ætli þessi eina ástæða slagi ekki hátt upp í alla þá verðbólguspá sem hæstv. fjmrh. reiknar með í þessu fjárlagafrv.?

Um útkomu ársins 1984 er vafalaust ekki rétt að hafa uppi miklar fullyrðingar, ekki síst þegar haft er í huga hversu mörg óljós atriði eru í þessu frv. Niðurstöðutala frv. um rekstrarafgang ársins er 9 millj., eins og ég hef nú nefnt. En augljóst er að þessi tala er meira eða minna út í bláinn og vil ég sérstaklega nefna þrjár .ástæður. Ég hef þegar nefnt þá fyrstu, þ.e. eina tölu upp á hvorki meira né minna en 480 millj., sem vantar gjörsamlega inn í 1. gr. frv. Ég nefni í öðru lagi vexti af yfirdráttarskuld í Seðlabankanum, sem ekki eru meðreiknaðir, eins og hæstv. fjmrh. nefndi hér áðan og fram kemur á bls. 182 í frv., og ég nefni í þriðja lagi fyrirhugað sparnaðaráform hæstv. fjmrh.

Í grg. frv. kemur fram að ríkisstj. hefur í huga að skera launakostnað ríkisins niður um 2.5%, að önnur rekstrargjöld eigi að lækka um 5% frá eðlilegri áætlun og að skera á niður útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins um 300 millj. kr. Ég vil segja það um áformin að skera niður önnur rekstrargjöld um 5%, að slík áform eru alltaf fullkomlega raunsæ og ég treysti núv. fjmrh. og samráðherrum hans til að framkvæma þetta. Það eiga þeir að geta. Þeim er engin vorkunn að gera það á erfiðleikatímum. Þetta hefur oft áður verið gert og í þessu felst nauðsynlegt og sjálfsagt aðhald í ríkisrekstrinum.

En svo komum við aftur að launaliðnum, sem á að skerast niður um 2.5%. Því miður er fullkomlega óljóst hvernig þetta á að gerast. Á þetta að gerast með því að nokkur hundruð ríkisstarfsmönnum verði sagt upp á árinu? Og hverjum á þá að segja upp? Hvaða ráðh. ætla að taka það á sig? Eða á að lækka laun ríkisstarfsmanna sem þessari upphæð nemur? Svör við þessu hafa ekki fengist. Og meðan þau fást ekki verður að álykta að þetta sparnaðaráform sé algjörlega út í bláinn.

Hæstv. fjmrh. nefndi það í útvarpsviðtali að áformað væri að ráða ekki í stöður sem losnuðu. Jú, þetta er út af fyrir sig ágætt áform, sem oft hefur verið haft uppi og kannske að einhverju leyti framkvæmt. En bæði er að það er ákaflega erfitt í framkvæmd við okkar þröngu íslensku aðstæður og auk þess efast ég stórlega um að það losni nema brot af þeim stöðufjölda sem þyrfti til þess að koma fram þessum sparnaði á næstu mánuðum. Meðan engar skýringar hafa fengist á þessum lið verður sem sagt að líta svo á, að þarna vanti hreinlega upphæð inn í frv.

Eitthvað svipað gildir um sparnaðinn hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það liggur ekkert fyrir um hvort sá sparnaður verður framkvæmdur með uppsögnum starfsfólks á spítölum og þar með minnkuðum kostnaði við sjúkratryggingar, að það verði meira aðhald að sjúkrahúsum sem rekin eru af daggjöldum en verið hefur, og hefur það þó verið talsvert. Verður um að ræða niðurskurð á framlögum til öryrkja og aldraðra eða verða sjúklingar látnir greiða fyrir sjúkrahúsvist? Allt eru þetta vissir möguleikar sem gætu verið fyrir hendi, en það liggur ekkert fyrir um að hverju ríkisstj. stefnir.

Auðvitað verður Alþingi að fá að vita það við umfjöllun um fjárlagafrv. hvort þessi áform eru algjörlega út í bláinn og ekkert er á bak við eða um er að ræða raunveruleg fyrirheit um raunveruleg áform. Ég vil ekki útiloka í þessu tilviki að þetta verði framkvæmt. Það má vel vera. En þá vil ég líka vita: Á hverjum á þessi niðurskurður að bitna? Það er alveg ljóst að hann verður sársaukafullur. — Og þjóðin á heimtingu á að vita það alveg eins og Alþingi hvað til stendur í þessum efnum.

Það vekur athygli að nú er í fyrsta sinn um alllangt skeið felld algjörlega niður greiðsla til Seðlabankans vegna skulda ríkissjóðs við bankann. Eins og kunnugt er safnaðist upp mikil óreiðuskuld ríkissjóðs við Seðlabankann í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. Í árslok 1978 var skuld ríkissjóðs við bankann orðin 1406 millj. kr. á verðlagi í árslok 1982. Nota bene: Það hafa orðið peningaskipti í millitíð og auðvitað verður að reikna þetta allt á verðlagi sama árs, en í árslok 1978 var skuldin 1406 millj. kr. Hún var komin niður í 201 millj. kr. í árslok 1982, reiknað á sama verðlagi. Hér var því gjörbreyting til batnaðar. Skuldin 1975–78 svaraði til 4–5% af vergri þjóðarframleiðslu, en hún var í árslok 1982 komin niður í 0.6%. Heildarskuldir ríkissjóðs hafa einnig minnkað ótvírætt að raungildi ár frá ári, eins og ég drap á áðan, og læt ég nægja að vísa til skýrslu fjmrh. um afkomu ríkissjóðs á árinu 1982, sem gefin var Alþingi í skriflegu formi á s.l. ári, en þar koma fram töflur sem sýna það mjög glöggt að heildarskuldir ríkissjóðs fóru lækkandi. Í þessu sambandi er alveg sérstök ástæða til að minna á viðskiptaskuld ríkissjóðs við Tryggingastofnun ríkisins. Hún minnkaði á árinu 1982 um hvorki meira né minna en 110 millj. kr. Á undanförnum árum hefur sem sagt verið reynt að borga niður þessar skuldir ríkissjóðs. Og nú verður spurningin þessi: Þegar Sjálfstfl. fær aftur stjórn ríkisfjármála í sínar hendur, er þá greiðslunum hætt af þessari gömlu óreiðuskuld og tekur þá við ný skuldasöfnun? Það er sú spurning sem ekki fæst svar við fyrr en væntanlega á næsta ári.

Að lokum, herra forseti, vil ég leyfa mér að velta fyrir mér þeirri spurningu, hvers vegna flest bendir til að stefni í halla hjá ríkissjóði. Við þekkjum svar ríkisstj. og svar hæstv. fjmrh. Þessir aðilar benda á að það hafi orðið verulegur samdráttur í tekjum af sölugjaldi og af innfluttum vörum. Þetta er alveg hárrétt að hluta til. Þetta er slík staðreynd að engum dettur í hug að neita henni. En þá er auðvitað rétt að hafa það í huga, sem ég sagði hér í upphafi, að það var af miklu að taka. Rekstrarafgangurinn 1982 nam 850 millj. kr. eða um 9% af útgjöldum ríkissjóðs og samsvarandi afgangur á árinu 1984 mundi nema um 1570 millj. kr. Samdráttur í innflutningstekjum og tekjum af sölugjaldi má því verða býsna mikill áður en allur þessi afgangur, sem greinilega var í ríkiskerfinu, er upp urinn miðað við sams konar rekstur ríkissjóðs. Samdrátturinn í tekjum nægir að sjálfsögðu engan veginn til að skýra þann hallarekstur sem nú virðist stefna í.

Ég tel að skýringin á tvísýnni rekstrarafkomu ríkissjóðs sé í fyrsta lagi sú, að tekjustofnar hafa verið skertir án þess að tryggt væri að annarra tekna væri aflað í staðinn eða sérstök útgjöld felld niður þar á móti.

Skýring númer tvö er sú, að fjár til vegagerðar er nú aflað í stórum stíl með erlendum lántökum, ekki með innlendri fjáröflun eins og verið hefur. Erlendu lánin munu vissulega bjarga greiðslustöðu ríkissjóðs á næsta ári, en að taka svona stórar upphæðir inn sem lán og eyða þeim til beinna útgjalda hlýtur að koma fram í stórfelldum rekstrarhalla.

Þriðja skýringin er sú, að um leið og hvers konar menningarleg og félagsleg starfsemi er skorin niður í sparnaðarskyni koma inn geysistórir útgjaldaliðir sem nánast gera allan sparðatíninginn í félags- og menningarmálum að engu, sbr. dæmið um flugstöðina.

Þessar ástæður vega ekki síður þungt þegar menn velta því fyrir sér hvers vegna horfir illa í málefnum ríkissjóðs. Og svo mættu menn að lokum velta fyrir sér: Af hverju stafar þessi gífurlegi samdráttur í tekjum ríkisins af viðskiptum og innflutningi? Ástæðan er auðvitað sú, að kjör almennings hafa verið skert allheiftarlega. Það hefur dregist saman neysla allra þeirra, sem búa við lágar tekjur eða miðlungstekjur, sem nemur um 25–30%. Það er sultaról ríkisstj. sem þarna er að verki. Af þessu verður deginum ljósara að það er fyrst og fremst stefna ríkisstj., aðgerðir hennar og ákvarðanir sem valda því að nú er vísvitandi stefnt í verulegan hallarekstur ríkissjóðs.