15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess máls sem ég hef að flytja vildi ég óska eftir að hæstv. fjmrh. yrði sóttur. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er víst bundinn núna á stundinni, en ég átti von á að hann væri hingað kominn.) Forseti. Ég á ekki erindi í ræðustól nema hæstv. fjmrh. sé í salnum. (Forseti: Við getum gert hlé. Ég á von á að hæstv. ráðh. verði hér innan mjög stutts tíma. Ég hef ástæðu til að ætla það, ef hv. þd. vill hafa biðlund á meðan. Rétt er að nota tímann og tilkynna þingheimi að ætlunin er að halda þessum fundi áfram klukkan 9 í kvöld og þá verður, ef þess er þörf, haldið áfram að ræða 1. dagskrárlið, en einnig verður tekið fyrir 10. dagskrármálið, lánsfjárlög 1984. — Hæstv. ráðh. gengur í salinn og ég vænti þess að hv. ræðumaður geti þá hafið ræðu sína.)

Herra forseti. Í umr. um það frv. sem hér er til umr. á mánudaginn var lýsti hv. þm. Svavar Gestsson áhyggjum okkar Alþb.-manna með tilliti til þeirrar miklu tekjulækkunar sem nú hefur orðið hjá fólki, verulegri rauntekjulækkun, þannig að hækkunin á skattgreiðslum frá desember- til febrúarmánaðar vegna 63% fyrirframtöku á gjöldum er sumu fólki næstum alveg óbærileg. Hv. þm. Svavar Gestsson lýsti því jafnframt að við hefðum hugsað okkur að flytja um það brtt. að framtöl þessa fólks yrðu tekin til sérstakrar athugunar og fyrirframgreiðsla þess endurmetin með tilliti tillíklegrar álagningar á árinu 1984. Ljóst er að slík till. yrði of seint á ferðinni og að þetta fólk er byrjað að borga verulegar fyrirframgreiðslur. Því spurði hv. þm. Svavar Gestsson hæstv. fjmrh., sem því miður var upptekinn í Ed. og gat því ekki veitt nein svör, hvort hann væri tilbúinn að lýsa því yfir hér á Alþingi að skattstjórum væri gert að skyldu að beita sér fyrir því að farið yrði yfir fyrirframgreiðslur þessa fólks og þá sérstaklega elli- og örorkulífeyrisþega þegar í stað, burtséð frá framtölum sem slíkum, og reyna að kanna og meta í hverju tilviki hvort um væri að ræða upphæðir sem þessu fólki væru gersamlega ofviða. Ég vil vegna fjarveru hv. þm. Svavars Gestssonar taka upp spurningu hans til hæstv. ráðh. um hvort hann sé reiðubúinn að gefa þær yfirlýsingar hér að gerð verði sérstök athugun á framtölum aldraðra og öryrkja með tilliti til þess hvort fyrirframgreiðslan er hærri en ætla má að endanleg álagning verði.

Þetta var fyrra atriðið í máli hv. þm. Svavars Gestssonar. Hið síðara var um túlkun á þeirri till. sem hér liggur fyrir á þskj. 322, en hv. þm. lýsti því yfir að hann túlkaði hana þannig að samkv. henni væri heimilt að birta opinberlega álagningarskrár á komandi sumri við álagningu tekju- og eignarskatts og auðvitað síðan í framhaldi af því skattskrár eftir að leiðréttingar liggja fyrir. Ef þessi túlkun er hins vegar ekki rétt teljum við nauðsynlegt að leggja fram till. sem liggur fyrir á þskj. 345 og er brtt. við brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Við viljum fá svör um það frá hæstv. fjmrh., hvort hann telji að sú túlkun okkar sé rétt að samkvæmt brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. megi gefa út álagningarskrá og skattskrá eftir leiðréttingu.