16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2922 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég er ekki lengur viss um hvaða ræðu ég flutti áðan. Ég þekkti hana ekki í umfjöllun manna, einkanlega ekki þegar Árni Johnsen fór um hana listamannshöndum. Ég held að ég sleppi því að víkja frekari orðum að ræðu hv. félaga míns í fjvn. Sú moðsuða lýsti honum sjálfum miklu betur en þeirri ræðu sem ég hélt að ég hefði flutt.

1. flm. þessarar till. var óhress með orð mín og er lítið við því að segja. Ég var að reyna að skilja og skýra út hvers vegna þessi till. væri komin fram að mínu viti. Mér virtist tilefnið vera áhyggjur flm. yfir því að ekki væri nægilega vel að sögukennslu staðið og ég var að reyna að útskýra hvers vegna ég gæti ekki stutt till. Því miður virðist það ekki hafa tekist nógu vel hjá mér, hvort sem það er mér að kenna eða móttökuskilyrðin eru svona afleit t.d. hjá Sighvati Björgvinssyni sem virðist telja að ég og fleiri sem talað hafa hér séum andvíg því að nemendur öðlist skilning á sögu þjóðarinnar og trú á landið og vilja til að varðveita menningarsamfélag okkar. Þetta er ósvífinn útúrsnúningur sem ég vísa beint heim í föðurgarð.

Annað atriði fannst mér þeir félagar í Alþfl. hafa misskilið illilega í máli mínu, teldu að ég væri algerlega andvíg staðreyndaþekkingu. Það voru ekki mín orð. Ég sagði það mitt álit að kennslutilhögun hefði breyst talsvert frá mínum skólaárum, þannig að nú væri lögð meiri áhersla á þekkingarleit og skilning á námsefninu en þann utanbókarlærdóm sem einkenndi nám áður fyrr. Þessi breyting á kennsluháttum ásamt öllu því sem keppir um athygli manna nú á dögum er að minni hyggju ástæðan fyrir útkomunni í skoðanakönnuninni sem vitnað er til í grg.

Að lokum, fyrst ég er nú hingað komin, held ég að ég verði að halda uppi vörnum fyrir orðskrípið „þingkona“, eins og Eiður Guðnason orðaði það. Líklega hefðum við átt að halda fastar um það orð. Þá fengi ég kannske færri bréf með utanáskriftinni: Herra alþm., frú Kristín Halldórsdóttir.