27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri. Það var reyndar svo að ég hafði borið fram þessa ósk jafnhliða því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði gert það.

Ég skal ekki hafa mörg orð um það mál sem hér er tekið upp utan dagskrár. Hér er um að ræða innrás Bandaríkjanna og sex annarra ríkja í smáríkið Grenada. Þetta er innrás hvernig sem á málin er litið. Þetta er brot á alþjóðalögum, þetta er brot á samþykktum sem Bandaríkin og önnur ríki hafa undirritað t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Það má gjarnan finna sér réttlætingar. Það er oft gert þegar innrás er gerð, það er ekkert nýtt. En það er ekkert til sem réttlætir afskipti .af innanlandsmálum smáríkisins Grenada, það er ekkert til sem réttlætir innrás af þessu tagi. Það skiptir engu máli í því sambandi hvort þeir sem tóku völdin í vopnaðri byltingu og með morðum séu skúrkar eins og gefið er í skyn. Mér þykir mjög fyrir því að Bandaríkin skuli hafa gripið til þessa óyndisúrræðis, því að fordæmið er hræðilegt.

Ég lýsi því yfir fyrir hönd Alþfl. að við mótmælum þessari innrás og fordæmum hana og við leggjum áherslu á að ríkisstjórn Íslands fordæmi hana og beri fram harðorð mótmæli við Bandaríkin og hin ríkin sex og það án tafar. Ég tek undir þá fsp. sem hér var borin fram af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.