20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2968 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu minni á málflutningi hæstv. iðnrh. þegar hann bregður þm. um leti og segir fullum fetum hér úr þessum ræðustól að menn nenni ekki að kynna sér málið. Hæstv. iðnrh. verður að finna þessum orðum sínum stað. Þetta er málflutningur sem ráðh. er ósæmandi og þetta eru ómakleg ummæli í garð þm. Hæstv. ráðh. væri auðvitað sæmst að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum. (Iðnrh.: Ég dæmi bara eftir ummælunum sjálfum.) Hæstv. ráðh. væri það sæmst. Þetta er málflutningur sem er satt best að segja fyrir neðan virðingu manns sem gegnir embætti ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Tvennt vildi ég taka fram. Hæstv. ráðh. hefur staðfest að staðið var að sölunni á þessu fyrirtæki nákvæmlega eins og ég sagði: auglýst með þeim skilmálum að menn skyldu greiða 20% út. Síðan var samið við hóp einstaklinga um að þeir skyldu ekki greiða út. Ef það kom í ljós eftir birtingu auglýsingarinnar að engir aðilar voru reiðubúnir að greiða út 20%, þá átti auðvitað að auglýsa fyrirtækið aftur með nýjum skilmálum svo að allir sætu við sama borð. Það er þetta sem ég gagnrýni og það er þetta sem hæstv. ráðh. hefur staðfest. Ég tel að með þessum hætti hafi ekki verið rétt að staðið. Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðh. hver hefði verið framlegð þessa fyrirtækis á síðari hluta ársins 1983. Ég þykist vita að hann hafi þær tölur. (Iðnrh.: Hver tekur það fram?) Ég skora á hann að birta þær og svara þessari spurningu minni, hver hafi verið framlegð fyrirtækisins á síðari hluta ársins 1983.