20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2971 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

196. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 352 er frv. til l. um breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán. Aðdragandi þessa máls er orðinn nokkur. Í desembermánuði 1982 skipaði þáv. landbrh. Pálmi Jónsson nefnd manna til að huga að atkomu bænda, m.a. með hliðsjón af árferðisáföllum og mismunandi tekjum bænda eftir búgreinum. Formaður nefndarinnar var Bjarni Bragi Jónsson, sem nú er aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og aðrir nm. Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, Jón Ólafsson bóndi í Eystra-Geldingaholti, Sigurður Líndal bóndi á Lækjamóti og Sigurður Sigurðsson bóndi á Brúnastöðum.

Nefndin skilaði tillögum sínum á s.l. hausti og segir m.a. í áliti sínu að breyting lausaskulda bænda í löng lán sé svo aðkallandi og eigi eðlilega samleið með ráðstöfunum sem verið er að gera til að lengja lán annarra þjóðfélagshópa og atvinnuvega að hefjast þurfi handa um framkvæmd þeirra aðgerða sem allra fyrst. Nefndin telur að meginástæður fyrir því að breyta þurfi skuldum svo fljótt eftir skuldbreytingu 1979 séu að nokkru þær sömu og þá, en einnig síðar til komnar ástæður. Aðalástæðurnar telur nefndin í fyrsta lagi ófullnægjandi frumfjármögnun fjárfestingar af lánshlutfalli og lánalengd sem einkum kemur hart niður á frumbýlingum. Í öðru lagi sérstök árferðisáfött, svo sem árið 1979 og aftur 1983, svo og langvarandi örðugt tíðarfar, en það hefur komið misjafnt niður eftir landshlutum. Í þriðja lagi hefur verið dregið skipulega úr framleiðslu sem haft hefur í för með sér að fjármagnskostnaður hefur aukist miðað við afurðatekjur. Í fjórða lagi hefur mikill og vaxandi hluti lánsfjárins verið verðtryggður án þess að lán hafi verið lengd í samræmi við það.

Við þetta má svo bæta, sem snertir þessa liði óbeint, að verðbólgan er bændum mjög þung í skauti og þá ekki síst sauðfjárbændum vegna þess hvað langur tími líður frá því að þeir þurfa að leggja fram fjármagn til rekstrarvörukaupa og þangað til afurðirnar fást greiddar að fullu.

Í áliti nefndarinnar kom fram að hún gerði ráð fyrir, eftir þeim gögnum sem hún hafði og unnin voru á vegum Stéttarsambands bænda, að 300–500 bændur væru í fjárhagsvanda staddir og þyrftu úrlausn sem næmi 100–200 þús. kr. hver. Heildarfjármagnsþörfin gæti því orðið allt að 75 millj. kr. Til samanburðar bendir nefndin á að skuldbreytingin 1979–80 hafi numið 17.5 millj. kr. sem jafngildi á núverandi verðlagi 84 millj. miðað við lánskjaravísitölu í sept. s.l.

Nefndin hvatti til þess að auglýsa sem fyrst að áformað væri að afla heimilda og fjármagns til þess að breyta lausaskuldum bænda árin 1979-83 í föst lán. Slík auglýsing var birt af veðdeild Búnaðarbankans í nóvember s.l. Umsóknir bárust frá 605 bændum. Fullnægjandi gögn fylgdu þeim ekki öllum og er unnið að því að bæta úr því. Umsóknir skiptast þannig milli kjördæma: Vesturland 122, Vestfirðir 20, Norðurl. v. 127, Norðurl. e. 101, Austurland 73, Suðurland 162, samtals 605. Aðeins þeir sem ekki fengu lán vegna ársins 1979 skv. lögum nr. 33/1979 eiga nú möguleika á skuldbreytingu vegna þess árs.

Tímabil það sem hin áformaða skuldbreyting tekur yfir hefur verið íslenskum landbúnaði sérstaklega erfitt vegna tíðarfarsins enda munu þrjú sumur á þessum tíma hin köldustu á öldinni. Sérstaklega var þó sumarið 1983 þungt í skauti og afleiðingarnar ekki að fullu orðnar ljósar enn. Gögn hafa enn ekki borist frá umsækjendum vegna ársins 1983 en með tilliti til þess sem að framan segir um niðurstöður af fyrri athugunum er augljóst að fjármagnsþörfin mun aukast verulega þó erfitt sé að nefna ákveðna tölu í því sambandi.

Lagafrv. það sem hér er lagt fram er að efni til hliðstætt því sem áður hefur verið þegar leitað hefur verið heimildar Alþingis til að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Í frv. felst þó það frávik varðandi tryggingu bankavaxtabréfa sem út verða gefin að Búnaðarbanka Íslands er ætlað að ábyrgjast bréfin. Sú ábyrgð er víðtækari en áður er hún var takmörkuð við varasjóð veðdeildar bankans en hann er vanmegna nú að taka nokkra ábyrgð. Ábyrgð ríkissjóðs byggist hins vegar á lögum nr. 28 19. maí 1976. Í 2. gr. laganna segir að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands.

Í 2. gr. frv. segir að lánakjör skuli ákveðin af stjórn veðdeildar Búnaðarbanka Íslands ásamt fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins. En lánakjör eru háð samþykki landbrh. Einnig kom fram í áliti nefndarinnar að gera þyrfti sérstaka úttekt á fjárhagsstöðu þeirra bænda sem um þetta sækja, a.m.k. þeirra sem lakast eru settir, þar sem ekki sé víst að þessar aðgerðir geti náð til allra skv. ákvæðum laga og ekki víst að þau kæmu að fullnægjandi notum. Enn fremur er æskilegt að fyrir liggi úttekt á stöðu bænda á svipaðan hátt og nú er verið að kanna stöðu ýmissa annarra stétta í þjóðfélaginu. Þess vegna hefur ríkisstj. óskað eftir því að Þjóðhagsstofnun geri slíka úttekt.

Ég vildi beina þeirri ósk til þeirrar nefndar sem fær þetta frv. til meðferðar að reynt verði að hraða afgreiðslu þess eftir því sem kostur er þar sem, eins og fram kom í máli mínu hér á undan, þörf er á að reyna að hefjast handa sem fyrst um þær aðgerðir sem gert er ráð fyrir í frv. Ég vil svo leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.