21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

193. mál, rannsókn umferðarslysa

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á sínum tíma ákvað norræna ráðherranefndin að tillögu Norðurlandaráðs að árið 1983 skyldi helgað umferðaröryggi á Norðurlöndum. Með þessari ákvörðun var vakin athygli á því að slysavarnir á landi eru ekki síður mikilvægar en slysavarnir á legi og í lofti. Vegna norræna umferðaröryggisársins hafa þessi mál verið í brennidepli.

Hér á landi hafði Umferðarráð allan veg og vanda af undirbúningi þessa máls. Það er vissulega ástæða til að fagna því og þakka það ágæta starf sem unnið var í þeim efnum, svo sem með meiri fræðslu og auknum áróðri í fjölmiðlum, námskeiðahaldi, umferðarvikum og ráðstefnum.

Norræn umferðarslysaráðstefna var haldin á vegum Umferðartæknisfræðifélags Íslands í ágúst s.l. með þátttöku hinna Norðurlandanna. Á þeirri ráðstefnu voru sérstaklega tekin til meðferðar umferðarslysin og afleiðingar þeirra. Margt merkilegt kom fram á ráðstefnunni sem ekki er tími til að koma inn á hér. Þó vil ég, herra forseti, leyfa mér að benda á að í erindi Davíðs Á. Gunnarssonar, forstjóra Ríkisspítalanna, kom fram að á einu ári hafi umferðarslysin kostað íslenska þjóðfélagið 440 millj. kr. eða álíka mikið og kostaði að reka Landspítalann það sama ár. Einnig kom fram hjá honum að kostnaður við eitt slys, þar sem viðkomandi einstaklingur verður varanlega fattaður, samsvarar verði góðs einbýlishúss. Davíð A. Gunnarsson sagði í erindi sínu að þjóðfélagið ætti að vera fáanlegt til að verja jafnmiklum peningum í að koma í veg fyrir slysin eins og það er tilbúið að borga eftir á. En afleiðingar slysa verða ekki eingöngu mældar í peningum. Það er aldrei hægt að meta þann sársauka sem því fylgir þegar alvarleg slys ber að höndum. Þar eiga margir um sárt að binda.

Samkvæmt 84. gr. umferðarlaga ber Umferðarráði að sjá um að á hverjum tíma sé til vitneskja um fjölda, tegund og orsakir umferðarslysa í landinu. Því hef ég leyft mér að leggja fram á þskj. 347 fsp. til hæstv. dómsmrh. um rannsókn umferðarslysa. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvernig er háttað rannsókn umferðarslysa hér á landi?

2. Er fyrirhugað að skipa hér sérstaka umferðarslysanefnd sem hafi það hlutverk að rannsaka afleiðingar umferðarslysa, sbr. 84. gr. umferðarlaga?“