21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

106. mál, landnýtingaráætlun

Sveinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil koma inn í þessa umr. með örlítið innlegg, þar sem mat mitt er að hér sé um mjög athyglisverða till. að ræða. Það er rétt, sem aðalflm. sagði, að hún var tekin fyrir á síðasta þingi og fékk þá jákvæðar undirtektir og von mín er að þingið taki sömuleiðis jákvætt á þessari till. nú og hún fái nokkra afgreiðslu og fyrirgreiðslu.

Tillögur af svipuðum toga hafa verið hér til umr. áður. Ég minni í því sambandi á till. sem ég flutti á þskj. 453 á 103. löggjafarþingi. Hún fjallaði um svæðisskipu­lag fyrir Fljótsdalshérað. Sú till. var endurflutt á þinginu þar á eftir.

Vinna af þessu tagi hefur verið reynd. Í því sambandi er rétt að geta svæðisskipulags sem var unnið fyrir Selfosshrepp, Ölfushrepp og Hveragerðishrepp. Einnig hefur verið unnið að kortagerð og vinnu af svipuðum toga víða um land. En því miður hefur þetta ekki fengið nægilega mikla fyrirgreiðslu og nógu almennan skilning sveitarstjórnarmanna og kannske ríkisvaldsins. Óneit­anlega er hér um að ræða vinnu sem er nokkuð fjárfrek og verður ekki unnin á skömmum tíma, en hún er nauðsynleg til að auðvelda mönnum að taka réttar og góðar ákvarðanir og sjá til þess að árekstrar við landið verði sem minnstir.

Þessara sjónarmiða gætir nú meir og vonandi er vaxandi skilningur á þörf áætlana af þessu tagi. Við sjáum það hvarvetna að menn meta mikils friðun og ræktun bæði til lands og sjávar. Það er kannske sérstaklega hvað varðar sjávarútveginn og nýtingu auðlinda hafsins að skipulagningu og vissu aðhaldi er nauðsynlegt að beita, en það er ekki síður hvað varðar nýtingu landsins sem við þurfum að huga vel að. Því er það von mín að þessi till. fái hér skjóta afgreiðslu og ekki aðeins afgreiðslu heldur verði þá eitthvað unnið að þessum málum í framtíðinni og það á markvissan hátt til þess að við tryggjum að afkomendur okkar fái notið sem allra best þeirra landgæða sem hér er kostur á, en sú kynslóð sem í dag lifir fari þar ekki um og eyði og skemmi fyrir komandi kynslóðum.