21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

107. mál, gjaldskrársvæði Pósts- og símamálastofnunar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég get alveg verið sammála hv. síðasta ræðumanni um hvert stefna skal í þessum málum, en við höfum á undanförnum árum reynt að taka eitt skref í einu af því að við höfum ekki talið að við kæmumst að markinu öðruvísi en að taka eitt og eitt skref. Það eru 2–3 ár síðan ákveðið var að ljúka á 5 árum við að koma sjálfvirkum síma til allra landsmanna.

Umr. hefur oft orðið um þessi mál hér á hv. Alþingi, þ.e. að reyna að jafna lífsaðstöðuna í landinu, og þá hefur verið rætt um símakostnaðinn sem er geysilega mikill víða sérstaklega fyrir þá sem þurfa að leita utan af landi til stjórnvalda um alls konar upplýsingar og fyrirgreiðslu.

En það er mat okkar flm. að það þýði ekki að taka stærri skref og þess vegna flytjum við þetta mál í því formi sem hér liggur fyrir. Við teljum — eða ég tel a.m.k. - að það sem kom fram í máli hv. þm. Sveins Jónssonar hér áðan sé það sem stefnt er að, en bara spurningin hvenær náum við markinu.