22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Sem ráðh. sem fer með málefni Hagstofu Íslands mæli ég fyrir frv. á þskj. 373 um frv. til l. um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan kauplagsnefndar.

Með lögum frá því í apríl 1939 hélt vísitalan innreið sína í íslenskt samfélag. Má segja að þá hafi hafist vísitöluöld á Íslandi því að alla tíð síðan 1939 hefur framfærsluvísitalan verið miðdepill umr. og átaka á sviði efnahagsmála hér á landi, einnig á tímabilum er hún hefur ekki ákvarðað breytingar á ýmsum þeim þáttum efnahagslífsins sem hún stundum hefur verið tengd við.

Þá var og í lögum þessum ákveðið að komið skyldi á fót sérstakri nefnd, kauplagsnefnd, til að reikna vísitölu framfærslukostnaðar. Frá upphafi hefur þessi nefnd starfað í nánu samráði við Hagstofu Íslands. Nefndar­menn hafa verið þrír, einn tilnefndur af Alþýðusam­bandi Íslands, annar tilnefndur af Vinnuveitendasam­bandi Íslands og hinn þriðji, formaðurinn, tilnefndur af Hæstarétti. Hefur þessi skipan kauplagsnefndar haldist óbreytt til þessa.

Á vegum kauplagsnefndar og Hagstofu fór árin 1939 og 1940 fram könnun á neyslu launþega í Reykjavík og var fyrst framfærsluvísitalan með grunntölunni 100, miðað við verðlag í janúar til mars 1939, byggð á henni. Síðan 1939–1940 hefur grundvöllur framfærsluvísitölu verið endurnýjaður tvisvar, í bæði skiptin að undan­genginni könnun á neyslu launþega í Reykjavík, enda hefur legið fyrir að miklar breytingar hefðu átt sér stað á samsetningu neyslu frá því að könnun var síðast gerð. Fyrri grundvöllurinn tók gildi 1. mars 1959 og var hann aðallega byggður á neyslukönnun 1953 og 1954. Síðari endurskoðun vísitölugrundvallar kom til framkvæmda í jan. 1968 og var sá grundvöllur byggður á neyslu­könnun 1964 og 1965. Þessi grundvöllur, sem var ákveðinn með lögum nr. 70/1967, er enn í gildi. Sú ein breyting hefur átt sér stað að gildandi vísitala fékk nýja grunntölu, 100, hinn 1. jan. 1981, sbr. lög nr. 87/1980, um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu.

Þegar um miðjan áttunda áratuginn var talið að neyslusamsetning 1968-vísitölu væri orðin úrelt og þyrfti því að endurskoða grundvöll hennar, en það var þó ekki fyrr en á hausti 1978 að kauplagsnefnd og Hagstofu var falið það verkefni með bréfi þáv. forsrh. dags. 19. okt. það ár. Höfðu þeirri ríkisstj. borist tilmæli um að vísitölugrundvöllurinn yrði endurskoðað­ur frá nefnd fulltrúa launþega, atvinnurekenda og ríkisvalds er skyldi gera tillögur um endurskoðun við­miðunar launa við vísitölu. Kauplagsnefnd og Hagstof­an hófu þegar undirbúning að framkvæmd neyslu­könnunar til endurnýjunar á grundvelli framfærsluvísi­tölu. Áhersla var lögð á að hraða verkinu og var því að mestu lokið um mitt ár 1981. Hefði nýr grundvöllur getað tekið gildi haustið 1981, en ævinlega verið skotið á frest þar til nú að ríkisstj. leggur fyrir Alþingi frv. um lögfestingu nýs vísitölugrundvallar sem byggður er á niðurstöðum neyslukönnunar 1978–1979. (Forseti: Ég verð að biðja hæstv. viðskrh. afsökunar á að ég gríp fram í, en mér skilst að þessu frv. hafi hreinlega ekki verið dreift hér á borðin og ég vil þess vegna tilkynna þm. að verið er að gera viðvart um það frammi og láta dreifa frv.) Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að hinkra. En ég held að frv. hafi verið dreift í gær í Sþ. og sé þar af leiðandi á borðum þm. í Sþ. En auðvitað á frv. sem flutt er í Ed. að liggja fyrir á borðum þm. þar líka.

Ég hafði í stuttu máli rakið forsögu þessa máls. En fjórðu neyslukönnuninni sem gerð hefur verið var hagað líkt og neyslukönnun 1964–1965. Aðalbreyting­in er sú að hún tekur til launa launþegafjölskyldna á öllu höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellshreppi, Hafnarfirði, Garðabæ og Bessa­staðahreppi auk Reykjavíkur. Allar þrjár fyrri kannanir höfðu verið bundnar við Reykjavík eina. Tala virkra þátttakenda var 176, en í 1964–1965-könnun tóku þátt 100 fjölskyldur. Þá var og að þessu sinni gerð umfangs­minni könnun á neyslu launþega á fimm stöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Völdust til þess staðirnir Ísa­fjörður, Akureyri, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar og Hvolsvöllur. Aðaltilgangur neyslukönnunar utan höf­uðborgarsvæðisins var að afla nokkurrar vitneskju um neyslusamsetningu launþega þar og bera hana saman við niðurstöður á aðalsvæði könnunar. Til þess að fá upplýsingar um neyslu launþega á hinum fimm stöðum er væru sambærilegar við niðurstöður könnunar á höf­uðborgarsvæði hefðu þátttakendur m.a. þurft að vera fleiri á hverjum stað. Við samanburð, sem hefur nokkurt gildi, á samanteknum niðurstöðum könnunar á hinum fimm stöðum við niðurstöður á höfuðborgar­svæðinu kom í ljós að samsetning neyslu launþega á þessum stöðum er svipuð því sem er á aðalsvæði könnunar. Hér er þó um að ræða viss frávik og gætir þar mest meira vægis útgjalda til húshitunar og rafmagns úti á landi.

Stefnt var að því frá upphafi að væntanlega nýr vísitölugrundvöllur yrði byggður á niðurstöðum neyslu­könnunar á höfuðborgarsvæði, en jafnframt var gert ráð fyrir að taka visst tillit til niðurstaðna af könnun úti á landi. Var það gert að því er varðar liði húshitunar og rafmagnsnotkunar. Talið var frágangssök að ganga lengra í þessu efni vegna örðugleika á öflun upplýsinga og stórfellds kostnaðar við að koma á fót og starfrækja kerfi er tæki til staða utan höfuðborgarsvæðisins. Í þessu sambandi verður að hafa hugfast að það eru hlutfallslegar breytingar á framfærsluvísitölu í heild og á einstökum þáttum hennar sem skipta meginmáli en ekki fjárhæð útgjalda í henni, svo og að ekki er ástæða til að ætla að hlutfallslegar breytingar vísitölu sem tekur einvörðungu til höfuðborgarsvæðisins séu í raun veru­lega aðrar en breytingar á vísitölu sem að hluta fylgir verðbreytingum utan þess.

Í aths. með frv. er gerð nánari grein fyrir tilhögun neyslukönnunarinnar 1978-1979 og að því er varðar niðurstöður er þar m.a. yfirlit með sundurgreiningu ársútgjalda samkv. þeim grundvelli sem lagt er til að verði lögfestur, ásamt með samsvarandi útgjöldum í gildandi grundvelli, hvort tveggja miðað við verðlag í febrúarbyrjun 1984. Í yfirliti þessu er og sýnd hlutfallsleg skipting útgjalda, annars vegar á nýjum grundvelli og hins vegar á gildandi grundvelli. Vísast til þess og til ýmislegs annars sem fram kemur í grg. með frv.

Rétt er að fram komi að reiknaðar hafa verið á þriggja mánaða fresti og á útreikningstímum gildandi vísitölu vísitölur skv. nýjum grundvelli og hefur þá verðlag 1. jan. 1981 verði látið jafngilda tölunni 100. Hefur hér verið talið eðlilegt að sleppa húsnæðislið beggja vísitalnanna, þannig að samanburðurinn er fyrir vísitölu vöru og þjónustu. Miðað við verðlag í febr­úarbyrjun 1984 er vísitalan samkv. nýja grunninum 395.5 stig miðað við janúar 1980 100 stig, en gildandi vísitala 398.1 stig. Hækkun nýju vísitölunnar á þriggja ára tímabili er sem svarar 0.65% minni en gildandi vísitölu.

Ef litið er á tímabilið síðan 1981 hafa breytingar vísitalna verið mjög svipaðar. Hækkun nýju vísitölunnar er ýmist meiri, mest 1.3%, eða minni, mest 1.7%, en gildandi vísitölu.

Frv. það sem hér er lagt fyrir Alþingi er að efni til að mestu samhljóða ákvæðum í fyrri lögum, eins og kemur fram í aths. við einstakar greinar frv. Þó eru nýmæli í 3. gr. þess. Hingað til hefur ekki verið lögákveðið neitt um endurskoðun á grundvelli vísitölu framfærslu­kostnaðar, en nú er lagt til í þessari grein frv. að kauplagsnefnd skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta fram fara athugun á því hvort ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölunnar. Skal slík athugun fyrst fara fram á árinu 1985. Hliðstætt ákvæði hefur verið í lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, nú í 5. gr. laga nr. 18/1983. Þá er og lagt til í 3. gr. frv. að kauplagsnefnd, sé hún sammála, sé veitt vald til að ákveða að umræddri athugun lokinni að neyslukönnun skuli fara fram svo og að hún geti, ef hún er sammála, látið nýjan vísitölugrunn taka gildi án þess að koma þurfi til lagasetningar.

Ég hef í því sem ég nú hef sagt rakið nokkuð aðdraganda og sögu framfærsluvísitölunnar. Ég hef vikið að og gert samanburð á þeim vísitölugrunni sem hér er lagt til að verði lögfestur og þeim sem hefur verið í gildi frá 1981. Þar er ekki ýkjamikill munur á. Það sýnist eðlilegt að sé um að ræða útreikning á fram­færsluvísitölu sé hann gerður með þeim hætti að hann sé í sem mestu samræmi við neysluþörf þeirra sem í landinu búa. Þess vegna er lagt til í 3. gr., eins og áður er tekið fram, að endurskoðun geti farið fram á fimm ára fresti og áður en slík endurskoðun fari fram, sem er geysiumfangsmikil og geysikostnaðarmikil, verði gerð athugun til undirbúnings því mikla verki.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv. Ég vísa til ítarlegrar grg. og þess samanburðar sem þar er á uppbyggingu þess vísitölugrunns sem nú gildir og þess sem unninn var samkv. könnuninni 1978–79.

Ég leyfi mér að vonast til þess að við getum í dag lokið 1. umr. þessa máls. Mér er fullkomlega ljóst að hér er um mál að ræða sem þm. vilja gjarnan gefa sér góðan tíma til að virða fyrir sér og athuga og sjálfsagt þarf hér að leita umsagnar og gefa aðilum tækifæri til að láta til sín heyra. Ég vildi þess vegna leyfa mér að mælast til þess við formann fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar að hann beiti sér fyrir samstarfi á milli fjárhags­og viðskiptanefnda beggja deilda, þannig að sú vinna sem fram undan er nýtist fyrir báðar deildir þingsins.

Ég leyfi mér síðan, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.